top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Krónísk óþekkt í mér“


Snorri Ásbjörnsson, list, Gulli Már, úr vör, vefrit
Listamaðurinn Snorri Ásmundsson. Ljósmynd Gulli Már

Listamaðurinn Snorri Ásmundsson hélt bæði tónleika og listasýningu um páskana á Ísafirði. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Snorra og forvitnaðist um hvað hann ætlaði sér að gera á Ísafirði og spjallaði um eitt og annað sem snýr að hans ferli sem listamanni.


Snorri segist ekki hafa komið til Ísafjarðar síðan hann var háseti á Tý þegar hann var 18 ára gamall. Hann segist hafa talað við Elísabetu Gunnarsdóttir hjá ArtsIceland og Gallerí Úthverfu á Ísafirði sem hafi tekið vel í að hann myndi dvelja í gestavinnustofunni þeirra og setja upp sýningu og tónleika.

„Ég er búinn að vera hér í tvær vikur og ég elska Ísafjörð, er alveg kolfallinn fyrir staðnum. Það er borgarbragur hér, mér líður stundum eins og ég sé í París!

„Ég var með messu í Hrísey í fyrra sem endaði ekki vel og maður býst við því að maður sé ekkert endilega velkominn hvar sem er, en það er ekki um það að ræða hér, viðmótið er svo gott og þægilegt og allir svo vinalegir.“ segir Snorri.

Snorri Ásmundsson, Hrísey, gjörningur, Björn Jónsson, úr vör, vefrit
Gjörningur Snorra í kirkjunni í Hrísey lagðist ekki vel í fólk. Ljósmynd Björn Jónsson.

Síðar sama dag og blaðamaður ræddi við Snorra hélt hann umrædda tónleika.

„Á þessum tónleikum spila ég á píanó og ég þykist vera besti píanóleikari Evrópu. Ég hafði reyndar hugsað mér að vera með tónleika og messu í þetta skiptið og talaði við sóknarnefndir en það sögðu allir þvert nei. Þau tóku ekki vel í þetta og svo kviknaði í Notre Dame í kjölfarið, það eru auðvitað tengsl milli alls í stóra samhenginu.“ segir Snorri.

Snorri minntist á messu í Hrísey á síðasta ári sem ekki hafi endað vel. Undirritaður hafði heyrt af því áður en lék forvitni á að vita hvað það var sem lagðist ekki vel í fólk. „Ég klæddist í hátíðarskrúða presta sem var þarna bakvið kapelluna og fékk mér að borða súkkulaði og íþróttadrykki í pontunni, klæddur í messuskrúðann. Það var aðallega það sem fór fyrir brjóst á fólki og ég gat svo sem gert mér grein fyrir því.

„Þegar ég er með gjörninga þá veit ég ekki hvað er að fara að gerast, ég ræð ekkert sjálfur ferðinni. Það er krónísk óþekkt í mér og ég veit ekki alveg hvernig hlutirnir geta farið. Ég átti að taka þátt í gestavinnustofum í Víetnam og Kína og þau hættu við á síðustu stundi þegar þau gerðu sér grein fyrir að ég gæti gert einhvern óskunda.“ segir Snorri.
Snorri Ásmundsson, Halldór Baldursson, skopteikning, gjörningur, Hrísey, úr vör, vefrit
Skopteikning Halldórs Baldurssonar í Fréttablaðinu af Snorra og Hríseyjargjörningnum. Teikning Halldór Baldursson

Að sögn Snorra er hann þess á milli mjög stilltur listamaður og einbeitir sér að því að mála og framfleytir sér með því, en ástríða hans er að vera með gjörninga. Hann segist hafa gert það síðan hann var barn, að ögra umhverfinu og samfélaginu.


Snorri segir að hann hafi verið með óljósar hugmyndir þegar hann kom til Ísafjarðar varðandi hvað það var sem hann vildi vinna að á meðan dvöl hans stæði þar. Hann hafi svo upplifað stemninguna í bænum, skoðað byggðasafnið og heyrt merkilegur sögur, m.a. um Karítas Skarphéðinsdóttir. „Þannig að mig langaði að gera óð til Ísafjarðar. Ég er að mála Ísfirðinga, bæði látna og líka fólk úr samtímanum. En tónleikarnir eru svo allt annað. Elísabet Gunnarsdóttir er hér fyrir ofan mig og maður heyrir þessa fögru tóna berast niður, en ég er að gera þetta á allt öðru stigi.

„Ég lærði ekkert varðandi píanó og hef ekkert með tónfræði að gera, þetta er meira það sem leysist úr læðingi og ég spila eingöngu með tilfinningum mínum. Þegar ég segist vera besti píanóleikari í Evrópu þá meina ég það og mér líður þannig, er fullur af sjálfstrausts þegar ég sest við píanóið og mér finnst ég vera hógvær þegar ég segist vera sá besti í Evrópu.“ segir Snorri.
Snorri Ásmundsson, málverk, list, úr vör, vefrit
Snorri fyrir framan málverk sín. Ljósmynd Snorri Ásmundsson.

Það er óhætt að segja að verk Snorra vekji umtal og athygli hvert sem hann fer og aðspurður segist hann leggja upp með að hrista upp í fólki. Stundum hefur verið talað um hann sem sjokk listamann, en hann segist ekki vita hvort það ætti að kalla sig það, en virðurkennir að hann hafi gaman að hreyfa við fólki. „Mottóið mitt er að það má gera allt svo lengi sem maður særir engan. En það er samt þannig stundum að ég særi fólk. En það er oft vegna þess að ég get ekki tekið ábyrgð á upplifun fólks.

„Sumir upplifa mig sem eitthvað frík en ég átti mig ekki á því. Mér finnst ég bara vera í vinnunni minni þegar ég er að gera einhvern óskunda. Ef ég færi útúr mér og horfði á mig sem þriðja persóna, þá myndi ég fatta að ég er að stuða fólk.“ segir Snorri.

Samkvæmt Snorra skilar það miklu til samfélagsins að bjóða upp á gestavinnustofur og listagallerí á stöðum eins og Ísafirði. Hann segir að slíkt starf sé lykill að ansi mörgu og að bæði Útverfa og áður Slunkaríki sé partur af því sem Ísafjörður er í dag. „Ég get ímyndað mér að starfið hér í Úthverfu og Artslceland sé vanþakklát starf. Þetta er eitthvað sem listafólk er löngu búið að átta sig á og við erum ekkert bitur yfir því.

Snorri Ásmundsson, Ásmundur Ásmundsson, gjörningur, til þín, úr vör, vefrit
Snorri leggur oft upp með að ögra umhverfinu og samfélaginu. Hér er verk hans sem nefnist „Til þín“. Ljósmynd Ásmundur Ásmundsson

„Listamaður plantar alltaf einhverju, dreifir fræjum og svo líður kannski einhver tími og sýningar fara stundum ekki að hafa áhrif fyrr en árum seinna. Einhverjum fræum er sáð og svo getur tekið tíma fyrir uppskeruna að koma upp. Við þurfum á gestavinnustofum út um allt að halda, það kemur skapandi fólk með því og þetta er eitthvað sem þarf að virkja allstaðar.“ segir Snorri.

Snorri segir að hann finni það mjög sterkt að fólk sé að leita úr borg í sveit. Hann segist vera svokölluð 101 rotta, en að 101 sé í raun og veru búið. „Nú eru bara túristasjoppur þarna og það er búið að skemma 101 að mínu mati. Listafólk og aðrir eru farnir að leita út fyrir borgina og það er mjög áberandi. Listamaðurinn þarf að lifa ódýrt, hefur ekki efni á að borga þessa rugl leigu sem er í gangi í Reykjavík. Það er nefnilega þannig að listafólk rétt nær yfirleitt að halda sér á floti og það er erfitt í borg eins og Reykjavík.“ segir Snorri.

Snorri Ásmundsson, Framsóknarmaðurinn, Spessi, list, úr vör, vefrit
Verkið Framsóknarmaðurinn eftir Snorra. Ljósmynd Spessi.

Samkvæmt Snorra er þetta góð þróun. Hann segist vera mjög andlegur, noti ekki áfengi eða eiturlyf og reyki ekki.

„Í dag er önnur hver kona með jógakennarapróf, það er mikil vakning sem er mjög gott. Að vera í náttúrunni og fara úr borginni er svo jákvætt og gott. Það að fólk sé að fara á vit þess andlega og náttúrulega og úr neyslumenningunni sem við erum alltof háð er besta mál.“ segir Snorri að lokum.


Kommentare


bottom of page