top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Plan-B stendur undir nafni


Plan B Art Festival, listahátíð, list, menning, gjörningar, Borgarnes, Vesturland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Skipuleggjendur Plan-B: Logi Bjarnason, Guðlaug Gunnarsdóttir, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Bára Dís Guðjónsdóttir og Sigþóra Óðinsdóttir. Á myndina vantar Agnar Frey Stefánsson. Ljósmynd Plan B Art Festival

Þrátt fyrir hertar sóttvarnarreglur og krefjandi aðstæður í samfélaginu hefst samtímalistahátíðin Plan-B Art Festival í Borgarnesi í dag og stendur yfir helgina, nánar tiltekið dagana 7. –9. ágúst. Árið í ár markar 5 ára afmæli hátíðarinnar en vegna COVID-19 hefur hátíðinni þó verið snúið á hvolf og dagskrá tekið talsverðum breytingum vegna þessa.


Í ár taka 19 listamenn frá 8 löndum þátt í hátíðinni og sýna fjölbreytt verk, sem þeim hefur með undraverðum hætti tekist að aðlaga að breyttu ástandi með skömmum fyrirvara.


Sigþóra Óðinsdóttir, ein af skipuleggjendum Plan B, sagði blaðamanni ÚR VÖR að teymið á bakvið hátíðina hefði ákveðið að keyra hátíðina af stað undir álögum heimsfaraldursins.

„Við erum að halda hátíð á tímum félagslegrar fjarlægðar og ætlum að vinna þetta á þann hátt að hún verður afmörkuð fyrir innan glugga á stóru húsnæði. Einnig verðum við með verk í almenningsrýmum og svo verður streymi og útfærsla tímatengdra verka á vefnum.“

Sýningarrými hátíðarinnar verða því með breyttu sniði. Líkt og Sigþóra minntist á verður Gluggagallerí í húsnæði Arion banka á Digranesgötu þar sem gestum gefst færi á að ganga umhverfis húsið og njóta listar utan frá. Þá verður tímastillt innsetning í Grímshúsi í Brákarey þar sem einum gesti í einu verður hleypt inn í rýmið, en einnig verður hægt að upplifa verkið að utan.

Plan B Art Festival, listahátíð, list, menning, gjörningar, Borgarnes, Vesturland, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Anna Fríða Jónsdóttir
Verk eftir Önnu Fríðu Jónsdóttur í Grímshúsi á Plan-B Art Festival 2018. Ljósmynd Plan B Art Festival

Hið víðfræga gjörningakvöld Plan-B verður svo streymt á laugardagskvöld kl. 20:00 á vefsíðu hátíðarinnar - planbartfestival.is. Þar verða á boðstólnum hinir ýmsu gjörningar og vídeóverk. Þrjú listaverk verða til sýnis í almenningsrými, við Landnámssetur Íslands, í matvöruversluninni Bónus og í Íþróttamiðstöðinni.


Plan-B heldur því áfram að smjúga listinni inn í hin óhefðbundustu rými, aðlaga sig að aðstæðum og víkka út rammann. Þess má geta að ÚR VÖR fjallaði um listahátíðina Plan B í maí mánuði á síðasta ári og er hægt að lesa meira um hátíðina hér: https://www.urvor.is/post/plan-b-listahatid-2019.


Við hvetjum áhugasama um að líta við í Borgarnesi um helgina sem og að fylgjast með streymi hátíðarinnar á laugardagskvöldinu.



Comments


bottom of page