Atvinna og ástríða
- ÚR VÖR
- 24 minutes ago
- 4 min read

Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR er í samstarfi við Heimildina, þar sem Heimildin birtir efni frá ÚR VÖR reglulega.
Hjónin Giacomo Montanelli og Serena Pedrana ákvaðu að venda kvæði sín í kross fyrir rúmlega 10 árum síðan og fluttu frá Ítalíu hingað til lands árið 2014. Þau settust að á Akureyri og hafa verið þar síðan þá og una sér vel. Árið 2023 settu þau á fót sitt eigið fyrirtæki, Rækta Microfarm, og rækta þar grænsprettur á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Um er að ræða alls kyns kryddjurtir, grænmeti og sælkerasveppi og hafa viðtökurnar verið frábærar.
Giacomo, sem er frá norður Ítalíu, var orðinn þreyttur á landinu sínu og segir að þar kvarti allir undan öllu. Hann segist ekki hafa viljað enda þannig sjálfur, hann hafði komið til Íslands sem ferðamaður og líkað vel og ákvað að bjóða fram krafta sína sem sjálfboðaliði hér á landi fyrir rúmlega 10 árum síðan.
„Það var aðili sem bauð mér að koma og starfa fyrir sig, þannig að ég flutti norður í land, til Akureyrar og hef verið þar síðan. Ég virkilega elska að búa þar, fólkið þar er yndislegt og stærðin á bænum fullkomin. Konan mín flutti nokkrum mánuðum á eftir mér hingað á, en hún varð eftir á Ítalíu til að klára námið sitt.“ segir Giacomo.
Giacomo starfaði svo við ræktun fyrir fyrirtækið Urban Farm í kjölfarið og segist svo hafa ákveðið að halda áfram að gera það, eftir að það fyrirtækið hætti starfsemi sinni. „Ég hélt áfram að gera það sem ég hafði verið að gera hjá Urban Farm á Akureyri. Eigandinn þar lokaði og ég og konan mín ákvaðum að stofna okkar eigið fyrirtæki í október mánuði árið 2023. Verkaskiptingin milli okkar er þannig að ég sé um ræktunina og konan mín sér um markaðsfræðina, samfélagsmiðla og allt sem snýr að tölvuvinnu. Ég hef alltaf kunnað vel við garðrækt og ræktun og því er þetta fullkomin blanda af atvinnu og ástríðu, ég elska samtalið við viðskiptavinina, að eiga samtal um hvað þeir vilja og þurfa.“ segir Giacomo.
Þau hjón rækta svokallaðar grænsprettur, en það kallast á ensku microgreens. Þetta er sem sagt grænmeti og jurtir sem þau rækta þar til fyrstu laufin fara að birtast. „Þegar þetta er svona smátt þá er þetta fullt af næringarefnum. Til að mynda er 40 sinnum meira af næringarefnum í handfylli af grænsprettum af brokkólí heldur en í fullvaxta brokkólí. Við ræktum brokkólí, hvítlaukskál, baunir, kóríander og ýmsar gerðir af basiliku, eins og sítrónu basil, lakkrís, og kanil. Veitingastaðir eru 99% af viðskiptavinum okkar, hér á Akureyri og í nágrenni Mývatns, þau nota þetta til að skreyta og svo er þetta líka svo bragðgott.“ segir Giacomo.

Giacomo segir að þau hafi fengið styrk frá SSNE sem þau notuðu til að bjóða leik- og grunnskólabörnum í heimsókn til sín til að sýna þeim hvað þau væru að gera.
„Þetta gerðum við til að vekja áhuga þeirra á að rækta eigin mat og krakkar eru mjög áhugasöm og spennt fyrir öllum litunum í þessu og plöntunum. Svo tókum við þátt í Startup Stormur á vegum Norðanáttar, þökk sé konunni minni. Ég hafði mínar efasemdir, ég er ekki mikið fyrir að ota mínum tota eða að vera í sviðsljósinu en þetta var virkilega góð reynsla. Þetta aðstoðaði mig við að sjá skýrar hvaða leið við ættum að fara og svo kynntist maður góðu fólki í leiðinni.“ segir Giacomo.
Hann segir að það sé mikill munur á því hversu auðvelt sé að koma hugmynd í framkvæmd hér á landi eða á Ítalíu. Að sögn hans þá ræðir fólk hlutina fram og tilbaka 200 sinnum á Ítalíu og gerir svo kannski ekkert að lokum. Og svo er gríðarlegt skrifræði þar. En aftur á móti hér á landi, hér eru allir svo hjálpsamir, sérstaklega ef maður hefur eitthvað nýtt fram að færa. Og svo bendir hann á annan mun, að á Ítalíu hefur nánast allt verið gert áður, fólk þarf ekkert nýtt, en hér er aftur á móti margt sem ekki hefur verið gert.
Giacomo segir að aðstaðan þeirra hér sé ekki svo stór, eða um 75 ferkílómetrar. Þau rækta lóðrétt í hillum og svo eru þau með tvö tjöld þar sem þau rækta hamp, þannig að ekki er um að ræða plássfreka starfsemi.
„Ég hef áhuga á að víkka út starfsemina og fá viðskiptavini á Austurlandi og í Reykjavík, en eitt flækjustigið er það að ég nota margnota bakka undir grænmetið, sem ég vil fá aftur. Ég mun ekki víkja frá þeirri stefnu, mér er umhugað um umhverfið og það er algjör þvæla að hafa plastbakka sem maður notar bara einu sinni. Við erum með gæðavöru og við látum líka vini okkar sem eru bændur fá jarðveginn sem þau geta endurnýtt. Þannig að þeir viðskiptavinir sem versla hjá okkur safna saman bökkunum og senda okkur tilbaka einu sinni í mánuði.
Maður er í góðu sambandi við viðskiptavini sína og það er líka hentugt hvað varðar þessa starfsemi að þeir geta óskað eftir því að fá ákveðna stærð af vörunni, minni eða stærri, það væri öðruvísi en ef þeir myndu panta að utan. Þetta samtal og sú staðreynd er líka kannski ástæðan fyrir því að viðtökurnar eru mjög góðar og viðskiptavinirnir eru virkilega ánægðir.“ segir Giacomo að lokum.