top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Svo grænt


Svo grænt, list, menning, listasýning, Stokkseyri, Suðurland, Dagný Guðmundsdóttir, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Magnús Guðmundsson, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Myndlistarkonan Dagný Guðmundsdóttir. Ljósmynd Magnús Guðmundsson.

Það er fallegt veður. Sólin skín og varpar þessari töfrandi vetrarbirtu yfir náttúruna sem þýtur hjá svo einkennilega hratt og hægt á sama tíma. Gullinn sjóndeildarhringurinn og kyrrðin endurnýja í hvert skipti sem ég depla augunum tilboð sitt um að stoppa bílinn, gefa eftir og renna stundarkorn saman í eitt með náttúrunni. En ég keyri áfram. Annað togar í mig.

Ferðinni er heitið á Stokkseyri. Á opnun sýningarinnar Svo Grænt! sem haldin er í galleríinu Stokkur Art Gallery. Sýningin er innsetning myndlistarkonunnar Dagnýjar Guðmundsdóttur sem um árabil hefur búið ásamt manni sínum á Skyggnissteini, rétt utan við Geysi í Haukadal.

Þar hafa þau í takt við náttúruna ræktað á smáræðismörkum í anda vistræktar* ásamt því að halda námskeið þar sem þau hafa leitt saman vistrækt við myndlist, tónlist, jóga, ræktun, nýtingu matar og jurta svo fátt eitt sé nefnt.

Segja má að sýningin sem nú er verið að opna sé einskonar gluggi inn í samfund myndlistarmanns og vistræktar. „Ég hófst handa í mikilli gleði þegar ég byrjaði að rækta á Skyggnissteini. Gerði allt sem mér datt í hug. Prófaði mig áfram, horfði, gerði tilraunir, lærði. Blandaði saman og reyndi að finna út áhrifin sem það hafði. Fylgdist með hvernig náttúran hagar sér. Nýtti allt sem einhver möguleiki var á. Gamalt dót var endurnýjað eða fékk nýtt hlutverk. Reyndi að skynja tenginguna milli alls. Þetta var mín sköpun“ segir Dagný Guðmundsdóttir í sýningartexta sínum. Þetta vekur forvitni mína og ég finn að ég hlakka til að vita meira.

Svo grænt, list, menning, listasýning, Stokkseyri, Suðurland, Dagný Guðmundsdóttir, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Magnús Guðmundsson, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Með skilningarvitin vakin og nýja upplifun í farteskinu geng ég enn á ný út í gyllta vetrarsólina.“ Ljósmynd Magnús Guðmundsson.

Þegar ég stíg inn í sýningarrýmið má segja að náttúran umlyki mig enn á ný. En nú er það ekki hin gyllta vetrarbirta sem lokkar mig inn heldur fjölbreytileikinn. Verk af öllum stærðum og gerðum þekja veggina.

Gleðin svífur yfir vötnum þar sem ólíkum víddum náttúrunnar eru gerð skil ýmist á blaði, textíl, í skúlptúrum og í sagnaheimi og myndar allt í senn heildræna upplifun. Mér finnst sýningarrýmið verða að einskonar tilfærslu vistkerfisins inn í heim myndlistar og andar nú bæði innra með mér og allt um kring þar sem ég stend í því miðju.

Heill veggur af hænum. Ristur þar sem sterkar svartar línur draga fram ólíka persónuleika hænanna sem ýmist staldra við forvitnar eða strunsa svo uppteknar að þær virða mig ekki viðlits. Þéttur veggur moldar í öllum sínum litbrigðum gefur tilfinningu um öryggi og festu. Skærgræn og fersk epli þrykkt á pappír og hrúgur af teiknuðum blómum með tælandi litbrigðum kallast á við textíl köngulær sem bústnar taka sér rými í vistkerfinu. Grófur vefstóll gerður úr greinum og laufum dregur saman heimana tvo, þann mennska sem státar af handverki og hinn náttúrulega sem í senn er bæði lífrænn og listrænn.

Ég dvel í rýminu um stund og nýt náttúrunnar. Ég sýp á tei úr Skyggnissteins jurtum og finn fíngerð blæbrigði jurtanna á tungunni. Stundin er fullkomnuð þegar ég hlusta á leiðsögn Dagnýjar um sýninguna sem rennir nýrri stoð undir upplifunina.

Skynjun mín er ekki lengur stök heldur er ég orðin hluti af þankagangi og upplifun mín og hugsun rennur saman við hugmyndafræðina að baki sýningunni. Með skilningarvitin vakin og nýja upplifun í farteskinu geng ég enn á ný út í gyllta vetrarsólina. Ég sest á bekk, loka augunum, dreg djúpt að mér ferskt vetrarloftið og anda hægt frá mér meðan ég renn stundarkorn saman við allt.

Takk.


Hér er svo myndbrot tengt sýningunni unnið af Arnari Sigurðssyni þar sem Dagný Guðmundsdóttir segir frá sinni listsköpun: https://www.youtube.com/watch?v=G-zh7G5fHPU










*Vistrækt er stefna þar sem reynt er að líkja sem mest eftir uppröðun og ferlum innan náttúrunnar með það fyrir augum að skapa vistkerfi sem getur verið sjálfbært.

bottom of page