top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Þetta er í raun og veru innrás“

Updated: Mar 29, 2019


Mireya Samper. Ljósmynd Ómar Sverrisson

Listahátíðin Ferskir Vindar í Garði er haldin annað hvert ár og verður haldin í 6. sinn næstkomandi vetur, nánar tiltekið dagana 14. desember 2019 til 13. janúar 2020. Fimmtíu listamenn úr öllum listgreinum og af mörgum þjóðernum er boðið að koma til Íslands til að kynnast landi og þjóð, verða fyrir áhrifum náttúrunnar og samfélagsins og skapa list. Listaverkin sem listafólkið vinnur að yfir hátíðina verður eftir í eigu sveitarfélagsins sem hefur orðið til þess að Garður á nú listaverkasafn. Hátíðin var haldin fyrst árið 2010 og hefur verið þrisvar tilnefnd til Eyrarrósarinnar og hlaut heiðurinn á síðasta ári.


Það er myndlistarkonan Mireya Samper sem er eigandi og listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Mireya lærði skúlpturgerð í Frakklandi á sínum tíma og starfaði við kvikmyndir yfir 12 ára tímabil. Síðastliðin 10 ár segist hún ekki hafa haft tíma til þess og hefur einblínt á myndlistina og að því að sjá um hátíðina.

Ferskir vindar stendur fyrir þrennt, í fyrsta lagi vindinn sem kemur frá hafi úr þremur áttum þegar þú ert á tá Reykjaness, í annan stað þá fersku vinda sem það er að koma til Íslands á þessum árstíma fyrir listafólkið sjálft og svo eru þetta ferskir vindar fyrir samfélagið að fá þessa allt þetta listafólk til landsins.
Anais Lelievre, Ferskir Vindar, Garður, úr vör, vefrit
Gjörningur eftir Anais Lelievre. Ljósmynd @LJ

Hátíðin stendur yfir í fjórar til fimm vikur hverju sinni. Mireya segir að Ísland sé sérstakt yfir jólin, annað andrúmsloft í samfélaginu og góður vinnuandi, sérstaklega í litlu þorpunum. Hún segir það miklu meiri lífsreynslu að koma til Íslands yfir veturinn, það sé mikið erfiðara, fólk verði fyrir meiri innblástri og öðlist meiri lífsreynslu.

„Það eru margar ástæður fyrir að þessi tími var valinn. Eftir fyrsta hátíðina sem haldin var að vetri til sýndi sveitarfélagið í Garði þann vilja að þetta yrði haldið yfir sumarið og það var gerð tilraun til þess. Þá kom algerlega í ljós að veturinn væri rétt tímasetning, eins og ég vildi hafa þetta allan tímann og það þurfti aldrei að ræða þetta aftur!“ segir Mireya og hlær.
Lionel Guibout, Ferskir Vindar, Garður, úr vör, vefrit
Lionel Guibout vinnur að list sinni. Ljósmynd @LJ.

Mireya segir að hugmyndin að hátíðinni sé eitthvað sem hún hafði í kollinum í mörg ár. Hún segist hinsvegar hafa haldið að það væri of dýrt að halda slíkt hér á landi.

Þetta mallaði í undirmeðvitundinni og síðan var ég í einn daginn milli svefns og vöku og fékk skilaboð og rauk upp og ákvað að fara í málið og þá var ekkert aftur snúið! Ég byrjaði á núlli og hafði ekki hugmynd um út í hvað ég var að fara eða hvernig maður fjármagnar svona, enda fer maður ekki í það ef maður veit hvað það er erfitt.“ segir Mireya.

Að sögn Mireyu þá eru listamennirnir valdir útfrá því sem þeir standa fyrir og það sem þeir hafa gert áður. Hún segir að hátíðin sé lifandi og að það sé ekki skrifað í skýin fyrirfram hvað listafólkið kemur til með að vinna að þegar það er statt hér á landi. „Það kemur fyrir að skúlptúrgerðarmaður geri málverk og að tónlistarfólk gerir myndbönd. Sýningin tekur sína eigin stefnu, ég vil ekki vera á öxlunum á listafólkinu. Þegar búið er að velja listafólkið þá treysti ég þeim og þetta verður mjög lifandi og mikill suðupottur og það verður kraftur og sköpun og þetta gerir þetta að öðruvísi hátíð heldur en margar aðrar eru.“ segir Mireya

Vytenis Lingyte, Ferskir Vindar, Garður, úr vör, vefrit
Vytenis Lingyte að mála veggmynd beint á vegginn. Ljósmynd Mireya Samper.

Aðspurð segir Mireya snúið að ekki væri mögulegt að halda slíka hátíð án góðra bakhjarla. Hún segir að bæjarfélagið sé stærsti bakhjarl hátíðarinnar að Uppbyggingarsjóður Suðurlands sé stærsti styrktaraðilinn og að þetta væri ekki mögulegt án aðkomu hans. Mireya segir mismunandi frá ári til árs hvaða einkaaðilar styrkja hátíðina en að ekki sé hægt að ganga að því vísu heldur þurfi að sækja þá styrki hverju sinni.


Að hennar sögn hefur hátíð sem þessi mikil samfélagsleg áhrif.

„Það er verið að bjóða upp á gífurlega breidd í listum, hingað koma margir listamenn og hér hefur orðið mikil vakning í listum. Hér var eiginlega ekkert áður, bara nokkrar myndir á bæjarskrifstofunni. Það er líka gaman að sjá þegar við förum í leikskólann, skólann og tónlistarskólann að það eru krakkar sem sækja stíft í að vera með okkur. Krakkar sem finna sig ekki í íþróttum leita til okkar, einstaklingar sem eiga kannski ekki sinn stað í þessu íþróttasamfélagi og það er gaman að sjá það.“ segir Mireya.
Julia Vaidas-Bogard, Ferskir Vindar, Garður, úr vör, vefrit
Gjörningur Julia Vaidas-Bogard. Ljósmynd @LJ

Mireya bætir við að þetta opni augu fólks. Fólk af ýmsum þjóðernum fylli sundlaugina á hverjum degi, ganga um bæ sem allir aðrir keyra í, fjúki á hús því þau kunni ekki að ganga í rokinu og matarbúðin fyllast af öðruvísi fólki. Mireya segir að þetta sé í raun og veru innrás. Hún segir að viðhorf fólks gagnvart hátíðin sé misjafnt.

Fólk skiptist í tvo hópa. Fólk sem finnst þetta æðislegt og vill allt fyrir okkur gera og að efla okkur og að taka þátt og hafa þetta í gangi og svo er fólk sem gerir ekkert annað en að rakka þetta niður og heldur að við séum afætur á samfélaginu, það sér ekki hvað við erum að færa samfélaginu mikið.“ segir Mireya.

Aðspurð segist Mireya oft hafa hugsað um hvers vegna hún hafi farið af stað með þetta verkefni. Hún segir þetta vera ofboðslega mikla vinnu en um leið sé þetta rosalega gefandi og segist hún fá mikið útúr þessu. „Það sem er mest gefandi er að gefa listamönnum þennan möguleika að stíga útúr sínum þægindaramma, útúr sínu venjulega lífi og vinnustofu og fá fullkomið frelsi. Listafólkið er í alsælu meðan það er hér og það gefur mér svo rosalega mikið. Að geta glatt aðra svona mikið, bæði listafólkið og gesti hátíðarinnar er æðislegt. Listafólkið segir við mig að þeim finnast það hafa endurfæðst og það biður um að fá að koma aftur, það er svo frábært að fá svona viðbrögð“ segir Mireya að lokum.

Kohnosuke Iwasaki, Ferskir Vindar, Garður, úr vör, vefrit
Kohnosuke Iwasaki vinnur að verki sínu. Ljósmynd @LJ.Comments


bottom of page