top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Um gildi menningarinnar


Skúli Gautason, pistill, menning, covid19, Mugison, tónleikar, list, Julie Gasiglia, Húsið-Creative Space, Patreksfjörður, Vestfirðir, úr vör, vefrit
„En með því að njóta menningar og kynnast því sem mannsandinn hefur afrekað í gegnum aldirnar er hægt að samsama sig því sem hæfileikaríkustu hugsuðir sögunnar hafa afrekað.“ Ljósmynd Julie Gasiglia frá tónleikum Mugison í Húsið-Creative Space á Patreksfirði sumarið 2019

Í þessu veirukófi hafa margir dvalið mikið heima. Svona framan af voru margir í hálfgerðu reiðileysi og vissu varla hvað þeir ættu af sér að gera. Menn horfðu mikið á Netflix-þætti, svo urðu menn leiðir á því og fóru að hlusta á tónlistina frá sínum sokkabandsárum og fóru loks að lesa bækur. Margir fóru að spila spil allskonar og aðrir fóru að prjóna eða smíða, mála, tálga eða taka til, jafnvel breyta hjá sér innanhúss, endurskoða innanhússarkitektúrinn. Allt er þetta menning og þegar á bjátar er það menningin sem bjargar manni.

Ég er þess alveg viss að ef þessi menning hefði ekki verið í boði hefðu margir lagst í kvíða, þunglyndi og jafnvel örvinglan.

Guð má vita með hvaða skelfilegu afleiðingum það hefði endað hefðu menn sokkið æ dýpra og ekki kunnað nein ráð til að koma sér upp úr kviksyndinu. En með því að njóta menningar og kynnast því sem mannsandinn hefur afrekað í gegnum aldirnar er hægt að samsama sig því sem hæfileikaríkustu hugsuðir sögunnar hafa afrekað.

Annað er það sem hefur verið stundað er að iðka hreyfingu. Menn fara út að ganga eða hlaupa og reyna að halda hæfilegri fjarlægð, en það er ekki í boði að fara í ræktina. Margir hafa verið útsjónasamir við að koma sér upp heimalíkamsrækt og beitt til þess alls kyns skemmtilegum og oft skringilegum ráðum. Um það er ekkert nema gott að segja. Heilbrigð sál í hraustum líkama hefur jafnan verið sagt – og víst er um það að allt spilar þetta saman; að rækta líkamann og auðga sálina. Stundum hafa menn verið hræddir um að það sé gjá á milli íþróttastarfs og menningar sem sé óbrúanleg, að annaðhvort stundi menn íþróttir eða rækti hinn skapandi hluta heilans. Ég held að það sé ekki rétt. Ég held að það geti farið mjög vel saman.

Skúli Gautason, pistill, menning, list, covid19, Julie Gasiglia, Húsið-Creative Space, Patreksfjörður, úr vör, vefrit
„Margir fóru að spila spil allskonar og aðrir fóru að prjóna eða smíða, mála, tálga eða taka til, jafnvel breyta hjá sér innanhúss, endurskoða innanhússarkitektúrinn. Allt er þetta menning og þegar á bjátar er það menningin sem bjargar manni.“ Ljósmynd Julie Gasiglia
„Þeir þjálfarar eru vissulega til sem krefjast þess að líkamsræktin eigi að taka allan vökufrítíma, það sé hollt að vera í líkamsrækt mörgum sinnum á dag, en minnumst þess sem hinn ágæti stofnandi knattspyrnufélagsins Vals, séra Friðrik Friðriksson, sagði: „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.“

Vissulega er það þannig að margar íþróttagreinar sameina skilgreinda íþróttatækni og listfengi, svo sem listdans á skautum, sundfimi, fimleikar og snjóbrettafimi. Mér finnst þetta ætti að vera í öllum íþróttagreinum. Ég held til dæmis að það yrði mun skemmtilegra að horfa á fótbolta ef menn hættu að ergja sig á því þegar leikmenn fleygja sér í jörðina með ópum eftir litla eða enga snertingu, rúlla sér í marga hringi á grasinu og halda síðan fyrir andlitið til að gefa til kynna hversu óbærilegur sársaukinn sé. Fyrir slík leikræn tilþrif ætti auðvitað að gefa sérstakan bónus.

Þegar ég var ungur var annað liðið látið fara úr að ofan, þannig mátti þekkja liðin í sundur. Það varð reyndar flóknara þegar kvennafótboltanum óx ásmegin.

En það mætti alveg hugsa sér að fótbolti væri leikinn í búningum sem undirstrikuðu sérstöðu liðsins. Þannig væru leikmenn Vals með vængi og hvassa gogga en leikmenn Þórs með gæruskinn yfir öxlunum, hornum prýdda hjálma á höfði og hamar í hönd. Páll Óskar væri örugglega til í að hanna búninga Stjörnunnar þannig að andstæðingarnir fengju ofbirtu í augun.

Vesalings leikmönnunum yrði þá hlíft við að leika í þessum sálar- og sniðlausu búningum sem þeir eru þvingaðir til að brúka nú um stundir. Þetta myndi tvímælalaust gera fótboltakappleikina mun áhugaverðari og ásjálegri.


Texti: Skúli Gautason


Comments


bottom of page