top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Svikull silfurljómi


Una Björg Magnúsdóttir, Svikull Silfurljómi, listasýning, list, menning, Listasafn ASÍ, Súðavík, Samkomuhús Súðavíkur, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Una Björg Magnúsdóttir á vinnustofu sinni. Ljósmynd aðsend

Laugardaginn 1. apríl næstkomandi opnar sýning Unu Bjargar Magnúsdóttur „Svikull Silfurljómi“ í Samkomuhúsi Súðavíkur. Opnun sýningarinnar er klukkan 16:00 og stendur sýningin yfir til sunnudagsins 23. apríl og er opin daglega frá kl. 14:00 til 17:00 og eftir samkomulagi.

Í fréttatilkynningu frá Listasafni ASÍ segir að Una Björg Magnúsdóttir sé fjórði listamaðurinn sem velst til þátttöku í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu. Listasafn ASÍ býr við ágætan húsakost en er um þessar mundir starfrækt án þess að hafa yfir eigin sýningarsal að ráða. Á meðan þetta tímabundna ástand varir hefur safnið átt gjöfult og gott samstarf við stofnanir, samtök og einstaklinga víðsvegar um landið og skipulagt með þeim sýningar á bæði eldri og nýrri verkum.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir jafnramt að Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) nam myndlist við Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við ÉCAL í Sviss þaðan sem hún útskrifaðist árið 2018. Verk hennar hafa verið sýnd meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni, Y gallerí, KEIV í Aþenu, GES-2 í Moskvu og Nordatlantens brygge í Danmörku.

Una Björg beitir ýmsum brögðum í verkum sínum til að velta upp spurningum um fegurð, gildi, tilvist okkar, hegðun og hátterni. Hún notar til þess áferð og gildishlaðin efni á slunginn en sparlegan hátt. Með nákvæmum uppstillingum á fábrotnum munum skapa verkin ákveðið sýndaryfirborð þar sem allt virðist með felldu. En verkin taka á sig háttvísa blekkingu og dansa á óræðum skilum þess raunverulega og eftirlíkingar til að kalla á óskipta athygli áhorfandans.

Kallað er reglulega eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja vinna með safninu og eitt verkefni valið hverju sinni. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem taka þátt og eru til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum.

Una Björg Magnúsdóttir, Svikull Silfurljómi, Teningar, listasýning, list, menning, Listasafn ASÍ, Súðavík, Samkomuhús Súðavíkur, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Verkið Tengingar eftir Unu Björg Magnúsdóttur

Staðirnir sem urðu fyrir valinu fyrir sýningar Unu Bjargar Magnúsdóttur eru Súðavík og Mosfellsbær. Í fréttatilkynningunni kemur fram að Una Björg velji sýningarrýmin af kostgæfni og leyfir verkunum á sýningunni að spretta fram sem einhvers konar viðbragð við því sem í rýminu felst. Fyrri sýningin er haldin sem fyrr segir í samvinnu við Samkomuhúsið í Súðavík og seinni sýningin verður haldin í Mosfellsbæ haustið 2023.


Samhliða sýningunum verða haldin myndlistarnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er m.a. með elstu verkin í safneigninni og gerðar stuttmyndir fyrir heimasíðu safnsins. Sýningarstjórar sýningarinnar Svikull silfurljómi eru Dorothée Kirch og Elísabet Gunnarsdóttir og hvetjum við áhugasama um að missa ekki af þessari áhugaverðu sýningu.


Comments


bottom of page