top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Skjaldborg 2022


Skjaldborgarhátíð, Skjaldborg, heimildarmyndir, heimildamyndahátíð, Patreksfjörður, listir, menning, kvikmyndir, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Skjaldborgarhátíðin fór fram í byrjun júní mánaðar á Paktreksfirði. Ljósmynd aðsend

Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda var haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði, nánar tiltekið dagana 3. - 6. júní 2022. Eftir reikul ár í heimsfaraldri var hátíðin loks komin aftur í sitt upprunalega form og nú var fagnað. Enginn var svikinn af heimildamyndaveislu, gæðastundum í Skjaldborgarbíói, skrúðgöngu, plokkfiskveislu, limbókeppni og sumarnóttinni á Patreksfirði. Í ár var einnig sérstök áhersla lögð á notkun sögulegs efnis í heimildamyndagerð.

Í fréttatilkynningu frá forsvarsfólki hátíðarinnar segir að Skjaldborg sé kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.

Dagskráin í Skjaldborgarbíó var fjölbreytt og auk heimildamynda og kynningu á verkum í vinnslu var Kvikmyndasafn Íslands með sér dagskrárlið, Ari Eldjárn fylgdi áhorfendum gegnum myndefni frá fjölskyldu sinni og Björg Sveinbjörnsdóttir frá Hversdagssafninu á Ísafirði gaf áhorfendum innsýn í hljóðin úr eldhúsi ömmu sinnar.

Þá var heimamyndadagur hluti af hátíðinni og einn dagskrárliðurinn var því óborganlegt heimamyndabingó sem spilað var upp úr heimagerðu myndefni Vestfirðinga. Á heimamyndadegi tóku sérfræðingar Heimamyndasamsteypunnar við heimagerðum hreyfimyndum fólks á ýmsum miðlum; filmum af háaloftinu, vídeóspólum eða stafrænu efni. Farið var yfir ástand efnisins og það lagfært – og úrval heimamynda var sýnt á stóra tjaldinu.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár var Magnus Gertten en hann er margverðlaunaður heimildamyndagerðarmaður frá Svíþjóð. Hann hlaut Teddy verðlaunin á Berlinale fyrr á þessu ári fyrir heimildamyndina Nelly & Nadine sem verður jafnframt opnunarmynd Skjaldborgar í ár.
Skjaldborgarhátíð, Skjaldborg, heimildarmyndir, heimildamyndahátíð, Patreksfjörður, listir, menning, kvikmyndir, Magnus Gertten, heiðursgestur, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Heiðursgestur hátíðarinnar í ár, Magnus Gertten. Ljósmynd aðsend

Nelly & Nadine er ástarsaga tveggja kvenna sem felldu hugi á aðfangadag árið 1944 í Ravensbrück útrýmingarbúðunum. Þrátt fyrir aðskilnað síðustu mánuði seinni heimsstyrjaldarinnar náðu þær saman á ný og vörðu ævikvöldinu saman. Í verkinu afhjúpar dótturdóttir Nelly hina ótrúlegu og ósögðu sögu ástkvennanna sem nær yfir heimshöfin og samfélagsleg norm þess tíma.

Einnig var sýnd myndin Every Face has a Name í leikstjórn Gerttens sem byggir á dýrmætu sögulegu efni. Every Face Has a Name er mynd um mennskuna og marglaga merkingu frelsisins. Þann 28. apríl 1945 stigu hátt í tvö þúsund manns á land í Malmö eftir dvöl í útrýmingarbúðum nasista. Fest var á filmu þegar skipin lögðu að höfn og fólkið steig á land í nýfundið frelsið. Í verkinu leggur Magnus Gertten upp í þá vegferð að finna fólkið á myndunum, ljá þeim rödd og tengja við persónu nafnlausra andlitanna.

Verðlaunaafhending hátíðarinnar fór fram í félagsheimilinu áður en hljómsveitin Celebs lék fyrir dansi á lokaballi hátíðarinnar. Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að áhorfendaverðlaunin Einarinn hlaut heimildamyndin „Velkominn Árni“ eftir Viktoríu Hermannsdóttur og Allan Sigurðsson.

Í myndinni heyrum við sögu Árna Jóns Árnasonar, sem á áttræðisaldri kemst óvænt að því hver faðir hans kann að hafa verið. Við fylgjum Árna eftir í leit að svörum um uppruna sinn og kynnumst þroskasögu manns sem hefur ekki alltaf þorað að fylgja eftir draumum sínum.

Skjaldborgarhátíð, Skjaldborg, heimildarmyndir, heimildamyndahátíð, Patreksfjörður, listir, menning, kvikmyndir, Viktoría Hermannsdóttir, Allan Sigurðsson, Einarinn, áhorfendaverðlaun, Velkominn Árni, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Viktoría Hermannsdóttir og Allan Sigurðsson, sem standa á bakvið myndina Velkominn Árni sem vann áhorfendaverðlaunin Einarinn á hátíðinni. Ljósmynd aðsend

Heimildamyndin Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson hlaut dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann. Myndin fjallar um körfuboltaflokkur fyrir stelpur sem var stofnaður 2015 en þjálfarinn var óvenjulegur og hækkaði sífellt rána. Þær voru þjálfaðar sem leiðtogar utan vallar og afrekskonur innan vallar. Þetta er saga 8-13 ára stúlkna sem vildu breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi. Með miklum fórnarkostnaði mættu þær mótlætinu sem því fylgdi.

Hvatningarverðlaun Skjaldborgar hlaut myndin Thinking about the Weather eftir Garðar Þór Þorkelsson sem dómnefnd þótti sameina marga af mikilvægum þáttum heimildamyndargerðar. Myndin fjallar um viðfangsefni sem skiptir okkur öll miklu máli, þrátt fyrir að við séum kannski ekki alltaf á sömu skoðun. Örvæntingarfullur vegna yfirvofandi loftslags-heimsenda fer kvikmyndagerðarmaðurinn í för um Bretlandseyjar. Leiðin liggur til afskiptra byggða sem brátt munu sökkva í sæ. Hann vonar að þar geti hann lært að takast á við kvíðann sem fylgir því að lifa í dauðadæmdri veröld, en mannskepnan bregst við með ófyrirsjáanlegasta móti.

Þáttakendur og skipuleggjendur voru sammála um að vel hefði tekist til og gaman er að sjá að hátíðin sé aftur farin af stað eftir heimsfaraldur. Þess ber að geta að fjallað hefur verið áður um Skjaldborgarhátíðina í vefritinu og hægt er að lesa allt um það hér: https://www.urvor.is/post/skjaldborgarhatid-2019


Bình luận


bottom of page