Vestfirskir listamenn
Kristján H. Magnússon
F. 1903 á Ísafirði. D. 22. apríl í Reykjavík 1937.
Öndvegisverk: Blaðadrengur, 1927, Eldgos, Vetur á Þingvöllum, 1932.
Sá erlendi gaggar: „List Kristjáns er ákveðin, skír og einföld og spennir yfir vítt svið.“
Sá innlendi gaggar: „Kristján Magnússon veit ekki hvað litir eru í listrænum skilningi.“
Svona, en sem betur fer, er álit fólks margbreytilegt og líklega hvurgi meir en einmitt í listinni. En kæri lesandi taktu nú eftir því að hér er sá jákvæði erlendur meðan hinn neikvæði er innlendur og ekki bara það heldur einnig kollegi listamannsins. Ritaði reyndar undir dulnefni en á þeim tíma vissu flestir hver rýnirinn Orri var. Það var myndlistarmaðurinn Jón Þorleifsson. Þegar innt var í hann útaf hinni hörðu og vægast sagt óvægu gaggaríni hans á verk hins unga listamanns Kristjáns bætti hann bara í með því að segja að: „Þarna væri í uppsiglingu hreindýrkaður "publikum" málari“. Seint mun það breytast að einhver verði spámaður í eigin heimalandi.
Kristján Helgi Magnússon var fæddur og uppalinn á sjómanns heimili á Ísafirði. Fór síðan sjálfur á sjóinn og sótti hann þar til myndlistin sótti hann og flutti hann alla leið vestur um haf. Missti foreldra sína á ungaaldri, bróðir hans flutti þá vestur til Ameríku og þegar Kristján er 17 ára fær hann boð frá fólkinu sínu, nú vestanhafs, sem býðst til að kosta hann til náms í útlandinu. Hafði hann þá þegar hlotið tilsögn hjá hinum sérstaka vestfirska listamanni Guðmundi frá Mosdal.
Svo í stað þess að fara í sjómannsskóla fer hann í sjóvlistaskóla, hinn ágæta Massachusetts-listaskóla í Boston. Á þessum tíma var ekki algengt að upprennandi íslenskir listamenn leituðu sér menntunnar í Ameríkunni og þar er kannski einkum komin ástæða þess hve óvæga gaggarýni hann átti eftir á fá í eigin landi.
Eftir fimm ára listnám er komið að útskrift hins unga Ísfirðings árið 1926 og strax þá tekur hinn erlendi listheimur honum opnum örmum. Því ein prófmynda hans var valin á sérstaka þjóðmyndasýningu Bandaríkjanna sem haldin var í New York. Ekki nóg með það heldur fór þessi sama sýning í reisu vítt og breitt um landið. Þetta fyrsta listamannsár seldi hann strax vel og fékk starf aðstoðarmanns hjá ráðunaut Bandaríkjanna í fögrum listum hvorki meira né minna. Ári síðar, 1927, í Boston fór fram hans fyrsta einkasýning. Fékk hina bestu umsögn og spáð glæstri framtíð.
Fátt togar listamanninn meira en heimalandið og þá ekki síður að vera þar viðurkenndur. Eftir tæpan áratug í úttlandinu er hann loks kominn aftur heim. Árið 1930 gekk hann að eiga Klöru Helgadóttur og svo bættist sonur í húsið. Búa þau í hjarta Reykjavíkur efst við Skólavörðustíg hvar listamaðurinn kom sér einnig upp vinnustofu. Svo skemmtilega vildi til að stór gluggi var á húsinu og varð það að sýningarglugga listamannsins.
Varð glugginn fljótt vinsælt glápefni svo vinsælt að styttan Leifur varð einsog í lagi Spilverksins að styttu sem engin nennir að horfa á. Eigi er hægt að segja að listamaðurinn hafi verið að hanga í vinnunni því afköst hans eru geysimikil enda ferðaðist hann víða um landið og fangaði það sem hann sá í myndverkum sínum. Má þar nefna myndir frá æskustöðvunum fyrir vestan svo fór hann líka norður og málaði síldarbæinn Siglufjörð og enn norðar hvar hið magnaða Mývatn er.
Strax 1929 heldur hann sýningu í heimabænum og svo aðra í höfuðborginni. Næstu árin heldur hann sýningar áfram á báðum þessum stöðum. Einsog áður hefur komið fram fannst rýnurum landsins lítt til um þessi verk hins unga listamanns en annað var uppá tengingum hjá þeim sem öllu ráða á endanum. Almenningi, þeim er listinni unna, þeirra er listina kaupa. Það var heldur engin bilbugur á listamanninnum sem árið 1930 verður fyrsti íslenski myndlistarmaðurinn til að sýna í Bretlandi. Lætur ekki þar við sitja heldur sýnir víða um heim næstu árin sem urðu þó sorglega fá einsog árin sem listamaðurinn lifði.
Árið 1932 var haldin stór sýning í Svíþjóð þar sem brugðið var upp mynd af því helsta í íslenskri myndlist. En þar var ekkert verk eftir Kristján. Í stað þess að fara í eitthvert þunglyndi þá hélt listamaðurinn einkasýningu í Svíþjóð sem fór fram mjög skammt frá hinni stóru sérvöldu sýningu. Göggurum Svíþjóðar fannst það kyndugt að eigi hafi verið verk eftir Kristján á hinni sýningunni.
Einsog að ofan gat þá fór Kristján reglulega í myndreisur um landið hvar hann fangaði áhorfið í einstökum listaverkum. Það var einmitt eftir eina hans reisu um uppsveitir Borgarfjarðar hvar hann ferðaðist um á hesti. En við heimkomu kom í ljós að eitthvað var ekki einsog það átti að vera er varðaði heilsu listamannsins. 22. apríl 1937 var hann allur og banameinið sagt vera garnaflækja. Var hann aðeins 34 ára að aldri og hafði gjört öll þessi listaverk sem enn lifa meðal almennings sem er einmitt sá rómur sem lengst og best ber sögu hvers listamanns.
Texti: Elfar Logi Hannesson
Aðalheimild: Fórnarlamb öfundar og fordóma, Morgunblaðið 10. 9. 1994.
コメント