top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„List og menning á að vera laxinn sjálfur“


Flóra, Akureyri, norðurland, menning, listir, landsbyggðin, Daníel Starrason, úr vör, vefrit
Kristín Þóra Kjartansdóttir, staðarhaldari í Flóru. Ljósmynd Daníel Starrason.mynd

Í Flóru á Akureyri eru vinnustofur, viðburðir og verslun þar sem verk og vörur eru til sölu beint frá listamönnum, hönnuðum, heimaframleiðendum, bændum og öðrum frumskapendum. Markmiðið með starfseminni er að efla, auka og bæta listir og menningu og ýta undir skapandann á svæðinu.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Kristínu Þóru Kjartansdóttur á dögunum og fékk að heyra meira um starfsemi Flóru og hvað er framundan hjá þeim. Kristín sagði blaðamanni að undanfarin misseri hafi Pastel ritröð verið fyrirferðarmiklir viðburðir, en þar er um að ræða sérverkefni sem Flóra skipuleggur. Um er að ræða bókverk sem koma úr ranni ólíkra listamanna, bæði úr sviðslist, tónlist, ritlist og myndlist. Verkin eru í formi smárita, líkum skýrslum, og komu fimm ný rit út nýlega. Þaldið var haldið útgáfuhóf í Mengi í Reykjavík á dögunum og svo verður annað útgáfuhóf í Flóru á Akureyri laugardaginn 7. desember næstkomandi.

„Við vinnum gjarnan verkefni sem hreyfa við ákveðnum atriðum á menningarsviðinu, sem okkur finnst þörf á að gera meira úr. Eins og í Pastel, þá er augnamiðið meðal annars að skapa meira flæði milli norðausturhluta landsins og suðvesturhornsins og að efla tengsl ólíkra listgreina.“ segir Kristín.

Kristín segir að starfsemi Flóru hafi byrjað vorið 2011 og að fyrst hafi starfsemin verið í Listagilinu en frá 2012 í næsta húsi fyrir sunnan Bautann, í gamla kaupfélagshúsinu, gömlu gulu húsi. Hún bætir við að Pastel ritröð hafi byrjað árið 2017 og að verkin séu orðin nítján. „Við erum ekki með útgáfu, heldur snýst þetta um samvinnu milli listamanna, þó að hver og einn komi út með sitt verk. Svo gengur þetta út á að koma fram saman og alls kyns samkrull. Þetta gengur út á tengingar og að tengjast, verkin koma alltaf út í hópum og við blöndum saman í hópa yngri og óreyndari með eldri og reyndari aðilum.“ segir Kristín.

Flóra, Akureyri, listir, menning, verslun, vinnustofur, viðburðir, norðurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Flóra er staðsett í gamla kaupfélagshúsinu á Akureyri. Ljósmynd Flóra.

Flóra er einkafyrirtæki og er Kristín, sem er frá Akureyri, bjó lengi á meginlandinu og er er sagnfræðingur að mennt, staðarhaldari þar. Hún sér um daglegan rekstur staðarins og rekstur á vinnustofunum, heldur utan um sérverkefni, starfsmannahald og menningarstarf staðarins. Hún segir að það sé ekkert formlegt félag um Flóru, en að ólíkir skapandi aðilar og fólk úr fræðigeiranum komi að samtali um starfsemi staðarins.

Flóra, Pastel ritröð, menning, list, landsbyggð, Akureyri, norðurland, Kristín Þóra Kjartansdóttir, úr vör, vefrit
Ungskáldið Karólína Rós Ólafsdóttir les upp í eigin verki "Hversdagar" í Sauðaneshúsi í ferð Pastel ritraðar á norðausturhorninu sumarið 2019. Ljósmynd Kristín Þóra Kjartansdóttir

„Við vinnum gjarnan með það að brjóta upp ríkjandi mynstur sem vel má skipta út fyrir ný, til að mynda neyslumynstur okkar. Við höfum hvatt fólk til að kaupa minna, nær okkur og betri hluti, endingarmeiri. Í okkar litla borgríki sem Ísland er, þar er ríkjandi samfélagsmynd í hugum fólks að við höfum höfuðborgarsvæðið og svo svokallaða landsbyggð. Borgarmúrarnir hafa færst mikið út á undanförnum áratug, austur fyrir vík og norður á Snæfellsnes, en múrarnir hafa líka hækkað.

„Þau sem eru innan þeirra eiga stundum erfitt með að sjá það sem er utan þeirra, vilja samt hafa það sem er þar, en ekki þurfa að hafa neitt fyrir því. En við viljum að fólk hætti að hugsa í þannig tvískiptingu. Þegar við hugsum í fleirtölu um byggðir og tölum um landsbyggðir, þá tölum við fyrir sýn og raunveruleika þar sem við eigum margar ólíkar byggðir, sem allar eru hver á sinn hátt veigamiklar.“ segir Kristín.

Kristín bendir réttilega á að menningarmál eru ekki skylduverkefni hjá sveitarfélögum, en segir að sköpun kalli fram sjálfsbjargarviðleitni hjá fólki. Þess vegna skiptir miklu máli að halda uppi menntun á skapandi sviðum, á öllum stigum og á fleiri stöðum en höfuðborgarsvæðinu. „Við höfum eiginlega misst Myndlistarskólann hér á Akureyri og þá fækkar strax ungu listafólki hér. Það væri mjög gott fyrir samfélögin hér fyrir norðan að fá myndlistarnám og annað listnám á háskólastigi. Og það er líka bara gott fyrir landið allt, að það sé frá upphafi unnið að sköpun sem atvinnumöguleika og sérgrein með ungu fólki. Skapandi fólk eru lykilpersónur á því leiksviði sem framundan er.“ segir Kristín.

Flóra, Akureyri, Daníel Starrason, verslun, frumsköpun, list, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Hluti af vöruúrvalinu í Flóru, þar sem lögð er áhersla á frumsköpun. Ljósmynd Daníel Starrason.

Kristín segir að meginatriði með starfsemi Flóru sé einmitt að efla skapendur. Að hennar sögn er svona starfsemi mikil lyftistöng, bæði andleg og félagsleg fyrir samfélög, og er um leið verkefnis- og atvinnuskapandi. „Ef fólk kann að búa eitthvað til frá grunni, þá er auðveldara fyrir fólk að búa sjálft til verkefni og atvinnu fyrir sig, þá er það ekki eins háð því að aðrir skapi eitthvað fyrir það, heldur getur það gert það sjálft.

„Mér finnst mikilvægt að líta á listsköpun og skapandi aðila ekki bara sem skraut í samfélaginu, sem gott er að njóta á sunnudögum, þótt það sé líka markmið. Eða eins og einn góður stjórnmálamaður sagði eitt sinn, þá á list og menning á ekki bara að vera steinseljan á laxinn, heldur laxinn sjálfur.“ segir Kristín að lokum.
Flóra, Pastel ritröð, list, menning, Bragginn, landsbyggð, norðurland, Akureyri, úr vör, vefrit
Hópur Pastella á ferð í Öxarfirði sumarið 2019, hér ásamt staðarhaldara í Bragganum YST. Frá vinstri, Ingunn Stefanía Svavarsdóttur, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Hlynur Hallsson, Sölvi Halldórsson, Lóa Aðalheiður Kristínardóttir, Karólína Rós Ólafsdóttir, Ólafur Sveinsson og Arnar Már Arngrímsson. Ljósmynd Flóra


bottom of page