top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hraðið og Krubbur

Hraðið, Krubbur, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Húsavík, norðurland, landsbyggðin, samvinnurými, störf án staðsetningar, hakkaþon, úr vör, vefrit
„Það kemur hingað mikið af fólki úr stjórnsýslunni í nágrenninu, hér eru innviðir sem eru ekki annarsstaðar og margir sem eru forvitnir að koma og skoða þetta hjá okkur.“ Ljósmynd aðsend frá Hraðinu

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.

Nýsköpunarmiðstöðin Hraðið var sett á fót í desember mánuði árið 2022 á Húsavík og hafa viðtökurnar farið langt framúr væntingum samkvæmt verkefnastjóranum Stefáni Pétri Sólveigarsyni. Um er að ræða einkaframtak á vegum Þekkingarnets Þingeyinga, sem er símenntunar- og rannsóknarstöð. Stefán var ráðinn til að stýra Hraðinu sem hefur það markmið að veita víðtæka þjónustu í nýsköpun fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Ýmsir viðburðir eru haldnir í Hraðinu á borð við Hönnunarþing og Krubb, en það síðarnefnda var haldið í byrjun mars mánaðar síðastliðins.

„Í Hraðinu bjóðum við upp á margþætta þjónustu, við erum með skrifborð fyrir óstaðbundin störf og er það verulega stór partur af starfinu og hefur stækkað mikið. Við byrjuðum með sex föst skrifborð sem eru frátekin og við ætluðum að hafa fjögur sveigjanleg skrifborð í viðbót sem fólk gæti bókað með stuttum fyrirvara. En í dag erum við, eftir að hafa stækkað enn við okkur, með 14 föst skrifborð og 16 sveigjanleg borð.

Svo erum við með margnota fundarherbergi og þar eru oft hinir ýmsu viðburðir, t.d. þá var Háskólinn á Akureyri hér hjá okkur á dögunum. Svo koma  líka fyrirtæki og nýta fundarherbergin okkar. Og að auki erum við með hérna í húsnæðinu FabLab, sem er hátæknismiðja og er einnig staðsett á nokkrum öðrum stöðum á landinu. Okkar FabLab hér á Húsavík er vöruhönnunarmiðað og höfum við verið að fá nema frá vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands til okkar, auk þess að fá innlenda sem og erlenda hönnuðu til okkar í heimsókn.“ segir Stefán.


Fablab, Hraðið, Krubbur, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Húsavík, norðurland, landsbyggðin, samvinnurými, störf án staðsetningar, hakkaþon, úr vör, vefrit
Okkar FabLab hér á Húsavík er vöruhönnunarmiðað og höfum við verið að fá nema frá vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands til okkar, auk þess að fá innlenda sem og erlenda hönnuðu til okkar í heimsókn.“ Ljósmynd aðsend frá Hraðinu

Sem fyrr segir eru einnig árlegir viðburðir haldnir í Hraðinu, bæði Vöruhönnunarþing og Krubbur sem haldinn var í fyrsta skipti nýlega. Vöruhönnunarþing var haldið í september síðastliðnum að sögn Stefáns og var markmiðið að kynna vöruhönnun fyrir fólkinu á Húsavík og í næsta nágrenni. Þar komu saman hönnuðir í fremstu röð, innlendir sem erlendir og vakti þingið mikla lukku og hlaut talsverða athygli.

„Það kemur hingað mikið af fólki úr stjórnsýslunni í nágrenninu, hér eru innviðir sem eru ekki annarsstaðar og margir sem eru forvitnir að koma og skoða þetta hjá okkur. Hér er mikið líf og fjör, hér eru einstaklingar í vinnu án staðsetningar fyrir lítil sem og stór fyrirtæki og þeir tala um að bæði andinn auk hönnun hússins geri það að verkum að þeir upplifa sig ekki líkt og að þeir séu að vinna einir í sínu horni, heldur eins og þeir séu að vinna á stórum vinnustað og það finnst þeim ánægjulegt.“ segir Stefán.

Talið berst aftur að Krubbnum sem er svokallað hakkaþon eða hugmyndahraðhlaup, sem Stefán segir að sé mun betra nafn og lýsi betur hvað fari fram á viðburði sem þessum. Nafnið Krubbur vekur athygli blaðamanns enda frekar óvenjulegt orð. „Það er veður hér á Húsavík sem er kallað Krubbur og þaðan kemur nafnið. Í því veðri stendur vindurinn af fjalli hér fyrir ofan, sem heitir einmitt Krubbur og þá verður alveg vitlaust veður, það fer allt á flug og fýkur út á haf það sem er ekki fest kyrfilega niður. En við ákváðum sem sagt að setja á fót þetta hugmyndahraðlaup af því að eins og víða þá fellur til allskonar efni í framleiðslu, einhver úrgangsafurð sem getur orðið að verðmætum og þarf því ekki að flytja af svæðinu. Markmiðið er að finna hráefni sem fellur til hérna í nágrenninu sem hægt er að nýta. Við erum í góðu samstarfi við alla háskóla landsins sem og Norðurþing og við munum halda þennan viðburð áfram og halda þetta reglulega ásamt því að tengja þetta saman við Hönnunarþingið.“ segir Stefán.


Hraðið, Krubbur, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Húsavík, norðurland, landsbyggðin, samvinnurými, störf án staðsetningar, hakkaþon, úr vör, vefrit
Verkefnastjórinn Stefán Pétur Sólveigarsson. Ljósmynd aðsend frá Hraðinu.

Krubbur var haldinn dagana 8.-9. mars síðastliðinn sem fyrr segir á Húsavík og máttu allir sem náð hafa 16 ára aldri taka þátt að sögn Stefáns, eina skilyrðið fyrir utan aldurstakmarkið var í raun að hafa áhuga á að bæta umhverfið sitt. Stefán segir að það hafi mátt koma með hugmynd með sér í maganum, en annars var frjó hugmyndavinna á staðnum og því var það ekki heldur skilyrði. Í þessum fyrsta Krubb var unnið með hugmyndir sem tengjast þremur fyrirtækjum, þeim PCC BakkiSilicon, Ocean Missions og Gámafélaginu.


„Fólk fékk upplýsingar um hvað unnið er með, svo var hugmyndavinna og það voru hópstjórar sem leiðbeindu fólki í ferlinu, auk þess sem haldnir voru fyrirlestrar. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta fer fram á Húsavík, en það hafa verið haldið svona hakkaþon áður á Íslandi.

Þetta er þekkt form, formið sem við notuðumst við er mjög líkt forminu sem var haldið í Grósku í byrjun janúar. Þar var bara verið að vinna með textíl og var það virkilega flott verkefni. Vonandi verður verkefni sem mun dreifa sér um allt land.“ segir Stefán að lokum.

bottom of page