top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Sleipur þari...

...á blautum steini.

Øyvind Novak Jenssen, Sleipur þari blautur steinn, Gallerí Útherfa, Outvert art space, Ísafjörður, list, menning, listasýning, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Øyvind vill ögra byggingartækninni og búa til „náttúruhús.“ Hann mun gera tilraunir með efni og form og byggja hreiður í galleríinu.“ Ljósmynd aðsend frá Gallerí Úthverfu

Laugardaginn 5. maí síðastliðinn opnaði sýning á verkum Øyvind Novak Jenssen í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin bar heitið Sleipur þari á blautum steini og stóð til sunnudagsins 28. maí síðastliðinn.


Í fréttatilkynningu frá forsvarsfólki Gallerí Úthverfu segir að sýningin „Sleipur þari á blautum steini“ sé verkefni sem byggir á æðarrækt. Þar segir að sumarið 2021 hafi Øyvind dvalið á æðareyju fyrir utan Vega í Noregi. Eftir dvölina þar hefur hann verið heillaður af húsum fyrir æðarfugla.

Í Noregi er hefð fyrir því að byggja æðarfuglahús úr efnum sem eru auðfundin á þeim stöðum sem húsin eiga að rísa, og þau felld inn í landslagið til að líkja eftir náttúrulegum holum og hreiðrum. Eftir því sem æðarfuglaræktin verður meira og meira iðnvædd hafa húsin orðið sífellt tæknilegri. Øyvind vildi ögra byggingartækninni og búa til „náttúruhús.“ Hann gerði tilraunir með efni og form og byggði hreiður í galleríinu. Ætlun hans var að leiða áhorfendur inn í opinn heim undrunar og forvitni sem hann laðaði fram með fundnu efni úr nánasta umhverfi.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu kemur fram að Øyvind Novak Jenssen (f. 1988 NO) búi og starfi í Trysil, litlu sveitarfélagi á skógarsvæði í austurhluta Noregs. Hann er menntaður við Listaháskólann í Osló (MA 2021) og Listaháskólann í Þrándheimi (BA 2017). Hann er einnig lærður matreiðslumaður og vinnur með aðferðir og tækni úr matreiðslu. Hann notast við leikgleði í list sinni – og sér hana sem mikilvæga leið til að nálgast viðfangsefni sem snúa að sjálfbærni, sjálfræði vistkerfa, sambandi okkar við náttúruna og öðrum málefnum sem við fyrstu sýn virðast sveipuð ákveðnum drunga.


Comments


bottom of page