top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Tæklum þetta allt með gleði!“

Updated: Mar 26, 2019


List í ljósi er listahátíð sem haldin er í febrúar ár hvert á Seyðisfirði. Á hátíðinni er bærinn lýstur upp með listaverkum bæði erlendra sem innlendra listamanna í tilefni af endurkomu sólarinnar, en hún er falin bakvið fjöllin í fjóra mánuði fyrir þennan viðburð. Viðburðinn er haldinn utandyra án aðgangseyris og er samfélagsmiðaður og fjölskylduvænn. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til framkvæmdastjóra hátíðarinnar, hennar Sesselju Jónasardóttur og fékk að heyra allt um hina nýafstöðnu hátíð, sem hlaut hin eftirsóttu verðlaun Eyrarrósina á dögunum.

Chantal Anderson, Emily Parson-Lord, List í ljósi, seyðisfjörður, úr vör, vefrit
Ljósmynd Chantal Anderson. Verk eftir Emily Parson-Lord

„Þessi hugmynd kemur frá Celiu sem er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Hún var þáttakandi í Heima, sem er listabúsetu hér á Seyðisfirði.

"Hún var búin að vera í viku hér á Seyðisfirði þegar við hittumst og settumst niður yfir rauðvínsglas og hún fór að segja mér frá listahátíð sem hún hafði haldið í fimm ár í Nýja Sjálandi sem kallast Art in the Dark. Það var líka ljósahátíð og henni fannst umhverfið á Seyðisfirði svo fallegt að hana langaði að gera eitthvað svipað hér. Frá og með þeim degi þróuðum við hátíðina saman og þremur mánuðum síðar varð fyrsta hátíð List í ljósi til” segir Sesselja.

Sesselja segir að mikilvægi svona hátíðar sé mikið fyrir svæðið, bæði vegna þess að hún er haldin á svokallaðri lágönn, þegar ekkert annað er að gerast og þegar það koma ekki sólargeislar niður í bæinn í fjóra mánuði. Hún segir að veturinn sé langur og að svona hátíð gefi samfélaginu eitthvað til að hlakka til. „Svo er þetta nýjung og góður stökkpallur fyrir unga listamenn, þetta er annar miðill heldur en fólk er vant að vinna með, þarna á hátíðinni er öll list talin með.”

Chantal Anderson, Boris Vitázek, List í ljósi, seyðisfjörður, úr vör, vefrit
Ljósmynd Chantal Anderson. Verk eftir Boris Vitázek

Í kringum tuttugu föst listaverk voru í listagöngunni þetta árið auk allskyns atriða eða gjörninga. Sesselja segir að fallegt samfélag myndist yfir hátíðina. „Við vorum með nokkur verk innandyra, fimm eða sex talsins, svo voru gjörningar sem stóðu yfir í hálftíma hvert kvöld. Listamenn og starfsmenn voru í kringum 65 talsins þetta árið og myndast mjög góð stemning, við borðum öll saman og vinnum saman.”


Líkt og áður sagði þá fékk hátíðin verðlaunin Eyrarrósina. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005. Sesselja segir að þetta sé gríðarlega mikill heiður og mikill gæðastimpill á hátíðina.

„Við elskum hátíðina svo mikið, erum búin að leggja blóð, svita og tár í að gera hana að því sem hún er í dag. Þannig að þetta er mikil lyftistöng og mikilvægt að aðrir sjái vinnuna sem felst í svona hátið. Það er afar gott og fallegt að fá þessa viðurkenningu og við viljum halda áfram að gera betur.”

Aðspurð segir Sesselja það vera mikið verk að skipuleggja hátíð sem þessa. Hún segir að bæjaryfirvöld hafi lyft skipuleggjendum hátíðarinnar á hærra plan. „Það er miklu meira að gera það en að segja að halda svona hátíð. Fyrst og fremst skiptir miklu máli að skipuleggja sig vel og ef það er gert, þá mun ganga vel. Það er ótrúlega mikilvægt að fá bæjarbúa í lið með sér, þetta er aldrei hægt án þeirra. Hérna hjá okkur þá taka skólarnir þátt, björgunarsveitin tekur þátt og allir í bænum taka þátt og þá fá bæjarbúar auka stolt því þeir eru partur af þessu öllu saman. Ef samfélagið er ekki með þér í liði þá gengur þetta ekki upp.“

Chantal Anderson, Ljós Collective, List í ljósi, seyðisfjörður, úr vör, vefrit
Ljósmynd Chantal Anderson. Verk eftir Ljós Collective

Að sögn Sesselju fer mesti tíminn í undirbúningi hátíðarinnar í að sækja um styrki. Hún segir að hátíðin sé svokölluð non-profit og að allt sé endurgjaldslaust. Það þarf því að finna fjármagn og segir Sesselja að það þurfi að huga að mörgu.

„Hátíðin stækkar ört og verður dýrara hvert ár. Það þarf líka að passa að hafa plan B, C og D því þetta er útihátíð í febrúar og allt getur gerst.

Þannig að ég myndi segja að fjármögnun og veðrið er hvað mest krefjandi er kemur að þessu. Aftur á móti er mest gefandi að vinna með öllu listafólkinu og fólkinu sem aðstoðar okkur. Þetta er mjög líkamlega og andlega krefjandi, en á sama tíma svo svakalega gefandi og skemmtilegt!“ segir Sesselja.

Chantal Anderson, Rogue Creative, List í ljósi, seyðisfjörður, úr vör, vefrit
Ljósmynd Chantal Anderson. Verk eftir Rogue Creative

Sesselja segir að hátíðin hafi hún þróast gríðarlega mikið frá því hún var fyrst haldin. Til að mynda hafi kvikmyndahátíðin Flat Earth Film Festival (FEFF) verið stofnuð í kringum hátíðina, því aðstandendur hátíðarinnar hafi fengið svo mikið af myndbandsverkum og kvikmyndum sem umsóknir. Þess vegna fannst þeim tilvalið að búa til sér umgjörð utan um það. Í ár var þriðja árið sem kvikmyndahátíð er haldin og hefst hún vikuna áður en List í ljósi hefst. Auk þess fór List í ljósi í samstarf við HEIMA þetta árið og fengu þau til liðs við sig listamann frá hverju landi af Norðulöndunum. „Þau komu í byrjun janúar og sköpuðu sérstakt verk fyrir hátíðina. Við vissum ekki hvaða verk það yrði, en þetta var tilraun til að koma saman, vinna saman og búa til list saman. Þetta gekk rosa vel og við fengum mjög falleg verk, í tengslum við náttúruna og umhverfið og fólk fékk meiri skilning á hvað það er að skapa á svona stað.” segir Sesselja.


Sesselja segir margt eftirminnilegt hafi gerst undanfarin ár tengt hátíðinni. „Maður lærir ótrúlega margt, þetta er mjög viðburðarrík hátíð. Eitt árið þá gleymdum við að láta bæjarstarfsmenn salta göturnar og það var hrikalega hált, fólk var eins og á skautum að skoða verkin!

“Og einu sinni þurftum við að fresta hátíðinni um einn dag vegna óveðurs, en héldum tropicabana partý í staðinn og núna er þetta partý orðið árlegur viðburður. Allir fara í Hawai skyrtur og dansa. Það á sér ýmislegt stað en við tæklum þetta allt með gleði!” segir Sesselja að lokum.
Chantal Anderson, List í Ljósi
Chantal Anderson verk eftir List í Ljósi




bottom of page