Háskólasetur Vestfjarða mun bjóða upp á nýja námsleið frá og með haustönn skólaársins 2019-2020.
Um er að ræða nám í Sjávarbyggðafræði sem er alþjóðlegt, þverfræðilegt meistaranám þar sem fengist er við þróun byggða í fortíð og framtíð. Áhersla verður lögð á sjávarbyggðir við Norður Atlantshaf og Norðurskautssvæðið en fram kemur í námslýsingu að fræðin kunni að hafa víðari skírskotun.
Þar segir að námið byggi einkum á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði og mannvistarlandafræði og skipulagsfræði. Kennt verður á ensku og fer kennslan fram á Ísafirði en námið er í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Peter Weiss, forstöðumann Háskólaseturs Vestfjarða til að fá að vita meira um nýju námsleiðina. Peter segir að þessi námsleið hafi ekki verið áður í boði hér á landi. Hann segir að þegar farið var af stað með námið í Haf- og strandsvæðastjórnun hjá Háskólasetrinu fyrir rúmum 10 árum síðan hafi markmiðið alltaf verið að bæta við annarri námsleið.
„Það var fólk sem sagði okkur að það borgaði sig að hafa tvær námsleiðir frá upphafi, en við vildum ekki gera það strax. En við höfðum það alltaf bakvið eyrað að gera svo. Sú hugmynd fór svo fyrir undirbúningsnefnd fyrir fjórum til fimm árum síðan. Allt svona tekur sinn tíma og það er ekki hægt að ákveða eitthvað einn dag og byrja þann næsta, það þarf að finna fjármögnun og svo framvegis.“ segir Peter.
Að sögn Peter verður farið af stað þann 21. ágúst næstkomandi og verður námið kennt í lotum. Hann segir að um verði að ræða tveggja til þriggja vikna lotur og sé fyrirkomulagið þannig fyrst og fremst af því að einungis 10 til 15% kennaranna séu búsettir fyrir vestan en aðrir séu aðkomukennarar, bæði frá öðrum stöðum á landinu sem og erlendis frá. Meðal kennara verða Þóroddur Bjarnason frá Háskólanum á Akureyri sem mun kenna félagsvísindi og Kristinn Hermannsson, sem kennir við háskóla í Skotlandi og er með sérhæfingu í byggðahagfræði.
„Við náum til mjög hæfðra kennara með því að vera með svona lotukerfi, eitthvað sem við myndum ekki gera ef við þyrftum að skylda kennara að vera hér allan veturinn.“ segir Peter.
Um er að ræða 120 ECTS nám og vegna lotukerfisins þá er hægt að klára námið á 18 mánuðum, en Peter segir að til að þess að svo sé verði fólk að sitja vel við. Mikil ánægja er með ráðningu fagstjóra námsleiðarinnar að sögn Peter, Dr. Matthias Kokorsch, en Matthias er með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og var viðfangsefni doktorsritgerðar hans um seiglu íslenskra sjávarbyggða, og ber titilinn „Mapping Resilience – Coastal Communities in Iceland.“
Samkvæmt Peter eru margir sem spyrja hann að því hvar nemendurnir í þessari námsleið muni vinna í framtíðinni. „Og ég svara að þeir muni væntanlega vinna á öllum þeim stöðum sem landfræðingar, félagsvísindamenn eða hagfræðingar vinna á.
„Það sem skilur væntanlega þessa nemendur frá hreinræktuðum hagfræðingum er að þeir hafa breiðari sýn. Þetta er nám með breiðan bakgrunn og fólk fær mikið yfirlit og þarf að geta verið ráðgefandi í ýmsum efnum. Í sjálfu sér er fullt af fólki á sveitarstjórnarstigi og stofnunum sem hefði gott af þessu námi. Og líka fólk sem vinnur við eitthvað allt annað hefði gott af mörgu sem er kennt hér, því þetta er nothæft í ýmsu.“ segir Peter.
Peter nefnir ýmis námskeið sem boðið verður upp á, námskeið líkt og Conflict Resolution, Migration Population Development, Well Being and Development og Education and Labour Market. Hann segir að ásóknin í námið sé góð en mætti þó vera betri. „Það er enn tími til stefnu, fyrri umsóknarfrestur er þann 15. apríl næstkomandi og síðari í byrjun júní.
Líkt og með strandsvæðisstjórnunarnámið á sínum tíma, þá byrjuðum við með níu nemendur og á öðru ári voru þeir orðnir rúmlega tuttugu talsins. Sú námsleið fór af stað árið 2008, þannig að við erum að hefja ellefta árið með það nám. Það er góð reynsla af því og það er góður punktur, því nýja námsleiðin er byggð upp samhliða þeirri námsleið og einhver samkennsla verður þarna á milli og því er hagstætt að bæta við annarri námsleið.“ segir Peter.
Peter segir að stór hluti af náminu sé að búa fyrir vestan.
„Þetta er nám snýst að miklu leyti um að vera búsettur í eitt eða tvö ár á Vestfjörðum, maður lærir mikið hér fyrir vestan. Eins og við sjáum með Lýðháskólann á Flateyri, það er ansi gott dæmi sem hægt er að byggja á.“ segir Peter að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentários