Vinnustofa um stafræna flakkara á norðurslóðum fór fram í byrjun þessa mánaðar í Blábankanum á Þingeyri, nánar tiltekið föstudaginn 6. maí. Arctic Digital Nomads eða Stafrænir Flakkarar á Norðurslóðum er samstarfsverkefni á milli norðurlandanna um störf án staðsetningar. Verkefnið er að frumkvæði Blábankans og segir í fréttatilkynningu sem forsvarsmenn Blábankans sendu frá sér að fali í sér samvinnu við Grænland, Norðurlöndin og Skotland um að skapa grundvöll fyrir störf án staðsetningar og mynda tengslanet á milli svæða sem bjóða upp á vinnuaðstöðu fyrir fólk frá öllum heiminum. Stafrænir flakkarar er sí stækkandi hópur og miðar verkefnið að þekkingarsköpun og markaðssetningu til flakkara víðsvegar að úr heiminum sem sækir í vinnurými sem það getur ferðast á milli. Verkefnið styður við sóknaráætlun og byggðaáætlun og eykur þekkingu á þörfum fólks í fjarvinnu milli menningarheima. Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir jafnframt að Ástralarnir Jay Topp og Dom Gould flökkuðu fyrr í vor á milli samvinnurýma, enda vinna þeir báðir mestmegnis í eigin verkefnum í fjarvinnu. Þeir eru í augnablikinu að búa til heimildarmynd um stafræna flakkara á norðurslóðum í samstarfi við ADN og Blábankann. Þeir dvöldu á Þingeyri í vor og spjölluðu við gesti vinnustofunnar um norðurslóðir, sjálfbærni og skynsamlega bjartsýni um framtíðina.
Um er að ræða virkilega spennandi verkefni en þess ber að geta að ÚR VÖR hefur áður fjallað um vinnustofu tengda stafrænum flökkurum í Blábankanum, en hægt er að lesa allt um það hér: https://www.urvor.is/post/arctic-digital-nomads-2019
Comments