top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Listasenan á Íslandi mjög heillandi“


Skaftfell, listamiðstöð, Seyðisfjörður, Austurland, Gavin Morrison, list, menning, landsbyggð, úr vör, vefrit
Gavin Morrison, framkvæmdastjóri listamiðstöðvarinnar Skaftfells. Ljósmynd Skaftfell

Listamiðstöðin Skaftfell á Seyðisfirði var stofnuð fyrir tuttugu árum síðan af listafólki sem fannst vanta rými fyrir sýningar, menningarsamtal og samkomustað og enn þann dag í dag eru þetta lykilþættir í starfsemi miðstöðvarinnar.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Gavin Morrison, framkvæmdastjóra Skaftfells, á dögunum og forvitnaðist um starfsemina og hvað væri að frétta fyrir austan.

Gavin heimsótti Seyðisfjörð fyrst árið 2010 eftir að hafa verið hvattur til þess af íslenskum listamanni. Árið 2015 var honum svo boðið, í heiðursskyni, að vera listrænn stjórnandi til tveggja ára og á síðasta ári var hann svo ráðinn sem framkvæmdastjóri Skaftfells.

Árlega eru fimm sýningar haldnar í gallerýinu og er sýnt list bæði frá heimafólki og öðrum íslenskum listamönnum, ásamt því að sýnd eru verk erlendra listamanna. Auk fyrrnefndra lykilþátta í starfsemi Skaftfells þá er einnig fræðsludagskrá fyrir skólabörn á Austurlandi þar sem þau fá að kynnast nútímalist og einnig er þar boðið upp á gestavinnustofur. Ekki má gleyma í þessari upptalningu að í Skaftfelli er veitingastaður og bókasafn og því óhætt að segja að það sé nóg um að vera þar á bæ. Skaftfell sér svo líka um safn í minningu Ásgeirs Jóns Emilssonar, listamanns frá svæðinu, en það safn er í húsi sem Ásgeir bjó í á árum áður.


Skaftfell, listamiðstöð, Seyðisfjörður, Austurland, list, menning, landsbyggði, úr vör, vefrit
Það er margt um að vera í listamiðstöðinni Skaftfell á Seyðisfirði. Ljósmynd Skaftfell

Gavin er rithöfundur og hefur starfað víða um heim sem listrænn stjórnandi og hefur verið í samstarfi við ýmsar listastofnanir, m.a. í Bandaríkjunum, Japan og Skotlandi. Hann flutti til Íslands á síðasta ári þegar hann tók við sem framkvæmdastjóri Skaftfells en hafði áður að mestu búið í suðurhluta Frakklands.


Að sögn Gavin er hlutverk Skaftfells afar mikilvægt í menningarheimi og daglegu lífi fólks á svæðinu, en þar er starfsemi allt árið um kring.

„Við bjóðum upp á rými þar sem fólk fær að kynnast og fræðast um nútímalist og hvernig hún hefur þróast. Lykilþáttur í starfsemi okkar er veitingastaðurinn sem býður fólki upp á tækifæri til að hittast og slaka á með list allt í kring um sig. “ segir Gavin.
Skaftfell, listamiðstöð, Seyðisfjörður, Austurland, list, menning, landsbyggði, úr vör, vefrit
Árlega eru að jafnaði fimm sýningar settar upp í Skaftfelli. Ljósmynd Skaftfell

Samkvæmt Gavin koma fjölmargir listamenn til Seyðisfjarðar ár hvert í gegnum gestavinnustofurnar. Skaftfell hefur yfir að ráð þremur mismunandi húsnæðum fyrir listafólkið og er fólk hvatt til þess að koma í einn til tvo mánuði í senn. Samvera og nálægð við skapandi fólk hjálpar til við að búa til þá menningarlegu fjölbreytni sem er til staðar hér á Seyðisfirði að sögn Gavin og segir hann það vera dásamlegt að taka á móti alþjóðlegu listafólki, fólki sem skarar fram úr í sínum geira og fá að upplifa spennu þeirra yfir að koma á svona einstakan stað


„Listasenan á Íslandi er mjög heillandi, sérstaklega hversu fjölbreytt og ólíkt listafólk starfar hér. Að auki starfar fólkið mjög vel saman og myndar samfélag og ákveðinn stuðningskjarna. Það sem hjálpar til við að gera þetta mögulegt eru þau fjölmörgu sýningarrými og listamiðstöðvar hringinn í kringum landið.“ segir Gavin.

Skaftfell, listamiðstöð, Seyðisfjörður, Austurland, landsbyggð, list, menning, úr vör, vefrit
Skaftfell gegnir ákveðu fræðsluhlutverki í skólum á svæðinu sem heimsækja listamiðstöðina reglulega. Ljósmynd Skaftfell

Gavin segir það vera mjög gefandi að vinna í bæ eins og Seyðisfirði, þar sem ólíkir einstaklingar, listafólk og hugsuðir búa saman í ótrúlegu umhverfi.

„Ég held að Seyðisfjörður sé sá bær sem er hvað ríkastur af menningu af þeim bæjum sem ég þekki. Hér er mikil dýnamík er kemur að þessum málum og þetta er staður sem hefur lengi laðað að listafólk, bæði til að búa hér og vinna. Það að ferjan sé hér og fari til Danmerkur færir staðnum aðra tengingu við Evrópu en er annarsstaðar á landinu.

„Þessi blanda gerir það að verkum að það er ýmislegt á seyði hér eins og Lunga skólinn, Tækniminjasafn Austurlands, Ströndin Stúdíó og hátíðin List í ljósi og tekur Skaftfell þátt í mörgum hátíðum hér á svæðinu reglulega, núna síðast í Barnamenningarhátíðinni, BRAS.“ segir Gavin.



bottom of page