top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Valse Triste


Í byrjun ágúst mánaðar síðastliðnum var opnuð sýning á verkum Guðmundar Thoroddsen í Úthverfu á Ísafirði sem ber heitið Valse Triste. Guðmundur Thoroddsen (1952-1996), sem lést 43 ára að aldri, var Reykvíkingur og hafði mikil og náin tengsl við Reykhólasveit og Ísafjörð.


Í fréttatilkynningu frá forsvarsfólki Úthverfu segir að Guðmundur hafi dvalið öll sumur á Stað í Reykhólasveit sem barn og unglingur og giftist til Ísafjarðar 1986 og bjó þar til dauðadags.

Guðmundur tók þátt í að reka Gallerí Slunkaríki á Ísafirði og vann að frumkvöðlaverkefni í skútusiglingum með ferðamenn um Vestfirði. Hann lærði myndlist í Myndlistarskólanum í Reykjavík og Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam, var mikill ævintýramaður og ferðaðist víða um heim bæði á sjó og landi.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir jafnframt að myndlistin sem hann skilur eftir sig beri með sér áhuga hans á siglingum og mörg viðfangsefnin tengjast landsvæðum sem hann ýmist ferðaðist til eða hugðist fara til. Þjóðsögur og ævintýri voru honum hugleikin og sjá má endurtekin tákn og minni þaðan í verkum hans frá ýmsum tímum. Á sýningunni er leitast við að gefa mynd af ferli hans sem myndlistarmanns auk þess að segja frá öðrum viðfangsefnum og áhugamálum sem höfðu áhrif á myndlistina. Eftir hann liggur talsvert af grafíkmyndum, vatnslitamyndum, málverkum, teikningum, bókverk og lágmyndir sem unnar eru með blandaðri tækni.


Sýningin er haldin í Gallerí Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði og á fleiri stöðum í húsinu m.a. í gömlu vinnustofunni hans á 3. hæð hússins. Sýningunni lýkur eftir nokkra daga, eða nánar tiltekið þann 17. september 2022, en þann dag hefði hann orðið sjötugur.

Í tengslum við lokadag sýningarinnar verður skipulögð dagskrá með fróðleik um feril listamannsins og tónlist, en Guðmundur var m.a. í hljómsveitinni Diabolus in Musica sem gaf út tvær hljómplötur á sínum tíma. Þetta er í fyrsta sinn sem haldin er yfirlitssýning á verkum Guðmundar Thoroddsen og í fyrsta sinn sem gerð er tilraun til að flétta saman við lífshlaup og áhugamál listamannsins með þessum hætti.

Sýningin Valse Triste er hluti af stærra sýningarverkefni – Umhverfingu nr. 4 – sem fram fer víða um Vestfirði og Dali í júlí og ágúst.


Comments


bottom of page