Fyrirtækið Sólsker er sjávarútvegs fyrirtæki sem gerir út smábát á Hornafirði ásamt því að stunda matvælaframleiðslu. Sólsker leggur mikið uppúr nýsköpun í matvælaframleiðslu á staðbundnum fiskafurðum. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Ómari Franssyni, eiganda fyrirtækisins á dögunum og fékk að vita meira um framleiðsluna.
Ómar hefur búið fyrir austan síðar árið 1976 og gerir út bátinn Sævar SF samhliða matvinnslunni þar sem hann reykir ýmsar afurðir á borð við silung, makríl, þorskhnakka og þorskhrogn. Mikið af þessu veiðir hann sjálfur, en kaupir þó inn silunginn. Ómar fór af stað með framleiðsluna fljótlega eftir hrun, eða árið 2009 og segir að þetta hafi gengið mjög vel hingað til.
„Eftir hrunið þá var svo mikil vakning og mikil hvatning líka hjá mönnum að fara að gera eitthvað. Það var nýbúið að græja hér aðstöðu frá Matís og það gerði mönnum kleift að geta gengið inn af götunni með sínar hugmyndir, prófa þær og athuga hvort þær virki.
„Ég ákvað að smella mér í þetta og prófa og það hefur gengið ljómandi. Ég hef þetta í mér, hef áhuga og hef gaman að þessu og það er stór þáttur í þessu, menn þurfa að hafa gaman af því sem þeir gera, vera skapandi og frjóir í hugsun með það sem þeir eru að gera.“ segir Ómar.
Samkvæmt Ómari er hann oft að prófa einhverjar nýjungar að gamni og hefur prófað ýmislegt. Hann segir að margt af því væri spennandi að halda áfram með, en þar sem hann sé bara eini starfsmaður fyrirtækisins og sé á sjónum líka, þá hafi hann nú ekki allan tímann í heiminum fyrir þetta. Ómar segir að hann vilji gjarnan sjá breytingar varðandi fyrirkomulag strandveiðanna.
„Ég hefði viljað að það yrði tryggðir þessir 48 dagar sem þú hefur, svo þú sért ekki að lemjast um í brælum til að ná þessu. Það eru tólf dagar í mánuði sem þú mátt róa, ég hefði viljað sjá lengingu á tímabilinu og ég vona að svo verði, að menn hafi rýmri tíma til að nota dagana sína. Þá geta þeir notað dagana í betra veðri og gert þetta eins og menn, mér finnst það sanngjarnt. Það eru bara fjórir dagar í viku sem þú mátt fara á sjó og ef það koma bræludagar þarna inn í, þá ertu kominn í vesen með daga sem maður getur ekki nýtt.“ segir Ómar.
Að sögn Ómars selur hann mest megnis innanlands og hefur hann verið mest verið að selja þetta í ferðaþjónustuna í sýslunni. Auk þess selur hann til veitingastaða og dreifingaraðila í Reykjavík. „Það var ekki mikið mál að fara af stað með þetta á sínum tíma. Aðstaðan sem hér er uppfyllir öll þau skilyrði sem hún á að gera fyrir matvælaframleiðslu. Svo ef menn ætla að vera í þessu þá þurfa menn að passa upp á hreinlæti og að það sé alveg upp á tíu. Ef það er ekki í lagi, þá ertu bara úr leik strax, en ef að það er í lagi þá ætti þetta að ganga vel.
„Ég hef verið það heppinn að vera með það góðar vörur að þær hafa selt sig sjálfar, sem er mjög gott. Eftirspurnin er prýðileg en markaðssetningin er mikið langhlaup, það er alltaf verið að vinna í því. Það má segja að markaðssetningin sé mesti flöskuhálsinn í þessu.“ segir Ómar.
Ómar hefur unnið til margra verðlauna fyrir vörurnar sínar, fékk t.d. gullverðlaun í stórri keppni úti í Svíþjóð árið 2013 fyrir makrílinn og svo var hann tilnefndur árið eftir til Fjöreggsins fyrir framúrskarandi matvælaframleiðslu. Einnig hefur hann fengið gullverðlaun fyrir reyktan og grafinn lax og silung. Hann segir að það hafi komið skemmtilega á óvart að vinna til verðlaunana í Svíþjóð á sínum tíma. Ómar hafði ekki tíma sjálfur til að vera viðstaddur keppnina, en segir að starfsmaður Matís á Hornafirði hafi verið á leiðinni þangað og óskað eftir því að fá kassa af vörum frá Ómari með sér.
„Þetta er stór keppni, yfir 680 keppendur í hinum ýmsu matvælaflokkum.
Í flokki reyktra sjávarafurða þá vann ég gullverðlaun með makrílinn og Svíarnir voru svakalega fúlir. Einhver skrælingi frá Íslandi hirti af þeim gullið! Þeir voru búnir að hirða þessi verðlaun í 20 ár og þeir voru ekki mjög kátir með þetta var mér sagt!“ segir Ómar að lokum og hlær.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentarios