top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Nokkrum skrautkúlum bætt við töfraformúlu


Skjaldborgarhátíðin, Patreksfjörður, Kristín Andrea Þórðardóttir, úr vör, vefrit
Kristín Andrea Þórðardóttir, helmingur tvíeyksins að baki hátíðarinnar. Ljósmynd Helga Rakel Rafnsdóttir

Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um næstkomandi Hvítasunnuhelgi á Patreksfirði, nánar tiltekið dagana 7. til 10. júní. Á þessari árlegu hátíð eru frumsýndar nýjar íslenskar heimildarmyndir í Skjaldborgarbíóinu, gömlu aðlaðandi kvikmyndahúsi bæjarins. Blaðamaður ÚR VÖR talaði á dögunum við helming tvíeyksins sem stendur að baki hátíðarinnar, Kristínu Andreu Þórðardóttur á dögunum og forvitnaðist um hátíðina.


Kristín segir að dagskrá hátíðarinnar sé hlaðin spennandi viðburðum alla helgina og að á hverju ári sé ákveðnum heiðursgesti boðið að vera viðstaddur. Hún segir að yfirleitt sé um að ræða alþjóðlegan reynslubolta úr faginu og með honum sé haldinn svokallaður masterclass. „Auk þéttrar dagskrár í kvikmyndahúsinu þá erum með fjölda dagskrárliða frá morgni til kvölds í formi matarveisla og skemmtidagskrár. Á lokakvöldinu, að lokinni atkvæðagreiðslu áhorfenda í bíóinu, þá erum við með uppistand á meðan talning atkvæða fer fram.

Að því loknu safnast svo allir saman fyrir utan bíóið og ganga fylktu liði í skrúðgöngu upp í félagsheimilið þar sem haldið er ball. Þar er dansaður kongadans og svo keppt í limbókeppni áður en úrslitin úr atkvæðagreiðslunni eru gerð ljós. Eftir verðlaunaafhendingu tekur hljómsveit kvöldsins við og gleðin ræður ríkjum vel fram undir morgunn!“ segir Kristín.
Skjaldborgarhátíð, Ragnar Ísleifur Bragason, Atli Már Hafsteinsson, úr vör, vefrit
Ómissandi hluti hátíðarinnar undanfarin ár hefur verið kynnirinn Ragnar Ísleifur Bragason sem farið hefur á kostum. Ljósmynd Atli Már Hafsteinsson

Að sögn Kristínar verður þetta í 13. sinn sem hátíðin er haldin en fyrsta hátiðin var haldin árið 2007. Aðsóknin er iðulega mjög góð en Kristín segir að erfitt sé að henda reiður á hversu margir leggi leið sína vestur þessa tilteknu helgi.

„Það er erfitt að telja gestina því þetta eru mismunandi dagskrárliðir á mismunandi stöðum. Það er alltaf frítt í bíóið og er það gert til þess að heimafólk geri sér frekar ferð í bíó, því það hefur ekki kannski tök á að taka frí heila helgi og sitja í bíó frá morgni til kvölds. Okkur finnst mikilvægt að heimafólk geti skotist inn á eina og eina “

„Talningin er því örlítið flókin, en við erum með þessar matarveislur og ballið og hægt er að kaupa armband inn á þá viðburði og fylgir því frír aðgangur í sund alla helgina. En svo má líka kaupa sig inn á staka viðburði og það hafa komið hátt í 300 manns á lokaballið til að mynda alla leið frá norðurfjörðunum og Stykkishólmi, bara til að koma á ballið og það er auðvitað gleðiefni.“ segir Kristín.

Skjaldborgarhátíð, Patreksfjörður, Atli Már Hafsteinsson, úr vör, vefrit
Fjölbreytt dagskrá er yfir helgina utan kvikmyndahússins á hátíðinni með matar-og tónlistarveislum. Ljósmynd Atli Már Hafsteinsson

Hátíðin er haldin á Patreksfirði vegna glæsilegs kvikmyndahúss bæjarins samkvæmt Kristínu. Hún segir að upphaflegir stofnendur hátíðarinnar hafi tekið eftir húsinu og farið að forvitnast um það og hvort möguleiki væri að halda slíka hátíð þar.

„Það var engin heimildamyndahátíð á Íslandi á þeim tíma og það var ákveðin vöntun á slíkri hátíð. Þetta er kjörinn vettvangur til að þjappa heimildamyndagerðarfólki saman en það að stunda heimildamyndagerð er ekki jafn mikil hópíþrótt eins og leiknu myndirnar til að mynda. Það er gaman að hittast, bera saman bækur og skapa samtal.“ segir Kristín.

Einn af mest spennandi dagskrárliðum að sögn Kristínar er liður sem kallast „Verk í vinnslu“. Fólki gefst þar kostur á að senda inn verk sem eru líkt og nafnið segir, enn í vinnslu. Kristín segir að þetta sé gott tækifæri fyrir þá sem eru að brasa í þessu fagi, að viðra hugmyndir sínar við kollega sína og fá viðbrögð við því. Þess ber að geta að umsóknargáttin á heimasíðu hátíðarinnar er bæði fyrir tilbúnar myndir sem og fyrir verk í vinnslu. Fresturinn til að sækja um er til 26. apríl næstkomandi.

Skjaldborgarhátíð, Patreksfjörður, Atli Már Hafsteinsson, úr vör, vefrit
Gestir hátíðarinn mynda oft góð tengsl í þeirri miklu samveru sem er yfir hátíðina. Ljósmynd Atli Már Hafsteinsson

Samkvæmt Kristínu er Skjaldborgarhátiðin með stærstu viðburðunum fyrir vestan. Hún segir að þessa helgi gefst heimamönnum og aðkomnum kostur á að sjá heimildamyndir, stórar sem smáar, sem annars kæmu vart fyrir augu þeirra. „Það hefur líka sýnt sig að ávinningur þjónustuaðila á svæðinu hvort sem það er í ferða-, veitinga- eða gistiþjónustu er mikill en Skjaldborgarhelgin er ein sú stærsta á svæðinu þegar við kemur veltu og gestafjölda.

Svo má líka segja að hátíðin hafi gert Skjaldborgarbíó að miðpunkti og heimili heimildamyndagerðar á Íslandi.“ bætir Kristín við.

Kristín segir að hátíðin hafi frá upphafi átt í farsælu samstarfi við heimamenn og til að mynda notið hæfileika Einars Vignis Skarphéðinssonar smíðakennara sem hefur af miklum hagleik skorið út áhorfendaverðlaunin Einarinn úr mismunandi við ár eftir ár. Að auki hafi samstarfið við Lionsmenn á Patreksfirði, sem reka Skjaldborgarbíó, verið ákaflega farsælt og ánægjulegt sem og við Kvenfélagið Sif sem hafi eldað plokkfisk handa öllum gestum hátíðarinnar um árabil.

Skjaldborgarhátíð, Söngur Kanemu, Patreksfjörður, úr vör, vefrit
Aðstandendur myndarinnar Söngur Kanemu ásamt formanni dómnefndar, Ragnari Bragasyni. Myndin var tvöfaldur sigurvegari Skjaldborgarhátíðar síðasta árs, hlaut bæði dómnefndar- og áhorfendaverðlaunin. Ljósmynd Atli Már Hafsteinsson.

Aðspurð segir Kristín það mest gefandi þegar hún sjái annað fólk tengjast á viðburði sem hún hafi tekið þátt í að vinna hörðum höndum að. „Það nær hámarki á ballinu, þar sem fólk skemmtir sér og fagnar með sigurvegara hátíðarinnar.

Ég held að þessi mikla samvera sem á sér stað yfir helgina sé þetta auka krydd sem gerir svo mikið fyrir stemmninguna sem fengist líklega ekki ef hátíðin væri til að mynda haldin í Reykjavík. Við erum saman í bíóinu frá morgni til kvölds, borðum saman og gistum saman Úr slíkri samveru hefur líka orðið til samstarf í kölfarið.“ segir Kristín.
Skjaldborgarhátíð, Skjaldborgarbíó, Patreksfjörður, Atli Már Hafsteinsson, úr vör, vefrit
Gestir fjölmenna í Skjaldborgarbíó um Hvítasunnuhelgina ár hvert á Patreksfirði. Ljósmynd Atli Már Hafsteinsson

Samkvæmt Kristínu hafa ekki verið miklar viðbætur í gegnum árin við hátíðina frá því að hún var sett á fót. „Við bættum þó við dómnefndarverðlaununum fyrir tveimur árum og svo hefur tekist afar gott samstarf við Húsið-Creative Space en þar hafa verið sýnd listræn myndbandsverk í hliðarprógrammi við hátíðina. Það hafði ekki verið gert áður, að sýna eitthvað utan kvikmyndahússins og er það kærkomin viðbót.

Þetta eru svona litlar viðbætur sem lyfta hátíðinni, nokkrar auka skrautkúlur. En kjarni dagskrárinnar hefur verið sá sami frá upphafi, þetta var bara einhver töfraformúla, vel samsett dagskrá með miklum fjölbreytileika.“ segir Kristín að lokum.


Comments


bottom of page