top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar


Strandir 1918, bók, bókaútgáfa, Strandir, Dagrún Ósk Jónsdóttir, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Kápa bókarinnar Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar

Árið 1918 var merkilegt ár í sögu þjóðarinnar. Ísland fékk fullveldi og ýmsir stórviðburðir settu svip á mannlíf og samfélag. Í bókinni „Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar“ sem er nýkomin út er athygli beint að viðburðum og daglegu lífi á Ströndum á þessum tíma, birtar dagbækur, ferðasögur og fræðigreinar. Fjallað er um líf og störf fólks í Strandasýslu fyrir rúmri öld, á tímum sem standa okkur býsna nærri. Samt er margt við daglegt amstur fólks fyrir 100 árum framandi í samtímanum.

Ritstjóri bókarinnar Strandir 1918 er Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og hún er einnig höfundur greinar í bókinni, eins og Strandamennirnir Eiríkur Valdimarsson, Hafdís Sturlaugsdóttir og Jón Jónsson. Þá skrifar forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson formála að bókinni.

Einnig er birt ferðasaga eftir Guðmund Hjaltason alþýðufræðara og búnaðaryfirlit eftir Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra sem báðir ferðuðust um allar Strandir um þetta leyti.

„Það lá vel við að biðja Guðna forseta að skrifa formálann vegan þess að Guðmundur Hjaltason sem skrifar ferðasöguna sem við birtum er langafi hans,” segir Dagrún brosandi.

Þá eru brot úr tveimur dagbókum að finna í bókinni, annars vegar eftir Níels Jónsson á Grænhóli á Gjögri og hins vegar Þorstein Guðbrandsson á Kaldrananesi. Innihald bókarinnar er því mjög fjölbreytt: „Það er svo áhugavert að flétta saman svona ólíkum heimildum, eins og við erum að vinna með. Í dagbókunum fáum við tækifæri til að sjá hlutina með augum fólks sem upplifði þessa tíma og hvaða áhrif stórviðburðir ársins höfðu á Ströndum. En í bókinni fjöllum við svo bæði um stórviðburðina og svo fagurfræði hversdagsins,” segir Dagrún.


Aðspurð segir Dagrún vinnuna við útgáfuna hafa gengið vel, það sé sérstakt en líka skemmtilegt að gefa út bók árið 2020: „Það er auðvitað mjög sérstakt að gefa bókina út núna þegar covid er í gangi, það hefur aðeins flækt málin og verið erfiðara að ná í heimildir og svona, en við höfum samt verið ótrúlega heppin. Svo eru auðvitað öll útgáfuboð, viðburðir og kynningar bara rafræn, það hefur einstaka kosti en marga galla.” Dagrún bætir svo við:

Strandir 1918, bók, bókaútgáfa, Dagrún Ósk Jónsdóttir, Strandir, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Dagrún Ósk Jónsdóttir, ritstjóri bókarinnar (t.h.) við pökkun á bókum til sendingar ásamt móðir sinni, Ester Sigfúsdóttur (t.v.)
„Það er samt líka gaman að gefa þessa bók út akkúrat í ár, þar sem árið 1918 var svo sannarlega sögulegt og við erum líka að lifa sögulega tíma einmitt núna, svo það er ákveðin hliðstæða þó þetta sé auðvitað gjörólíkt“.

Með útgáfu bókarinnar Strandir 1918 er rekinn endahnútur á samnefnt samvinnuverkefni sem hefur staðið yfir frá árinu 2018. Sauðfjársetur á Ströndum og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa standa saman að útgáfu bókarinnar.


Dagrún segir bókina gefa góða innsýn í daglegt líf og hversdagsleg störf fólks á Ströndum á sögulegum tímum og er áhugaverð lesning fyrir alla sem hafa áhuga á þjóðlegum fróðleik, sögu og náttúru.

Þess ber að geta að bókin er einungis seld beint frá Sauðfjársetrinu á Ströndum og er hægt að tryggja sér eintak í síma 693-3474, á saudfjarsetur@saudfjarsetur.is eða á Facebook-síðu Sauðfjársetursins. Við hvetjum áhugasama að kynna sér málið og næla sér endilega í eintak.



bottom of page