top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Komið að tímapunkti í sögunni“

Updated: Apr 1, 2019


Arnar Sigurðsson, Blábankinn, Arctic Digital Nomads, úr vör, vefrit
Arnar Sigurðsson, forstöðumaður Blábankans. Ljósmynd Blábankinn.

Fyrsta vinnustofa „Arctic Digital Nomads“ verður haldin dagana 26. og 27. apríl næstkomandi í Blábankanum á Þingeyri. Verkefnið má yfirfæra á íslensku sem „Stafrænir flakkarar á norðurslóðum“ þar sem fulltrúar frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Noregi munu hittast og athuga hvort að það verði grundvöllur fyrir því að koma heimskautasvæðinu á kortið fyrir stafræna flakkara, þ.e. fólk sem getur unnið vinnu sína í gegnum fartölvu. Fulltrúarnir eru frá Blábankanum á Þingeyri, Hótel Narsaq og Qajaq bjór frá Grænlandi, Arctic Coworking Lodge í Lofoten Noregi og bæjarfélaginu Vágar í Suðurey í Færeyjum.


Það var Blábankinn sem átti frumkvæði að þessu verkefni og var stuðningur fenginn frá Norræna Atlantshafssamstarfinu (NORA). NORA er ríkjasamstarf sem nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs og heyrir undir samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðastefnu. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Arnar Sigurðsson, forstöðumann Blábankans til að forvitnast um verkefnið. Hann segir að vonast sé til að þetta verði þriggja ára verkefni en það sé þó ekki alveg ljóst ennþá. Að sögn Arnars eru svæðin komin mislangt hvað varðar að útbúa samvinnurými til að bjóða þessa hópa velkomna.

„Við vonumst til að geta hjálpað hvort öðru og lært af hvort öðru, það er kjarninn í verkefninu auk þess að búa saman til vörumerki sem heitir Arctic Digital Nomads. Með því viljum við kynna lífstíl á þessu svæði sem heldur uppi merkjum þess ævintýris um að vera óháður staðsetningu en þrátt fyrir það, að geta tekið þátt í atvinnulífi heimsins.“ segir Arnar.
Blábankinn, Arctic digital nomads, Haukur Sigurðsson, úr vör, vefrit
Blábankinn er tilvalin vinnuaðstaða fyrir stafrænan flakkara. Ljósmynd Haukur Sigurðsson.

Arnar segir að ákveðin svæði í heiminum, þar sem þetta hugtakið stafrænn flakkari eigi betur heima. Hann segir hugtakið tiltölulega nýkomið í tísku, þó sjálfsagt hafi alltaf verið til fólk sem gat unnið hvar sem er. „Það eru svæði sem hafa forskot sem geta boðið upp á lífstíl sem tengist útiveru og náttúrugæðum sem erfitt er að fá í stórborginni. Þar hafa hópað sig saman aðilar allstaðar að úr heiminum sem eiga það sameiginlegt að vinna í gegnum fartölvuna. Þetta eru borgir eins og Lissabon og aðrir staðir í heitari löndum.


Að sögn Arnars er einn ókostur við Ísland sá að það sé ekki sérstaklega ódýrt land á heimsmælikvarða. Á móti komi hinsvegar að búsetukostnaður sé lægri á svæðum líkt og Vestfjörðum og lífið einfaldara og ódýrara þar. Hann segir að ein ástæðan fyrir því að vinnuhópurinn telji að þetta vera áhugaverður kostur fyrir svæði eins og þessi á norðurslóðum er að þessi svæði hafa verið háð vinnslu á náttúruauðlindum og minna byggt upp þekkingariðnað og skapandi iðnað.

„Oft var þetta karllæg atvinnustarfsemi sem tengdist sjávarútvegi til dæmis. Ástæða fyrir að NORA styrkir þetta verkefni er að við höfum tækifæri nú til að búa til meiri fjölbreytni á svæðið og tækifæri fyrir yngra fólk að koma og vinna ýmiss konar vinnu, því þetta er ekki tengt staðsetningu.“ segir Arnar.
Þingeyri, Blábankinn, Arctic Digital nomads, úr vör, vefrit
Lífið á norðurslóð er öðruvísi og getur verið krefjandi. Ljósmynd Blábankinn.

Fyrirhugaðar eru þrjár vinnustofur í ár samkvæmt Arnari. Byrjað verður á vinnustofunni á Þingeyri, í sumar verði farið til Grænlands og svo til Noregs í haust. Þessi áætlun geti þó eitthvað hliðrast til en áherslan er að vinnan fari fram á norðurslóðum. Hann segir að markmiðið sé að kynna þennan lífstíl og búa jafnvel til einhverskonar pakka þar sem fólk getur verið að flakka á milli landa við heimskautið, milli samvinnurýma og varið tíma í gistirýmum sem eru við svipaðar kringumstæður.

„Ávinningurinn er sá að þú getur verið að vinna hjá Google en búið á Þingeyri. Eða verið að vinna hjá Reykjavíkurborg og búið á Grænlandi. Þetta býr til nýja vídd á þessa staði sem eru lengra í burtu frá borgunum sem hafa hingað til verið í fararbroddi í ákveðnum iðnaði, svo sem þekkingar- og skapandi iðnaði. Ef það tekst að markaðsetja staðina þannig að það laði að þennan hóp, þá býr það til nýja vídd í atvinnulífið og eykur líkurnar á fjölbreytni í hæfni og þekkingu sem er til staðar.“ segir Arnar.

Arnar segir að á þeim tíma þegar skip voru helsta leiðin til að ferðast, þá hafi svokölluð útnes verið mjög alþjóðlegir staðir. Þar var að koma fólk með nýjar hugmyndir og alþjóðlegir straumar léku um. Að sögn Arnars geta þessir staðir sem leggja áherslu á stafræna flakkara orðið skip síns tíma og haft áhrif á samfélögin með svipuðum hætti.

„Lykillinn er að okkur takist að útskýra fyrir umheiminum gildið í því að búa í smærri samfélögum og búa í meiri nálægð við náttúruna, að búa jafnvel langt í burtu frá alfaraleið. Það er komið að tímapunkti í sögunni að það skiptir minna máli hvar þú vinnur og hvar þú býrð, það er ekki lengur samtvinnað.“ segir Arnar.
Stykkishólmur, Arctic Digital Nomads, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit.
Staðir sem laða að stafræna flakkara geta verið líkt og skip síns tíma. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Blaðamanni ÚR VÖR leikur forvitni á að vita hvernig þetta samstarf kom til. Að sögn Arnars var honum boðið á ráðstefnu í Nuuk á Grænlandi á síðasta ári sem hét „Entrepreneurship on the Edge“, eða „Frumkvöðlar á jaðrinum“ upp á okkar ástkæra ylhýra. Þar hitti Arnar stofnanda hótels Narsac og Qajaq bjórsins. NORA var einn af bakhjörlum þessarar ráðstefnu og þau auglýstu eftir stuðningi við svona verkefni. Arnar segir að það hafi lengi blundað í forsprökkum Blábankans að vinna eitthvað verkefni í þessa veru. Hann hafi svo vitað af strákunum í Coworken Lodge í Lofoten í Noregi sem hafi verið að gera flotta hluti varðandi að blanda saman vinnu án staðsetningar og brimbretta lífstíl.

„Ég hafði samband við þessa tvo aðila og stakk upp á verkefninu. Það var strax mikill áhugi og samstarfsvilji varðandi þetta. Við fengum svo ábendingu um að það væri bæjarfélag í Færeyjum, Vágar, sem hafði vegna áfalla í fiskvinnslu á síðustu árum þurft að hugsa út fyrir kassann um hvernig þau myndu viðhalda og styrkja sína byggð. Þannig að þetta er samansafn af ólíkum aðilum; frumkvöðlar, hóteleigendur, bæjarfélag og svo óhagnaðardrifinn staður eins og Blábankinn. Ólíkir aðilar sem deila þeirri hugsjón að finna ólíkar leiðir til að styrkja sín samfélög á norðurslóðum.“ segir Arnar.
Arctic Digital Nomads, Þingeyri, Haukur Sigurðsson, úr vör, vefrit
Að vera stafrænn flakkari á norðurslóð er spennandi kostur. Ljósmynd Haukur Sigurðsson.

Arnar segir að nú sé tækifæri til að lokka ungt fólk úr borgunum til að sjá hvað aðrir staðir bjóða upp á. Að hans sögn sé það óumflýjanlegt að vinnan verði komin inn í tölvuna óháð því sem þú ert að vinna við og því skipti minna máli hvar í heiminum þú sért staddur. „Hvaða áhrif þetta hafi á byggðaþróun er þó opin bók. Hvort allir safnist saman í Berlín, London eða San Francisco eða hvort það hafi öfug áhrif, og fólk fari á litlu einangraða staði, það er spurningin. En þau svæði sem verða á undan að markaðsetja sig og ná til þessa fólks, þessara flakkara, þau munu án efa njóta mjög góðs af því.“ segir Arnar að lokum.



bottom of page