top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Dunkur í Dalasýslu

Texti: Aron Ingi Guðmundsson


Áfangaheimilið Dunkur, Dalasýsla, Vesturland, landsbyggðin, Berghildur Pálmadóttir, úr vör, vefrit
„Við erum með kindur, geitur, hesta og svo með mjög stórt svæði þar sem hægt er að fara í gönguferðir.“ Ljósmynd aðsend.
  • Athygli er vakin á að vefritið ÚR VÖR hefur hafið samstarf við Heimildina, þar sem Heimildin mun birta efni frá ÚR VÖR á tveggja vikna fresti. Þessi grein birtist þar nýlega.


Á bænum Dunki í Dalasýslu búa þau Berghildur Pálmadóttir og Kári Gunnarsson. Fyrir mikla tilviljun keyptu þau jörð og gerðust bændur þar fyrir rúmum fjórum árum síðan. En þau létu ekki þar við sitja heldur hafa sett á fót búsetu- og vinnuúrræði og segja þörfina fyrir slíkt vera mjög mikla. 


Fyrir kaupin á Dunki bjuggu þau Berghildur og Kári í Grundarfirði og starfaði Berghildur sem fangavörður. Hún hafði því hitt fullt af fólki sem talaði um að það væri mikil vöntun á úrræði sem væri ekki á höfuðborgarsvæðinu. Það var svo eftir flutningana á Dunk, nánar tiltekið árið 2021 að Berghildur vann við afleysingarstörf í fangelsi að hún rak augun í auglýsingu varðandi styrkveitingu fyrir ýmis konar verkefni.

„Ég ákvað að sækja um styrk fyrir að breyta öðru íbúðarhúsinu okkar hér á jörðinnni í áfangaheimili. Hugmyndin var að breyta sem sagt húsinu sem við búum í, í þetta áfangaheimili og gera upp hitt húsið sem er mjög gamalt og búa þar sjálf. Ég sendi umsóknina inn í einhverju flýti og gleymdi að segja manninum mínum frá þessu.

Svo varð raunin að ég fékk styrkinn og sagði þá honum frá þessu og hann spurði mig hvar ég ætlaði þá að búa. Því í gamla húsinu hefur ekki verið búið í síðan árið 1981, það er í raun og veru bara fokhelt nánast, og er byggt árið 1930.“ segir Berghildur og hlær. 


Styrkinn fékk hún til að vinna í kostnaðarmati og rekstraráætlunargerð og hófst handa við það en var svo kölluð til starfa við kennslu, starf sem hún hafði sótt um og því lagðist hugmyndin um áfangaheimilið í dvala. Það var svo í lok árs 2022 að haft var samband við þau og leitað eftir úrræði fyrir einstakling á vegum félagsþjónustu.


„Við sögðum já við því og þá hefur starfsmaður félagsþjónustu samband við okkur og við tökum við einstaklingi í lok mars á síðasta ári. Sá einstaklingur bjó bara hér inni hjá okkur en á sama tíma fórum við í að byggja gestahús aftur upp sem hafði verið hér á jörðinni en hafði fokið. Þannig að allt í einu erum við komin í rekstur og þessi einstaklingur var hjá okkur í nokkra mánuði síðastliðið vor og svo kom annar einstaklingur síðastliðið haust. Þetta eru t.d. einstaklingar sem eru heimilislausir og eru með tvígreiningu, þ.e. eru að eiga við fíknivanda og með einhverja aðra greiningu líka.“ segir Berghildur.

Að sögn Berghildar er vinnuheitið ennþá Áfangaheimilið á Dunki en í raun og veru reka þau úrræði sem fellur undir málefni fatlaðra og er annars konar stuðningsúrræði sem hentar einstaklingum með fjölþættan vanda. Og í þeim málaflokki er gerð krafa að það þurfi sér húsnæði fyrir þá einstaklinga sem nýta sér úrræðið. Og Berghildur segir að gestahúsið sé nú loksins alveg að verða tilbúið þeim til mikillar gleði. 

Áfangaheimilið Dunkur, Dalasýsla, Vesturland, landsbyggðin, Berghildur Pálmadóttir, Kári Gunnarsson,úr vör, vefrit
Berhildur Pálmadóttir og Kári Gunnarsson reka saman áfangaheimilið Dunk í Dalasýslu. Ljósmynd aðsend

„Við þurfum í raun að breyta um nafn, við erum komin á aðra stefnu en upprunalega. Eins og er þá erum við með einn einstakling og það er spurning hvort að við byggjum annað hús til að taka á móti fleirum. En þetta er sem sagt vinnu- og búsetuúrræði, fólk þarf að vakna á morgnana, sinna einhverjum einföldum verkefnum og byggja upp vinnuþol. Það er gerður skriflegur samningur og svo er það undir einstaklingnum komið hvort hann vilji vera áfram eða ekki að loknum þeim tíma sem í samningnum er getið. Við erum með kindur, geitur, hesta og svo með mjög stórt svæði þar sem hægt er að fara í gönguferðir. Þarna komum við á þægilegri rútiní fyrir þessa einstaklinga og loka markmiðið er jafnvel að viðkomandi gæti farið að vinna hefbundna vinnu á vinnustað. En það má ekki gleyma því að þetta eru einstaklingar sem geta oft bara unnið takmarkað. Fólk getur komið úr allskyns aðstæðum, einstaklingar sem eru að glíma við geðrænar áskoranir til dæmis.“ segir Berghildur hugsi. 


Berghildur er með B.A. gráðu í félagsráðgjöf og hefur starfsreynslu frá félagsþjónustu og barnavernd, auk þess að vera með diplómu í áfengis- og vímuefnamálum og býr hún því að góðri reynslu og menntun sem nýtist við þjónustuna. Hún segist ekki vita til þess að einhver annar hér á landi bjóði upp á úrræði sem þetta og leggur áherslu á hversu mikil þörfin fyrir svona lagað sé.


„Við erum sem stendur í samstarfi við eitt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu. Við myndum vilja þjónusta fleiri sveitarfélög en af því við erum með einn í einu, þá er bara í raun biðlisti og næsti kemur strax inn. Í framtíðinni myndum við kannski gera samning við fleiri sveitarfélög en eins og er látum við þetta duga.

Ég áttaði mig ekki á þegar við fórum í þetta, að þarna væri markaður. Maður vill oft hugsa stórt og ætlar að hjálpa öllum, en að hjálpa öllum byrjar kannski með því að hjálpa einum.“ segir Berghildur að lokum.

Comentarios


bottom of page