top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Þorri Íslendinga gleymir skandölum ársins á innan við viku“


Vandræðaskáld, tónlist, leiklist, uppistand, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur Bergmann Bragason, nýárskveðja, dúett, landsbyggðin, norðurland, úr vör, vefrit, menning
Vandræðaskáld - Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur Bergmann Bragason. Ljósmynd Vandræðaskáld

Þau Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur Bergmann Bragason mynda dúettinn Vandræðaskáld og hafa þau vakið mikla athygli fyrir nýárskveðju sína, þar sem þau fara yfir málefni ársins í gamansömu lagi. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Vilhjálmi á dögunum og fékk að heyra um hvernig þessi stórskemmtilegi dúett varð til og hvað annað þau taka sér fyrir hendur.


Vilhjálmur segir undirrituðum að það séu að verða fimm ár síðan að þetta verkefni, Vandræðaskáld, varð til. Hann og Sesselía höfðu verið vinir frá því í menntaskóla að sögn Vilhjálms og bjuggu svo bæði í London á sama tíma. „Við vorum þar í námi og spjölluðum yfir kaffibolla einn daginn að gaman væri að fara að gera saman tónlist.

„Við sömdum eitt lag og svo þegar við fluttum aftur til Íslands á svipuðum tíma þá ákváðum að sækja um styrk fyrir verkefni. Við fengum styrkinn og þá neyddumst við til að gjöra svo vel og gera eitthvað og Vandræðaskáldarverkefnið varð til í kjölfarið, þetta vatt þannig séð svona upp á sig.“ segir Vilhjálmur.

Að sögn Vilhjálms er heilmikið að gera hjá þeim Sesselíu í dag við að skemmta og veislustýra á árshátíðum, afmælum og brúðkaupum svo fátt eitt sé nefnt. „Það er aðal uppistaðan í þessum dúett, og flytjum við blöndu af þessum grínlögum sem við höfum verið að gera og erum svo með uppistand. Við gerum þetta í raun um allt land, við erum bæði búsett á Akureyri en höfum skemmt í Reykjavík og svo hringinn í kringum landið.“ segir Vilhjálmur.

Vandræðaskáld, norðurland, Vaðlaheiðargöng, list, menning, dúett, uppistand, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Sesselía Ólafsdóttir, Viljhjálmur Bergmann Bragason
Vandræðaskáld komu fram við opnun Vaðlaheiðarganga. Ljósmynd Vandræðaskáld

Nýárskveðjan er orðin að hefð að sögn Vilhjálms, og gera þau liðnu ári skil í lagaformi. Vilhjálmur segir að það sé ákveðin áskorun falin í þessu og bætir við að þetta virðist alltaf hitta í mark.

„Fólk tekur vel í þetta, eða svo virðist allavega vera. Þetta er góð upprifjun fyrir mann sjálfan varðandi hvað gerðist á árinu. Þorri Íslendinga gleymir helstu skandölum ársins á innan við viku. Svo er líka krefjandi að reyna að finna fyndinn flöt á málunum, þetta fer mikið eftir því hvernig maður segir hlutina, hvernig maður kemur þessu í orð.“ segir Vilhjálmur.

Þau Sesselía og Vilhjálmur eru bæði leiklistarmenntuð og eru viðloðandi leikhúslífið. Sesselía er leikona og leikstjóri og Vilhjálmur hef leikið og skrifað verk. Þau eru hluti af öðru batteríi sem kallast Umskiptingar, en það er atvinnuleikhópur fyrir norðan sem setti upp barnasöngleik í haust í samstarfi við Leikfélag Akureyrar sem fékk góðar viðtökur, en Vandræðaskáld sömdu einmitt alla tónlistina í því verki.

Vandræðaskáld, leiklist, list, menning, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur Bergmann Bragason, norðurland, dúett, úr vör, vefrit
Þau Sesselía og Vilhjálmur eru tengd leiklistarsenunni og hafa leikið, leikstýrt og skrifað leikverk í gegnum tíðina. Ljósmynd Vandræðaskáld

Vilhjálmur segir að það sé svolítið langsótt hvernig nafnið Vandræðaskáld kom til. „Þegar við kynntumst fyrst í menntaskóla þá vorum við bæði dramatísk ljóðskáld og höfðum mikil dálæta á Davíð Stefánssyni. Svo þegar við leituðum að nafni á þetta nýja batterí okkar mundum við eftir því að Davíð hafði ort ljóð um sögulega fígúru sem kallaður var Hallfreður vandræðaskáld.

„Okkur fannst þetta nafn, Vandræðaskáld ná vel utan um það sem við vorum að gera, að gera texta með ádeilu og höfum við reynt að standa undir því nafni og ekki hikað við að stinga á kýli og segja hvað okkur finnst.

Það er misjafnt hversu langan tíma það tekur að semja nýárskveðjuna. Yfirleitt tekur meiri tíma að taka þetta upp blaðlaust, í ár tók það svona tvo til þrjá tíma að berja saman lagið og texta og svo tókum við þetta upp daginn eftir, það var svona klukkutími í viðbót.“ segir Vilhjálmur.

Vandræðaskáld, Græni Hatturinn, Akureyri, norðurland, landsbyggðin, list, menning, dúett, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur Bergmann Bragason, úr vör, vefrit
Þau Vilhjálmur og Sesselía í essinu sínu á Græna Hattinum. Ljósmynd Vandræðaskáld

Að sögn Vilhjálms er listasenan fyrir norðan alltaf að blómgast. „Það er mikið um að fólk sem hefur farið í nám eitthvað annað, ýmist erlendis eða til Reykjavíkur, er að koma heim aftur og mér finnst vera að koma meiri gróska í menningarlífið hér. Ég held að það séu öflug ár framundan á Akureyri og stóra Eyjafjarðarsvæðinu hvað þetta varðar.“ segir Vilhjálmur að lokum.



bottom of page