top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Útgáfu nýrra Pastel verka fagnað


Pastel ritröð, Flóra menningarhús, ritröð, list, menning, Kaffi List, Akureyri, ritverk, norðurland, útgáfa, útgáfuhóf, Daníel Starrason, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Í ritunum birtast ljósmyndir, myndbrot, teikningar, dagbókarbrot, frjálslegri prósar, formfastur ljóðabálkur, smásögur, örleikrit, skáldsaga - allt eftir því um hvaða verk er að ræða.“ Ljósmynd Daníel Starrason

Útgáfuhóf Pastel ritraðar var haldið í Kaffi og List laugardaginn 3. október síðastliðinn þar sem fagnað var fjórum nýjum listaverkum í ritröðinni, verkum númer 20 til 23. Með umsjón ritraðarinnar fer Flóra menningarhús á Akureyri og kom fram í fréttatilkynningu í aðdraganda útgáfunnar að í undirbúningi séu að auki fimm verk, sem munu koma út á næsta ári, eða árið 2021.

Pastel ritröð er vettvangur mjög ólíkra listamanna að norðan og sunnan, til listsköpunar og sameiginlegs viðburðarhalds. Pastel virkar einnig vel til kynningar á bókverkagerð sem listformi og til tengslamyndunar nýgræðinga og reynslubolta í skapandi geiranum.

Hér geta líka reyndari listamenn farið út fyrir sinn eigin ramma eða hliðrað vinnslurammanum til og reynt nýtt.


Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að verkin séu hvert og eitt ólík blanda myndefnis og texta, sum meira af einu en öðru og eru í raun listaverk í ritaformi. Ritin eru fíngerð, vandræðalaus og innihaldsrík og útlitslega séð skapa þau litríka og glaðlega, en fyrirferðalitla heild á hillu heimilis eða vinnustaðar. Hönnun og umbrot er í höndum Júlíu Runólfsdóttur og hægt er að nálgast eintök í Hafnarhúsinu-Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyri og í Flóru á Akureyri.


Verkin sem komu út á dögunum voru eftirfarandi: Nr. 20- Brák Jónsdóttir og Þórir Hermann Óskarsson: Preluding with fragmental elements, Nr. 21 Magnús Helgason: Regnbogar eru ekki hundamatur, Nr. 22 Hekla Björt Helgadóttir: Stalín, ástin mín og Nr. 23 Ármann Jakobsson: Goðsögur.

Pastel ritröð, Flóra menningarhús, ritröð, list, menning, Kaffi List, Akureyri, ritverk, norðurland, útgáfa, útgáfuhóf, Daníel Starrason, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Viðstaddir skemmtu sér vel í útgáfuhófi ritraðarinnar á Kaffi List á dögunum. Ljósmynd Daníel Starrason

Einnig kemur fram í fréttatilkynningunni að Pastelritin séu á hvert sinn hátt skýrar og hnitmiðaðar skráningar á upplifunum, skynjunum og túlkunum viðkomandi höfundar á margræðum og síbreytilegum samtíma okkar.

Í ritunum birtast ljósmyndir, myndbrot, teikningar, dagbókarbrot, frjálslegri prósar, formfastur ljóðabálkur, smásögur, örleikrit, skáldsaga - allt eftir því um hvaða verk er að ræða. Fyrirmyndir útgáfunnar eru fundagerðir sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu frá miðri seinustu öld.

Pastel er fjármagnað af listafólkinu sjálfu, Flóru menningarhúsi, Uppbyggingarsjóði Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi-Eystra, Menningarsjóði Akureyrar-Akureyrarstofu og Ásprenti - auk sölu eintaka. Við hvetjum áhugasama um kynna sér ritröðina og útgáfurnar, en um er að ræða sérstaklega glæsileg og áhugaverð rit.


Þess ber að geta að ÚR VÖR fjallaði um Flóru menningarhús á síðasta ári þar sem einmitt var komið inn á Pastel ritröð, en hægt er að lesa meira um það hér: https://www.urvor.is/post/flora-2019



bottom of page