Laugardaginn 11. febrúar síðastliðinn var opnuð sýning á verkum Atla Pálssonar í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið ,,Þar sem köttur hvílir, þar er heimili‘‘ og stendur hún til sunnudagsins 5. mars næstkomandi.
Í fréttatilkynningu frá forsvarsmönnum Úthverfu segir að myndlistarmaðurinn Atli Pálsson hafi útskrifast vorið 2020 frá Listaháskóla Íslands og að verk hans rýni oft í hversdagslegar athafnir og samfélagsleg gildi á húmorískan máta. Viðfangsefni eins og tilefnislaus verðlaun, persónulegir sigrar, ofurgestrisni og gjafmildi hafa verið í forgrunni verka hans, sem og persónusköpun.
Ofgnótt einkennir oft framsetningu þessara hugmynda. Undanfarið hefur Atli beint sjónum sínum að heimilinu í verkum sínum í seríu sem kallast “Vistarverur”. Sýningin “Þar sem köttur hvílir, þar er heimili” er ákveðið framhald af vangaveltum um umhverfi og andrúmsloft sem myndast getur í heimilisrýminu. Á sýningunni er áhorfandanum boðið að kynnast hópi katta inni á heimili þeirra. Þeir horfa löngunaraugum út um gluggann á fuglana sem fljúga frjálsir. Kannski einn daginn komast þeir sjálfir á flug.
Við hvetjum áhugasama um að kynna sér endilega þessa sýningu áður en henni lýkur.
Comments