top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Skáldið er skapaði Öddu


Vestfirskir listamenn, Jenna Jensdóttir, Elfar Logi Hannesson, rithöfundur, skáldskapur, Vestfirðir, list, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Rithöfundurinn Jenna Jensdóttir. Aðsend ljósmynd.

Vestfirskir listamenn


Jenna Jensdóttir

F. 24. ágúst 1918 á Læk Dýrafirði. D. 6. mars 2016 í Reykjavík.

Öndvegisverk: Adda, 1946. Adda trúlofast, 1952. Engispretturnar hafa engan konung, 1975.


Ég er maðurinn

sem veit

hver er skáld

og hver er

ekki skáld.


Svo orti hin vestfirska listakona Jensína Jensdóttir í ljóðinu Gagnrýnandi. Sjálf var hún beggja megin borðsins var bæði skáld og gagnrýnandi. Ólst upp í dýrðinni í Dýrafirði var tvíburi en kom þó einum sólarhing seinna í heiminn en systir sín. Það hafði þó ekki skaðleg áhrif á hana því báðar urðu þær langlífar og eru líklega langlífustu tvíburar landsins til þessa. Jenna þótti einsog margur skapandi púkinn, einsog krakkar vestra eru oft kallaðir, öðru vísi en hinir púkarnir. Hún sannaði máltækið að það læra börn sem fyrir þeim er haft, því amma hennar var mikið í bókum og saman áttu þær sínar gæða sögustundir. Amman hvatti hana til að pára sögur.


Sem púkinn og gjörði því þegar hún var sex ára samdi hún sína fyrstu sögu og fjallar hún um áðnamaðk. Tíu árum seinna höfðu þegar birst eftir hana sögur á prenti. Ári síðar, 1936, er frétt um þessa ungu skáldkonu í blaðinu Vesturlandi: Ungur rithöfundur.

„Jensína Jensdóttir í Minni-Garði í Dýrafirði, sem er aðeins 17 ára gömul, hefir þegar ritað sögur nokkrar. Var ein af sögum ungfr. Jensinu lesin fyrir skömmu í útvarpið, og þótti mjög góð. Það fer nú i vöxt, að konur gefi sig að ritstörfum. Hefir flestum þeirra farist það vel, og mættu gjarnan fleiri reyna.“

Ástæða þess að saga eftir þetta ungskáld rataði allaleið í þjóðarútvarpið var sú að hún vann sérstök söguverðlaun sem miðillinn stóð fyrir. Suður var hún sjálf komin eftir stutta viðkomu í Stykkishólmi. Innritast í kennaranám en lýkur því þó ekki fyrr en allmörgum árum síðar. Ástæðan var ástin hún hafði kynnst Hreiðari Stefánssyni sem einnig var í kennaranámi og nú fluttu þau alla leið norður á Akureyri hvar þau stofnuðu eigin menntastofnun, Hreiðarsskóla.


Um var að ræða smábarnaskóla fyrir 4 til 6 ára. Fleira áttu þau sameiginlegt því þegar hann var 13 ára birtist saga eftir Hreiðar á prenti. Það var ekki nóg með að þau væru að kenna saman heldur fóru þau einnig að skrifa saman og árið 1944 kemur út þeirra fyrsta sameiginlega skáldsaga, Skógarævintýri. Síðan bættust 24 bækur við eftir þau hjónin.

Reyndar sagði skáldkonan frá því seinna að hún hafi nú skrifað sumar sögurnar ein og hann hafi einnig ritað sumar sögurnar einn þó þau hafi skrifað sig bæði fyrir þeim. Var það m.a. vegna þess að það kæmi svo ljómandi vel út fyrir þeirra eigin skóla.

Langvinsælustu bækur þeirra hjóna voru án efa Öddu bækurnar. Fyrsta bókin um þessa munaðarlausu stúlku sem heitir Adda kom út árið 1946 og hitti beint í mark. Enda var hér ekki verið að yrkja neina vitleysu heldur kannski frekar ritað með boðskap og raunveruleik. Stelpan Adda á það nefnilega til að gera mistök og af þeim þarf hún svo að læra. Hvernig sögurnar eldast í dag er eigi gott að segja en tímalína bókanna er sá tími sem þær voru ritaðar á. Enda þykja Öddu bækurnar lýsa mjög vel ákveðnu tímaskeiði Íslandssögunnar. Alls urðu Öddu bækurnar 8 talsins. Bækurnar hafa margsinnis verið endurprentaðar og selst í yfir 60 þúsund eintökum.

Vestfirskir listamenn, Jenna Jensdóttir, Elfar Logi Hannesson, rithöfundur, skáldskapur, Vestfirðir, list, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Langvinsælustu bækur þeirra hjóna voru án efa Öddu bækurnar. Fyrsta bókin um þessa munaðarlausu stúlku sem heitir Adda kom út árið 1946 og hitti beint í mark.“

Eftir að þau hjónin höfðu starfrækt skólann fyrir norðan í tvo áratugi fluttu þau aftur í borgina og bjuggu þar síðan. Héldu samt áfram sömu starfa bæði við kennslu og ritstörf. Svo samstíg voru hjónin að þau fengu meira að segja verðlaun sameiginlega fyrir bækur sínar, Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur, 1973, og ári síðar viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins. Starfaði Jenna bæði við Langholtsskóla og Námsflokka Reykjavíkur. Hún ritaði mikið í Morgunblaðið bæði greinar um hugans efni og má þar nefna um bókmenntir í grunnskólum.


Árið 1975 hóf hún síðan störf sem gagnrýnandi fyrir Morgunblaðið og rýndi þá vitanlega um bókmenntir. Hún tók virkan þátt í félagsmálum og var formaður skálda um tíma.

Árið 2014 var hún gerð að heiðursfélaga þar á bæ. Það voru þó ekki bara skáldsögur sem hún orti heldur einnig smásögur fyrir fullorðna og líka fyrir börn. Sögurnar birtust í ýmsum blöðum og tvær urðu smásagnabækurnar. Svo var hún líka í ljóðunum og sendi frá sér eina ljóðabók.

Skrifin áttu hug hennar allan enda sagði hún í fallegu viðtali í sjónvarpsþætti á Stöð 2 árið 2015 að hún hafi ávallt haft það fyrir reglu að fara snemma á fætur til að getað skrifað. Það gerði hún allt fram til hins síðasta. Hún var þó ekkert of upptekin af þægingdatólum til handa blekbændum heldur notaðist ávallt við pennan sinn. Það var hennar skáldavopn eða einsog hún lýsti í áðurnefndum sjónvarpsþætti: „Ég hef aldrei lært á ritvél. Ég hef aldrei haft Facebook. Ég hef aldrei haft farsíma eða neitt sem gildir. Ég hef bara sjálfa mig og pennann minn.“



bottom of page