top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Túndran og tifið


Túndran og tifið á Sléttunni, Óskarsbraggi, Raufarhöfn, list, menning, listasýning, náttúra, landsbyggðin, Julie Gasiglia, norðausturland, Ísland, Iceland, Melrakkaslétta, norðurslóðir, úr vör, vefrit
„Melrakkaslétta býr yfir náttúrufegurð og menningarsögu sem mikilvægt er að unnið sé með á vettvangi listarinnar á þeim umbrotatímum sem loftslagsbreytingar eru. Ljósmynd aðsend.

Sýningin "Túndran og tifið á Sléttu" opnaði í dag, fimmtudaginn 4. júlí, í Óskarsbragga á Raufarhöfn. Boðið var upp á veitingar og gleði og svo var haldið

í göngu norðlenskri sumarblíðu út í lýsistankana þar sem Berglind María Tómasdóttir flautuleikari kveikti sinn galdur. Sýningin verður svo opin til 11. ágúst næstkomandi.

Í fréttatilkynningu frá forsvarsfólki sýningarinnar segir að sýningin “Túndran og tifið á Sléttu” hverfist um Melrakkasléttu og þær breytingar sem hafa þegar orðið og munu senn verða bæði lífríki og jarðvegi landsvæðisins, sem afleiðing hamfarahlýnunar.

Þátttakendur sýningarinnar samanstanda af fjölbreyttum hópi reynslumikilla listamanna: myndlistarmanna, tónskálds, hljóðfæraleikara og hönnuðar. Sýningarverkefnið er unnið í samstarfi við Menningarfélagið Heimsenda og Rannsóknastöðina Rif. 


Vísindafólk hefur safnað saman gögnum um landsvæðið og var sá gagnabanki aðgengilegur listamönnunum. Þeir mótuðu verk úr gögnunum og miðla þeim á samsýningunni. Ósæð verkefnisins er Óskarsbraggi, veglegt timburhús á Raufarhöfn, sem mun hýsa sýninguna. Húsið hefur verið í uppbyggingu undanfarin ár og er stefnt að því að það verði sannkölluð menningarmiðstöð. Það tengir verkefnið við brothætta byggðarsögu Raufarhafnar – hnignun og uppgang.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir jafnframt að verkefnið hafi hafist formlega sumarið 2022, þegar hópurinn kom saman í tæpa viku til að kanna aðstæður, kynnast umhverfinu og hvert öðru. Ári síðar eða síðastliðið sumar var síðan haldin vikulöng vinnustofudvöl á Melrakkasléttu, þar sem sá grunnur sem þegar var grafinn var steyptur. Þá styrktust tengsl þátttakenda við nærsamfélagið: náttúruna, heimamenn, vísindafólk og sveitarstjórn.

Melrakkaslétta býr yfir náttúrufegurð og menningarsögu sem mikilvægt er að unnið sé með á vettvangi listarinnar á þeim umbrotatímum sem loftslagsbreytingar eru. Sléttan heyrir til Norðurheimsskautasvæðisins en afleiðingar hlýnunar eru meiri og hraðari á vistkerfi þess heldur en önnur vistkerfi jarðar. Þar sem Melrakkaslétta er einn af fáum stöðum í heiminum sem hægt er að keyra inn á Norðurheimsskautasvæðið er það tilvalin staðsetning fyrir Rannsóknarstöðina Rif, stofnun sem kemur að verkefninu. Pedro Rodrigues, forstöðumaður Rifs, sá um að veita þátttakendum gögn, tól og ráðgjöf um ástand lífríkis og náttúru staðarins. Þverfagleg nálgun þessa verkefnis á túlkun og miðlun loftslagsbreytinga á Norðurslóðum er einn af helstu styrkleikum þess.

Túndran og tifið á Sléttunni, Óskarsbraggi, Raufarhöfn, list, menning, listasýning, náttúra, landsbyggðin, Julie Gasiglia, norðausturland, Ísland, Iceland, Melrakkaslétta, norðurslóðir,úr vör, vefrit
„Sýningin “Túndran og tifið á Sléttu” hverfist um Melrakkasléttu og þær breytingar sem hafa þegar orðið og munu senn verða bæði lífríki og jarðvegi landsvæðisins. Ljósmynd aðsend.

Listamenn sem taka þátt í sýningunni eru eftirtaldir:

Berglind Tómasdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Einar Falur Ingólfsson, Kristín Reynisdóttir, Margrét H. Blöndal, Mark Wilson, Pétur Magnússon, Pétur Örn Friðriksson, Ósk Vilhjálmsdóttir, Sigtryggur Bjarni Baldvinsson, Snorri Freyr Hilmarsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þórarinn Blöndal.


Verkefnastjóri er Julie Sjöfn Gasiglia og sérstakar þakkir fyrir þeirra vinnu fá

Íris Indriðadóttir og Signý Jónsdóttir. Við hvetjum áhugasama um að kynna sér endilega þessa skemmtilegu sýningu sem opin verður til 11. ágúst næstkomandi.


Commentaires


bottom of page