Í vikunni voru kynntar fyrstu niðurstöður úr spurningakönnun sem gerð var meðal fyrirtækja sem starfa á landsbyggðunum og tóku rúmlega 2.000 fyrirtæki þátt. Könnunin er unnin í samstarfi atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðunum, landshlutasamtaka þar og Byggðastofnunar.
Í könnuninni var m.a. spurt út í hversu miklar tekjur fyrirtækin hefðu af sölu af menningu og listum: „Að hve miklu leyti hefur fyrirtæki þitt tekjur af menningu og listum?“. Svar við spurningunni gefur vísbendingar um umfang skapandi greina þó svo kannski hefði þurft að bæta við fyrirtækjum í beinni nýsköpun sem ekki byggja á menningu og listum.
1.688 fyrirtæki svöruðu spurningunni og þegar svörin voru skoðuð án nokkurrar sundurliðunar eftir landshlutum eða atvinnugreinum kom í ljós að og 1329 þeirra sögðust ekki hafa neinar tekjur af menningu og listum eða 79% þátttakenda.
14 þeirra sögðust hafa 90% eða meira af sínum tekjum af menningu og listum eða um 0,8% þátttakenda. Þegar svörin voru tekin saman fyrir landshluta kom í ljós að 3,5% af allri veltu fyrirtækja á landsbyggðunum voru vegna menningar og lista.
Á þessu sést að hlutfall menningar og lista í tekjum fyrirtækja á landsbyggðunum er á bilinu 2,1 til 4,3% þegar horft var til einstakra landshluta. Athygli vakti að hæst var það í landshlutum sem eru mjög fjarlægir höfuðborgarsvæðinu á Vestfjörðum og Austfjörðum en Vesturland var þar á milli.
Þá staðfestist það, með stórri djúpgreiningu, hið þekkta jákvæða samhengi milli menningar og fjölmennis: Menning og listir eru hærra hlutfall af tekjum fyrirtækja í fjölmennari sveitarfélögum en fámennari. Hins vegar kom í ljós að fjarlægð frá Reykjavík hefur ekki marktæk áhrif á þetta hlutfall en oft hefur því verið haldið fram að nálægð við borgir geti bæði örvað menningu eða latt hana.
Færð hafa verið rök fyrir því að nálægð staða við stóra borg geti örvað menningarlífið vegna jákvæðra smitáhrifa (e. spillover effects) frá fjölbreyttu menningarlífi sem einkennir oft borgir. Það er einnig þekkt að nálægð staða við borgir eða stóra bæi geti líka haft neikvæð áhrif á menningarlíf þeirra vegna þess að hin fjölbreytta menning borganna laðar íbúa nálægra staða í menningarferðir þangað og dregur úr eftirspurninni heima fyrir. Niðurstaða könnunarinnar bendir hins vegar til þess að hlutfall menningar og lista í tekjum fyrirtækja tveggja jafn stórra bæja sé ekki marktækt ólíkt jafnvel þó annar þeirra sé mjög nærri Borginni en hinn mikið fjær (og að öllu öðru óbreyttu).
Þó hlutföll einstakra landshluta virðast lág er nærri tvöfaldur munur á því þar sem það er lægst 2,1% á Suðurnesjum og þar sem það er hæst á Vestfjörðum 4,3% (Tafla 7). Frekari greining kvað á um að aldur fyrirtækja hefði ekki mikil áhrif á hlutfallið en framleiðslufyrirtæki mælast lágt á þennan kvarða en þjónustugreinar hærri eins og búast mátti við.
Þá hefur ferðaþjónustan haft meiri tekjur af menningu og listum en landbúnaður og sjávarútvegur og ætti ekki að koma á óvart (sjá mynd). Víða sést að ferðaþjónusta togar þetta hlutfall verulega upp eins og á Austurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi vestra (sjá rautt þverstrik í samanburði við súlu). Það á hins vegar ekki við á Vestfjörðum þar sem það er annars frekar hátt í samanburði milli landshluta.
Á Vestfjörðum virðist því þessi góða útkoma vera að þakka mun fleiri atvinnugreinum en í hinum þremur landshlutunum sem nefndir voru. Áhugavert væri því að skoða það nánar, hvernig atvinnulífið á Vestfjörðum hefur náð að „beisla“ menningu og listir og kanna hvort aðrir landshlutar gætu lært af því.
Þegar landshlutarnir voru síðan brotnir upp í fleiri svæði, eða 22 alls, kom í ljós að fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum höfðu mestar tekjur af menningu og listum 6%, þá fyrirtæki á Austurlandi norðan Fagradals 5% og síðan 4,5% í Dölunum og 4% á Borgarfjarðarsvæðinu. Hins vegar voru þær lægstar hlutfallslega hjá fyrirtækjum í A-Hún 0,5% og 1% í Skaftafellssýslum og á sunnanverðum Vestfjörðum.
Hins vegar skal taka niðurstöður þessarar miklu sundurliðunar á landinu með fyrirvara vegna fárra svara víða. Þessar niðurstöður og fleiri úr spurningakönnuninni allri má finna í skýrslunni Fyrirtækjakönnun á Íslandi sem finna má finna innan tveggja vikna á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, skammstafað SSV (ssv.is).
Texti: Vífill Karlsson
Commentaires