top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Kominn tími á menninguna“


Sigursteinn Sigurðsson, Plan B listahátíð, Borgarnes, list, úr vör, vefrit
Sigursteinn Sigurðsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. Ljósmynd Sigursteinn Sigurðsson

Listahátíð Plan B hefur verið haldin í Borgarnesi árlega síðan árið 2016. Hátíðin í ár verður haldin dagana 9. til 11. ágúst og enn getur listafólk sótt um til að sýna verk sín á hátíðinni, en frestur til þess er til 26. maí næstkomandi. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til eins af skipuleggjanda hátíðarinnar, hans Sigursteins Sigurðssonar og fékk að heyra um sögu hátíðarinnar og hvernig undirbúningur gengur.


Sigursteinn segir að fjórir aðilar séu í skipulagshópnum og þau eigi það sameiginlegt að starfa í skapandi geira og tengjast öll Borgarnesi. Hann segir að þau hafi verið sammála um að það vantaði viðburði í menningarlíf bæjarins og því hafi þau viljað leggja fram þetta framlag til heimabæjarins.

„Hér hefur allt verið byggt upp á landbúnaði og iðnaði í gegnum tíðina og það hefur alltaf klikkað. Þess vegna er nafnið á hátíðinni Plan B, nú er sem sagt kominn tími á menninguna að okkar mati!“ segir Sigursteinn.
Halla Birgisdóttir, Plan B listahátíð, list, Borgarnes, úr vör, vefrit
Verk Höllu Birgisdóttir „Hún reynir að gera sig stærri“ Ljósmynd Plan B listahátíð

Að sögn Sigursteins eru skipuleggjendur hátíðarinnar stolt af þeirri staðreynd að um grasrótarhátíð sé að ræða. Listafólkið sem tekur þátt eru gjarnan að taka sín fyrstu skref og eru nýfarin að vekja athygli. Hann bætir þó við að undanförnu hafi þau fengið einnig þekktara listafólk til að taka þátt en frá upphafi hafi þau viljað fá fólk sem hristir upp í þessum heimi. „Við byrjum í upphafi árs að velja listamenn sem eru svokallaðir boðslistamenn. Með því gefum við tóninn um hvaða lína verður á hátíðinni. Svo auglýsum við open call sem er í gangi núna þar sem við óskum eftir umsóknum frá hverjum sem er. Umsækjendur eru svo valdir útfrá þeirri línu sem við leggjum með boðslistamönnunum.“ segir Sigursteinn.


Í kringum fjórtán listamenn taka þátt yfirleitt samkvæmt Sigursteini og er reynt að dreifa sýningunum á ýmsar staðsetningar í bænum og oft einblínt á rými sem fólki finnst kannski ekki við fyrstu sín hefbundin rými.

Sigursteinn segir að stundum hafi verið sýnt í hálfkláruðum húsum, iðnaðarhúsum og húsum í niðurníslu. Hann segir að skipuleggjendur reyni að fara aðeins útfyrir kassann varðandi þetta og finna út hvaða rými væri skemmtilegt að sýna í. Í fyrra heppnaðist t.a.m. mjög vel að hans sögn þegar sýnt var í tveimur heimahúsum í bænum.
Plan B listahátíð, Snorri Páll Jónsson, Borgarnes, list, úr vör, vefrit
Verk eftir Snorra Pál Jónsson sem sýnt var á hátíðinni. Ljósmynd Plan B listahátíð

„Annað húsið þar sem sýnt var í var húsið mitt. Herbergi stráksins míns var undirlagt, legóinu hent út og herberginu breytt í sýningarrými.

„Það var viðkvæmt fyrir 10 ára strák að sjá allt legóið vera sett út í bílskúr, en svo var hann svo hrifinn af verkinu sem sýnt var að hann stakk upp á að hafa það bara alltaf í herberginu sínu!“ segir Sigursteinn og hlær.

Bæði innlendir og erlendir listamenn sýna á hátíðinni og er lögð áhersla á að hafa þetta alþjóðlega hátíð. Sigursteinn segir að heimamenn taki vel í þetta og hefur ánægja þeirra aukist með hverju árinu og eru þeir duglegir að mæta á sýningarnar. „Fyrst hélt fólk sér í ákveðinni fjarlægð en nú er þetta farið að festa sig í sessi í bænum. Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöldinu, þá er gjörningakvöld í fjósi sem heitir Space of Milk sem er hérna á sveitabæ rétt fyrir utan Borgarnes.

Plan B listahátíð, Borgarnes, list, Ólöf Rún Benediktsdóttir, úr vör, vefrit
Verkið Vegferð/Trip eftir Ólöfu Rún Benediktsdóttir. Ljósmynd Plan B listahátíð

„Fólk kemur upp að manni og segist kannski ekki skilja hvað það er að sjá en að það finni þá orku sem er í gangi í verkunum. Það er líka svolítið markmið hjá okkur, að fólk hugsi upp á nýtt lífið og tilveruna.“ segir Sigursteinn.

Samkvæmt Sigursteini voru viðbrögðin frá sveitarfélaginu sein og lítil í fyrstu og að skipuleggjendur hafi verið að rekast á veggi lengi vel. Hann segir að hjá sveitarstjórnarfólki hafi verið takmarkaður skilningur á þessu og á vissan hátt verið fordómar á ferð. „En það er allt að breytast núna og fólk sér að þetta er allt mjög vandað. Við gefum út sýningarskrá og fáum góða umfjöllun og svo var það ákveðin staðfesting að komast á Eyrarrósarlistann. Þá sá fólk að við erum ekki bara að leika okkur og viðhorfið verður annað um leið.“ segir Sigursteinn.

Plan B listahátíð, Jakob Veigar, Borgarnes, list, úr vör, vefrit
Frá gjörningi Jakobs Veigar frá hátíð síðasta árs. Ljósmynd Plan B listahátíð

Listafólki hefur gefist kostur á að sækja gestavinnustofur fyrir sýninguna til að vinna að verkum sínum en að sögn Sigursteins var dregið úr þeim hluta hátíðarinnar í fyrra. Hann segir að skipuleggjendur vilji endurvekja það í ár. „Það er svo gott því þá gefst listafólkinu tækifæri til að vinna verk sín á staðnum og kynnast bænum og svæðinu. Gestavinnustofurnar eru í tvær til þrjár vikur og erum við með góða bakhjarla í bænum sem bjóða fram aðstoð sína, ekki endilega með fjármagni heldur með því að bjóða fram gistingu eða vöruskipti.“ segir Sigursteinn.


Sigursteinn segir að þegar að umsóknarfrestur varðandi open call loki taki við mikil vinna að vinna úr umsóknunum. Hann segir að það berist margar umsóknir árlega og að farið sé faglega yfir hverja umsókn fyrir sig áður en fólki sé gefið svar um hvort það komist að eða ekki. Eftir það taki við vinna við að finna hentug húsnæði ti að sýna í og áframhaldandi styrkjaöflun, en sú vinna hefst fljótlega eftir áramót að hans sögn.

Plan B listahátíð, Borgarnes, list, úr vör, vefrit
Skipuleggjendur hátíðarinnar f.v. Sigursteinn Sigurðsson, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, Logi Bjarnason og Bára Guðjónsdóttir. Ljósmynd Plan B listahátíð

„Það má segja að Plan B sé á skrifborðinu hjá manni allt árið því eftir hátíðina þarf að gera hana upp og skrifa skýrslur. Þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu og er mikil vinna, en það er vel þess virði því þetta er virkilega gefandi.“ segir Sigursteinn að lokum.


Comments


bottom of page