top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Feðgin með samsýningu


Baltasar Samper, Mireya Samper, samsýning, list, listasýning, Litli Kambur, Snæfellsnes, landsbyggðin, Vesturland, úr vör, vefrit
Frá vinstri: Baldvina Sigrún Sverrisdóttir, Valþór Sigþórsson, eigendur Litla Kambs, Mireya Samper, Kristjana Samper og Baltasar Samper. Hundurinn á myndinni heitir Puntilla. Ljósmynd frá Litla Kambi.

Feðginin Baltasar og Mireya Samper halda þessa dagana í fyrsta sinn samsýningu. Fer sýningin fram í Hlöðunni á Litla Kambi á Snæfellsnesi þar sem opið er daglega frá 12:00 til 17:00 og verður sýningin opin út ágúst mánuð.

Í fréttatilkynningu um sýninguna segir að Baltasar hafi víða leitað fanga í verkum sínum, meðal annars í íslenskum fornbókmenntum, svo sem Eddukvæðum og Þjóðsögum.

Þar segir að við persónulega túlkun sína byggir Baltasar á eigin heimspeki, uppruna sínum og menningu. Á sýningunni leitast hann við að túlka vætti og verur sagna sem tengjast Snæfellsnesi sérstaklega.

Baltasar sýnir átta verk sem sýna meðal annars tröllkonur, fugla og landslag og eru þær stórar, dökkar og kraftmiklar.  Í myndum sínum notar hann tækni sem kallast encaustic eða innbrennt vax á íslensku og er aldagömul vaxtækni.


Í fyrrnefndri fréttatilkynningu kemur einnig fram að verk Mireyu séu ljóðrænar birtingar um hringrás lífsins,innri og ytri heima, þar sem myndlíkingar vatns og ljóss, fyrir óendanleika og endurtekningu, fléttast saman. Fram kemur að Mireya noti vatn í hverfulu ástandi eins og dropa í falli eða fljótandi, mótar í stein eða úr öðrum efnum sem myndlíkingu. Dropinn vísar samtímis til vatns og ljóss: uppsprettu vatnsins og hringrás, svo og tíma og eilífðar.

 Baltasar Samper, list, listasýning, Litli Kambur, Hlaðan, samsýning, feðgin, listaverk, Snæffellsnes, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Verk eftir Baltasar Samper. Ljósmynd frá Litla Kambi.

Þá sýnir Mireya einnig skúlptúra og er þetta í fyrsta sinn sem hún sýnir skart en það vann hún í samvinnu með Inga í Sign. Skartið er hluti af innsetningunum, m.a. stórt og mikið hálsmen úr silfri sem myndi vel passa á kerlingavættina sem eru á myndum Baltasars. Verk Mireyu eru unnin á árunum 2019 og 2020. Mireya vinnur jöfnum höndum í tvívídd og þrívídd og segir að sér finnist gaman að vinna á mörkunum og að mikilvægt sé að vera svolítið óræðin hvað það varðar.


Í tilkynningunni segir að Mireya noti ljós eða tilvísun í það sem tákn um okkar innra sjálf, um eitthvað æðra og alheimsleg gildi, oft táknað með silfri, á mismunandi efnivið.

Þar segir að Mireya hafi þróað eigin tækni sem geri henni kleift að nota ljós á einstakan hátt í þeim tilgangi að gera pappírsverk ljóshleypin, oft marglaga, og vísar þannig til þrívíddar. Oft er um tunglsljós að ræða, hina kvenlegu birtu nætur sem hvílir, græðir og undirbýr fyrir komu dags og sólar.
Mireya Samper, list, listasýning, Litli Kambur, Hlaðan, samsýning, feðgin, listaverk, Snæffellsnes, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Verk eftir Mireya Samper. Ljósmynd frá Litla Kambi

Fram kemur einnig að verk Mireyu hvetji okkur til að tengjast okkur sjálfum og um leið að opna okkur gagnvart umhverfinu, náttúrunni og hinu heilaga sem í öllu býr. Óendanleikinn er birting alheimsins og hvetja fólk til íhugunar og innri skoðunar, jafnframt því að tengjast „ytri heimum“ og hinu kosmíska. Öll verk Mireyu eru unnin á Japanskan Washi & Lana Lumière pappír.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Mireyu á dögunum og sagði hún að þau feðgin hefðu verið mjög spennt að sjá hvernig sýningin og samvinnan kæmi út og að þau séu ánægð með útkomuna.

„Hugmyndin af því að sýna með pabba kom fyrir ári síðan frá Baldvinu Sigrúnu Sverrisdóttur, listfræðingi og eiganda á Hlöðunni Litla Kambi. Ég hef ekki hugmynd um hversvegna ég og pabbi höfum aldrei áður sýnt saman, hugmyndin hefur bara aldrei komið upp, kannski af því ég sýni langsamlega mest erlendis.“ segir Mireya.

Við hvetjum áhugasama um að kynna sér þessa áhugaverða sýningu og það er um að gera að hafa hraðann á, þar sem aðeins nokkrir dagar eru eftir af sýningartímanum. Þess má geta að ÚR VÖR fjallaði um listahátíðina Ferskir Vindar í Garði í maí mánuði í fyrra, en Mireya er eigandi og listrænn stjórnandi þeirrar glæsilegu hátíðar. Hægt er að lesa um hátíðina hér: https://www.urvor.is/post/fresh-winds-2019



bottom of page