top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Vinnusmiðja Ós Pressunnar: Að skrifa fyrir börn

Updated: Aug 12, 2020


Ós pressan, ritlist, vinnusmiðja, Kaktus, Akureyri, Listagilið, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Frá vinnusmiðjunni í vinnustofu Kaktuss í Listagilinu á Akureyri sem haldin var þann 19. júlí síðastliðinn. Ljósmynd Ós Pressan

Ós Pressan er félagasamtaka rithöfunda og skálda sem búa á Íslandi og upplifa sig af einhverju ástæðum á jaðri hins íslenska bókmenntasamfélags. Samtökin voru stofnuð í ágúst árið 2015 af níu skáldum og rithöfundum sem höfðu hist og unnið saman á skapandi ritsmiðju sem haldin var af Bókmenntaborginni og Borgarbókasafninu og skipulögð af þverfaglega skáldinu Angelu Rawlings fyrr það sama ár.

Eitt af markmiðum Ós Pressunnar er að styðja við nýjar raddir skálda og rithöfunda á Íslandi, gefa þeim rými til þess að hittast og mynda tengsl og ögra hefðbundinni bókaútgáfu hér á landi. Félagar Ós Pressunnar hafa haldið fjölda vinnusmiðja, bókmenntaviðburða og erinda bæði á Íslandi og erlendis, skrifað tímaritsgreinar og verið með fjölbreytta listviðburði í samstarfi við önnur félagasamtök og / eða stofnanir.

Ós Pressan gefur út Ós – The Journal, fjöltyngt bókmenntatimarit, hið eina sinnar tegundar á Íslandi og vinnur ritstjórn þess nú að útgáfu fimmta tölublaðsins. Þá hefur Ós Pressan staðið fyrir opnum ritkvöldum þar sem skáldum og rithöfundum með ólíkan bakgrunn og sem skrifa á hinum ýmsu tungumálum gefst tækifæri til þess að koma saman og skrifa, deila reynslu sinni og sögu, hlusta á fleiri raddir og fá endurgjöf á eigin verk.

Sunnudaginn 19. júlí hélt Ós Pressan vinnusmiðju í vinnustofu Kaktuss í Listagilinu á Akureyri og fékk blaðamaður ÚR VÖR fréttatilkynningu um þann skemmtilega viðburð sem var hluti af röð vinnusmiðja og upplestrar sem styrk hlutu frá Menningarsjóði Akureyrarbæjar 2020. Um skipulagningu og umsjón vinnusmiðjunnar sá Lara W. Hoffmann doktorsnemi við Háskóla Íslands og félagi í Ós Pressunni.

Í tilkynningunni segir að hjónin Helen Cova rithöfundur og Sigurður Grétar Jökulsson grunnskólakennari, sem bæði eru félagar í Ós Pressunni, hafi haldið skemmtilegt erindi. Árið 2019 gáfu bókaútgáfan Bjartsýn út bókina Snúlla finnst gott að vera einn sem Helen skrifaði. Bókin er gefin út á þremur tungumálum: íslensku, ensku og spænsku. Helen sagði þáttakendum frá því hvaðan efnið í söguna kæmi, hvernig vinnuferlið var við að skrifa hana, hvað væri gott að hafa í huga t.d. hvað varðar myndskreytingar og hversu mikilvægt það er að hafa trúa á sjálfum sér og því sem maður er að gera og hafa gott fólk í kringum sig að leita til. Einnig voru gerðar nokkrar áhugaverðar ritæfingar. Sigurður kom með nokkra góða punkta hvað varðar hönnun og uppsetningu á bókinni áður en hún fór í prentun með tilliti til blaðsíðufjölda á örk, uppfærslur á forritum og önnur tæknileg atriði.

Ós Pressan, ritlist, vinnustofa, ritsmiðja, Kaktus, Akureyri, listagilið, landsbyggðin, list, úr vör, vefrit
Þáttakendur vinnusmiðjunnar tóku þátt í skemmtilegur ritæfingum ásamt því að hlusta á erindi. Ljósmynd Ós Pressan

Eftir kaffihlé hélt Anna Valdís Kro leikskólakennari og ein af stofnendum Ós Pressunnar, stutt erindi um smásögu fyrir börn sem kom út í öðru tölublaði Ós – The Journal árið 2017. Sagan er skrifuð á þremur tungumálum, ensku, íslensku og búlgörsku. Anna Valdís kunni ekki búlgörsku en í ritsmiðjunni árið 2015 kynntist hún konu frá Búlgaríu sem hjálpaði henni að leggja öðrum strák sögunnar búlgörsku í munn. Anna Valdís sagði að samstarfið hefði gengið afar vel og var hún ánægð með hvernig textinn birtist á prenti með mismunandi letri auk þess sem búlgarskan notar kýrillískt stafróf. Eftir þessa frásögn voru gerðar ritæfingar og hlýtt á smásögur og brot úr sögum á arabísku, ensku, íslensku, þýsku og sænsku.


Næsta vinnusmiðja Ós Pressunnar er áætluð þann16. september næstkomandi á Amtsbókasafninu á Akureyri.

Sú vinnusmiðja ber yfirskriftina Að nota þýðingar til að skapa og skrifa saman. Þar mun Larissa Kyzer rithöfundur, þýðandi og félagi Ós Pressunnar segja frá því hvernig hægt er að nota þýðingaræfingar sem aðferð til þess að skapa og skrifa með öðrum.

Engrar kunnáttu eða þekkingar á þýðingum eða reynsla af skapandi skrifum er krafist. Lara W. Hoffmann skipuleggur og sér um smiðjuna og segir í tilkynningunni að allir séu hjartanlega velkomnir. Við hvetjum því áhugasama til að kynna sér þetta og einnig til að kynna sér starfsemi Ós Pressunnar og útgáfur þeirra.

Ós Pressan, Ós Journal, ritlist, skrif, skáld, rithöfundar, úr vör, vefrit
Forsíða nýjustu útgáfu Ós Journal sem kom út í janúar á þessu ári


bottom of page