top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hafði góð tök á smásagnalistinni

Vestfirskir listamenn


Fríða Á. Sigurðardóttir, Elfar Logi Hannesson, Vestfirskir Listamenn, ritlist, Vestfirðir, landsbyggðin, list, menning, úr vör, vefrit
Fríða Á. Sigurðardóttir. Ljósmynd úr safni Elfars Loga Hannessonar

Fríða Á. Sigurðardóttir

F. 11. desember 1940 á Hesteyri. D. 7. maí 2010 í Reykjavík.


Öndvegisverk: Við gluggann, 1984, Meðan nóttin líður, 1990, Í luktum heimi, 1994.


„Fólk sem vit hefur á segir mér að ég sé búin að vera sem rithöfundur af því ég sé svo léleg fjölmiðlamanneskja, svo ég er að hugsa um hvort ég ætti ekki að skrifa Rithöfundasambandinu bréf með formlegri beiðni um námskeið í fjölmiðlaframkomu fyrir svona fólk eins og mig og fleiri.“ Já, hún var voða lítið fyrir að trana sér fram hin vestfirska skáldkona Fríða Á. Sigurðardóttir. En þegar hún fékkst í viðtal þá var þar margt vel og markvist sagt eða kannski mætti orða það sem svo að þar var ekki töluð nein vitleysa. Og þarna hafði hún samþykkt að fara í viðtal við Morgunblaðið. Víst er það svo að margur listamaðurinn er kannski alltof oft í viðtali svo oft að engu er frá að segja nema kannski að viðkomandi hafi hætt að reykja. Sem er nú svo sem gott, ja allavega fyrir viðkomandi.

Fríða Áslaug Sigurðardóttir fæddist á sögueyri Vestfjarða nefnilega á Hesteyri. Systkinin voru jafnmörg og jólasveinarnir og var Fríða sú tólfta í röðinni. Elst var Jakobína sem einnig fetaði skáldaveginn með efirtektaverðum hætti. Foreldranir Stefanía Halldóra Guðnadóttir og Sigurður Sigurðsson. Víst má segja að máltækið um að börnin læri það sem fyrir þeim er haft eigi vel við heimili þeirra hjóna því þarna voru bókmenntir stofustáss. Ekki nóg með að bókverk væri fyrir fólkinu haft heldur var og um þau rætt.

Að húslestri loknum tóku við umræður um verkið og þá fyrst hitnaði í kolunum. Sleppum því að fara í einhverja upptalningu höfunda á þessu bókaheimili heldur nefnum aðeins eitt skáld er þar var í miklu uppáhaldi. Það var Þorsteinn Erlingsson. Ekki að undra því einmitt hann tók allajafna málstað litla mannsins sem sannlega var víða í sveitum.


Fimm ára að aldri er Fríða komin suður og dvelur þar síðan að einu ári undanskyldu er hún bjó vestur á Ísafirði. Bókuppeldið hafði snemma áhrif og ung stefndi hún á ritvöllinn þó fyrsta bók hennar kæmi ekki út fyrr en hún var fertug. Brautskráðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands og árið 1979 lauk hún cand. mag. prófi í Íslensku. Ári síðar sendi hún svo frá sér sitt fyrsta bókverk.

Fríða Á. Sigurðardóttir, Elfar Logi Hannesson, ritlist, Vestfirskir listamenn, pistill, list, menning, Vestfirðir, landsbyggðin, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
„Ekkert skemmtilegra til en að vera rithöfundur þegar vel gengur að skrifa. Að fást við orðið afturábak og áfram og finna að orðin hlýða.“ Ljósmynd Julie Gasiglia

Fyrsta bók Fríðu Á. Sigurðardóttur er smásagnasafnið, Þetta er ekkert alvarlegt. Smásagan er dásamlegt ritform sem mætti alveg njóta meiri athygli. Þar reynir sannlega á skáldið að fara nú ekki í nein óþarfa orðafjöld í verki sínu heldur velja orðin að kostgæfni enda sögunni smástakkur búinn einsog nafnið gefur til kynna. Fríða hafði einstaklega góð tök á smásagnalistinni. Blanda af kómík og hinu óvænta. Má í því samhengi nefna smásöguna, Við gluggann, sem er í samnefndu og hennar næsta smásagnasafni og kom út árið 1984. Einsog nafnið gefur til kynna er söguhetjan kona er situr jafnan bara við sinn glugga. En dag einn er bankað uppá.

Fyrir utan er maður er konan telur vera Mormóna en er í raun bara saklaus bókasölumaður. Konan ákveður að bjóða honum inn enda bara ágætt að fá smá tilbreytingu frá gluggasitjunni. Sölumannsgreyjið þyggur það þó hann hefði frekar viljað hafa það rómó hjá sinni ungu fögru kærustu og drekka með henni te. Þyggur samt kaffi hjá gluggakonunni sem sýnir bókum hans enga áhuga en ef hann hafi sjónauka þá vildi hún gjarnan kaupa slíkt apparat af honum. List smásögunnar í sinni bestu mynd.

Þekktasta verk Fríðu er án efa skáldsagan, Meðan nóttin líður, sem kom út árið 1990. Margverðlaunuð saga fékk er bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Einsog nafnið gefur til kynna kemur nóttin við sögu í þessari verðlaunabók. Aðalpersóna sögunnar, Nína, vakir yfir deyjandi móður sinni og í næturvökunni vakna spurningar. Spurningar um hana, móður sína og fleiri persónur hennar lífs. Aldamótaárið, 2000, sendi hún frá sér smásagnaverkið, Sumarblús. Sex sögur sem eiga það eitt sameiginlegt að aðalpersónur hverrar sögu eru kvenkyns. Síðasta bók Fríðu er skáldsagan, Í húsi Júlíu, er kom út árið 2006.


Ritverk Fríðu eru langt í frá upptalin því hún fékkst einnig við þýðingar. Úr þeirri deildinni má nefna snörun hennar á fyrstu sögunni af Aylu í, Þjóð bjarnarins mikla, eftir Jean M. Auel, Skáldsaga um börn jarðar. Ekki má gleyma ritgerð hennar um leikskáldið Jökul Jakobsson sem kom út á bók árið 1980 og var í hinu mikilvægu fræðiritaritröð Studia Islandica.

„Ekkert skemmtilegra til en að vera rithöfundur þegar vel gengur að skrifa. Að fást við orðið afturábak og áfram og finna að orðin hlýða, að maður ræður við þau. Að móta þau í þá mynd sem ég vil fá, ég veit ekkert stórkostlegra. En ekkert er hræðilegra en að vera rithöfundur þegar illa gengur, að vera eins og stíflað sigti sem ekkert kemst í gegnum."


Heimildir:

Morgunblaðið 19.12 1986. 8. maí 2010

Pressan 5. janúar 1989

skald.is

Kommentare


bottom of page