top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ræktar örgrænmeti


Amber Christina Monroe, Ísponica, Hofsós, Hólar, Norðurland, örgrænmeti, ræktun, lóðrétt ræktun, fiskeldi, umhverfi, náttúra, grænmeti, landsbyggðin, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Heimildin, úr vör, vefrit
Amber sýnir hér örgrænmetið sem hún ræktar. Ljósmynd aðsend.

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.


Amber Christina Monroe kom hingað til lands árið 2017 sem ferðamaður frá Bandaríkjunum og kylliféll fyrir landi og þjóð. Það varð til þess að hún skráði sig í mastersnám við fiskeldis- og fiskalíffræðideild á Háskólanum á Hólum og þremur árum síðar, eða árið 2021, stofnaði hún fyrirtæki sitt Ísponica.

Ísponica sameinar fiskeldi og grænmetisrækt með áhugaverðum hætti (e.aquaponic) og hefur fyrirtækið frá stofnun haft aðsetur á Hólum í gömlu fjósi en nú standa yfir flutningar og mun fyrirtækið færa sig yfir á Hofsós í gamla fiskiverksmiðju þar á næstu vikum. 

Hjá Ísponica er ræktað svokallað örgrænmeti og æt blóm, auk þess sem planið er að rækta fisk til manneldis síðar meir. Amber segir að ekki séu aðrir að gera þetta hér á landi í þeim tilgangi að selja vörur á markað, þótt að hún viti að einhverjir aðilar hafi gert tilraunir með þessa áhugaverðu aðferð. „Þessi samtvinnun, fiskeldið og grænmetisræktunin virkar þannig að við erum með fiskeldistank með fiskum í og vatnið er leitt úr honum og yfir á svæðið þar sem við erum með plöntu- og grænmetisræktunina. Úrgangurinn frá fiskunum er sem sagt notaður sem áburður fyrir plönturnar og svo eftir að vatnið er notað til að fæða og vökva þær þá er það leitt aftur í tankinn, þannig að þetta er hringrás og með þessu móti er notað mun minna vatn en annars væri gert“ segir Amber.


Að auki er stunduð svokölluð lóðrétt ræktun hjá Ísponica, en með því er átt við að grænmeti er ræktað í hillum, frá gólfi og upp og tekur ræktunin því mun minna pláss en annars þyrfti. Amber segir að þessi aðferð hafi náð mikilli útbreiðslu um allan heim og er sérstaklega hentugt í borgum þar sem pláss er af skornum skammti. Talið berst að þessu örgrænmeti, eitthvað sem blaðamaður er ekki mjög kunnugur um.

„Örgrænmeti er bara mjög ungt grænmeti í raun og veru. Ef þú ert til dæmis að rækta hefbundið salat, þá ræktarðu það bara í tvær vikur og tekur það svo upp. Þá ertu kominn með svokallað örgrænmeti sem er fullt af vítamíni og næringarefnum. Þannig að þú færð svo mikið útúr uppskeru sem er mjög lítil um sig. Fólk heldur að þetta sé bara notað til að gera rétti fallega og þetta hefur vissulega skreytingargildi, en þetta er mjög hollt.“ segir Amber.

Amber er eini starfsmaður fyrirtækisins sem stendur, hún efur þó fengið til liðs við sig nemendur frá háskólum landsins til að aðstoða sig, en hefur í hyggju að bæta við starfsfólki síðar meir. Hún hafði ráðgert að rækta fiska og grænmeti en hana langar síðar meir að tengja þetta við ferðamennsku og hafa einnig kaffihús á staðnum þar sem framleiðslan yrði. „Fólk hefur sýnt þessu mikinn áhuga og stuðning og margir hafa verið tilbúnir að prófa þetta örgrænmeti til að mynda. Fólk í nærumhverfinu við Hóla er mjög áhugasamt um að prufa eitthvað nýtt sem er ræktað á staðnum og hefur verið forvitið að heimsækja gömlu hlöðuna þar sem við höfum haft starfsemina hingað til. Þannig að á Hofsósi vil ég bjóða ferðamönnum og fólki sem býr á svæðinu að koma og heimsækja fyrirtækið til að sjá og fræðast og þess vegna finnst mér upplagt síðar meir að setja á fót lítið kaffihús. Gamla fiskverksmiðjan þar sem við munum hafa aðsetur er frábærlega staðsett, við sjóinn með útsýni yfir Drangey, æðisleg staðsetning. Í byrjun munum við notast við 70 fermetra af henni og planið er að stækka svo við okkur og fara upp í 300 fermetra nýtingu. Lokahlutinn væri svo að opna kaffihúsið líka þarna í húsnæðinu, það væri rúsínan í pylsuendanum.“ segir Amber.


Amber Christina Monroe, Ísponica, Hofsós, Hólar, Norðurland, örgrænmeti, ræktun, lóðrétt ræktun, fiskeldi, umhverfi, náttúra, grænmeti, landsbyggðin, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Hekluborri, beitifiskur, Tilapia,Heimildin, úr vör, vefrit
Beitifiskur eða svonefndur Hekluborri öðru nafni. Ljósmynd aðsend.

Amber segir að í augnablikinu sé áherslan á grænmetið og plönturnar en að hún hafi áhuga á að rækta fisk til manneldis í náinni framtíð sem hún myndi selja til veitingastaða. Hún notast við fiskinn Tilapia sem fyrirfinnst ekki hér á landi eða við Íslandsstrendur, en er nefndur beitifiskur eða Hekluborri á íslensku. Einnig hefur Amber áhuga á að rækta bleikju til manneldis með þessari aðferð. Grænmetið hefur hún verið að selja til fólks í næsta nágrenni og segist ætla að halda því áfram, en hún segist þessa dagana vera í viðræðum við verslanir um að koma vörum sínum til sölu í Reykjavík. Fyrirtækið hefur fengið styrki frá Matvælasjóði og Samtökum Sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra (SSNV), auk rannsóknarstyrkja tengdum háskólum landsins.


Amer er mjög spennt fyrir hvað framtíðin ber í skauti sér og segir möguleikana mikla.

„Það er fyndið hvernig hugmyndir þróast, maður er með ákveðið plan, en það getur breyst og ég hlakka til að sjá hvert þetta mun leiða mig. Það eru miklir möguleikar sem tengjast Hofsósi, við erum þar með sundlaugina frægu og fallegt umhverfi og ég tel að staðurinn hafi talsverða stækkunarmöguleika sem og fyrirtækið.“ segir Amber að lokum.

Comments


bottom of page