Úthverfavirki
- ÚR VÖR
- 10 minutes ago
- 2 min read

Laugardaginn 4. október n.k. opna sýningar Sigurðar Ámundasonar sem bera nafnið ÚTHVERFAVIRKI og verða sýningarnar í Múlanum Neskaupstað, Safnaðarheimili Eskifjarðarkirkju og í Beljandi Brugghúsi á Breiðdalsvík.
Í fréttatilkynningu frá Listasafni ASÍ kemur fram að opnunarhátíðin verði á morgun, nánar tiltekið þann 4. október varir frá kl. 14:00 til 18:00 þar sem farið verður á milli staða í rútu. Sýningarnar standa svo yfir til sunnudagsins 26. október næstkomandi. Reglulegur opnunartími verður auglýstur síðar.
Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að Sigurður Ámundason sé fæddur 1986 og lauk hann BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2012. Meðal nýlegra verkefna og sýninga má nefna Rómantísk gamanmynd, leikrit unnið í samstarfi við Jóhann Kristófer Stefánsson og Tatjönu Dís Aldísar Razoumeenko (2025). After The Sun: Forecasts From the North í Buffalo AKG Art Museum (2024). Hvað er hvað var hvað verður - Ars Longa, Djúpavogi (2023), Billboard 450 led auglýsingaskjáir á höfuðborgarsvæði – Rétthermi (2023), Hið ósagða, leikrit (handritshöfundur, leikstjóri, leikari) (2022), What´s Up Ave Maria? Í Hafnarborg (2022), og Raw Power – Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsi (2021).
Sigurður er áræðinn við að prófa sig áfram með mismunandi listform. Hann hefur unnið jafnt og þétt að því að þróa sitt eigið myndmál að mestu óháð ríkjandi straumum og stefnum. Efnisnotkunin er nokkuð óvenjuleg og hann fer óhræddur út í almenningsrýmið og fangar þar athygli með einstöku myndmáli.
Sigurður Ámundason er fimmti listamaðurinn sem velst til þátttöku í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu. Safnið kallar reglulega eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja taka þátt í sýningarröðinni og eitt verkefni valið hverju sinni. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem taka þátt og eru til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum.
Svo við vitnum aftur í fréttatilkynningu Listasafns ASÍ þá kemur þar fram að við val á sýningarstöðum njóti listamaðurinn og safnið dyggrar aðstoðar frá ýmsum aðilum þ.m.t. aðildarfélögum ASÍ á viðkomandi svæði, sveitarfélögum, menningarmiðstöðvum, fyrirtækjum og einstaklingum. Samhliða sýningunum eru haldin myndlistarnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er m.a. með elstu verkin í safneigninni og gerðar stuttmyndir fyrir heimasíðu safnsins.
Sýningarstjóri sýninga Sigurðar Ámundasonar ÚTHVERFAVIRKI er Elísabet Gunnarsdóttir. Við hvetjum áhugasama um að kynna sér endilega þessar spennandi sýningar fyrir austan.
Comments