top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Skjaldborg 2023


Skjaldborgarhátíð, Skjaldborg, Patreksfjörður, heimildarmyndir, list, menning, Vestfirðir, landsbyggðin, kvikmyndir, úr vör, vefrit, Patrik Ontkovic
„Hátíðinni lauk formlega á sunnudagskvöldinu og samkvæmt hefðinni gengu gestir hátíðarinnar fylktu liði í skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói í Félagsheimili Patreksfjarðar.“ Ljósmynd Patrik Ontkovic

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda var haldin á Patreksfirði í sextánda sinn um síðastliðna hvítasunnuhelgi, dagana 26.-29. maí. Sautján íslenskar heimildamyndir voru frumsýndar og fimm verk í vinnslu kynnt.


Samkvæmt fréttatilkynningu frá forsvarsfólki hátíðarinnar var aðsókn á hátíðina með mesta móti og var salurinn í Skjaldborgarbíói þéttsetinn af áhorfendum alla helgina. Heiðursgestir hátíðarinnar í ár voru þau Corinne van Egeraat og Petr Lom, heimildamyndahöfundar og framleiðendur ZINdoc. Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að mannréttindi og tjáningarfrelsi séu þeirra helsta viðfangsefni og dæmi um það er myndin Myanmar Diaries sem kom út 2022 og hefur unnið til fjölda verðlauna. Eftir að myndin var sýnd var leikstjóraspjall við heiðursgestina tvo í umsjón Kristjáns Loðmfjörð, klippara og leikstjóra.


Svo haldið sé áfram að vitna í fréttatilkynninguna þá var á laugardagskvöldinu plokkfiskveisla í boði kvenfélagsins Sifjar og Odda og kórinn Veirurnar troða upp og að lokinni síðustu kvikmyndasýningu á laugardagskvöldinu hélt Lotto tónleika og DJ sett. Kristján Torfi Einarsson hitaði upp með tónlist úr heimildamyndinni SKULD, en hún var einmitt frumsýnd á hátíðinni.

Hátíðinni lauk formlega á sunnudagskvöldinu og samkvæmt hefðinni gengu gestir hátíðarinnar fylktu liði í skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni dagskrá í Skjaldborgarbíói. Verðlaunaafhending fór fram í félagsheimilinu og boðið var upp á limbó, bingó og að lokum steig DJ tvíeykið TWIN TWIN SITUATION á svið, en það voru þeir DJ Ívar Pétur og Hermigervill. Þeir tvíburar mættu með stútfullar partýtöskur af danstónlist og gestir dönsuðu vel inn í vestfirsku vornóttina.

Dómnefnd Skjaldborgar 2023 var skipuð þeim Margréti Bjarnadóttur, danshöfundi og myndlistarkonu, Antoni Mána Svanssyni, kvikmyndaframleiðanda og Jóni Bjarka Magnússyni, mannfræðingi og heimildamyndahöfundi.


Höfundar myndanna tóku við verðlaunum en tækjaleigan Kukl og eftirvinnslufyrirtækið Trickshot veittu veglegt verðlaunafé til vinningshafa Einarsins og Ljóskastarans sem hvor um sig hlýtur inneign að verðmæti 500 þúsund krónur í tækjaleigu og 250 þúsund krónur í formi eftirvinnslu.


Skjaldborgarhátíð, Skjaldborg, Patreksfjörður, heimildarmyndir, list, menning, Vestfirðir, landsbyggðin, kvikmyndir, úr vör, vefrit, Patrik Ontkovic
„Samkvæmt fréttatilkynningu frá forsvarsfólki hátíðarinnar var aðsókn á hátíðina með mesta móti og var salurinn í Skjaldborgarbíói þéttsetinn af áhorfendum alla helgina.“ Ljósmynd Patrik Ontkovic

Ljóskastarinn Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2023, Ljóskastarann, hlaut „Soviet Barbara, sagan um Ragnar Kjartansson í Moskvu“ eftir Gauk Úlfarsson. Verðlaunagripurinn er hannaður af Kristínu Maríu, og er steyptur úr gifsi.

Í umsögn dómnefndar segir: „Dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlýtur mynd sem vakti heitar umræður á meðal dómnefndarmeðlima. Myndin er í grunninn nærmynd af einum fremsta listamanni þjóðarinnar á þeim tíma sem hann tekst á við gríðarstórt verkefni í Moskvu og fjölþættar áskoranir sem því fylgir, en skarast að lokum við heimssögulegan atburð sem setur listina og lífið í nýtt samhengi. Hún er í senn hrífandi og óþægileg – einstaklega athyglisverð og marglaga frásögn sem vekur upp stórar og flóknar spurningar.“


Einarinn Áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2023, Einarinn, hlaut Heimaleikurinn eftir Smára Gunnarsson og Loga Sigursveinsson. Áhorfendakosning ræður þeim verðlaunum og verðlaunagripurinn er sérhannaður og smíðaður hvert ár af Einari Vatneyr Skarphéðinssyni, smiði á Patreksfirði, sem gripurinn er skírður í höfuðið á.

Hvatningarverðlaun Hvatningarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlaut Skuld eftir Rut Sigurðardóttur. Í umsögn dómnefndar segir: „Hvatningarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlýtur mynd sem dómnefndarmeðlimum þótti sérstaklega hlý, fyndin og falleg. Mynd sem opnar glugga inn í heim smábátaeigenda og handfæraveiða á persónulegan og heillandi máta. Höfundur beitir sterkri sjónrænni nálgun og fer einstaklega vel með hlutverk sitt allt í kring um myndavélina svo úr verður allsherjar óður til ástarinnar, framtaksseminnar – og strandveiða.“

Til gamans má geta að vefritið ÚR VÖR hefur fjallað um Skjaldborgarhátíðina síðastliðin ár og má lesa almenna umfjöllun um hátíðina hér: https://www.urvor.is/post/skjaldborgarhatid-2019


bottom of page