top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hugmynd og draumsýn breyttist í eitt stærsta safn landsins

Updated: Jun 4, 2019


Síldarminjasafn Íslands, Siglufjörður, Anita Elefsen, úr vör, vefrit
Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði. Ljósmynd Síldarminjasafn Íslands

Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði er eitt stærsta safn landsins og heimsækja tugir þúsunda gesta það ár hvert. Blaðamaður ÚR VÖR náði tali af safnstjóra safnsins, henni Anitu Elefsen á dögunum og forvitnaðist um hvenær safnið var sett á fót og hvað fari fram þar.

Anita segir að aðdragandinn hafi verið langur að stofnun safnsins. Hún segir að rekja megi upphafið til ársins 1989, en þá var stofnað félag áhugamanna um minjasafn.

Að sögn Anitu var það hópur áhugafólks úr bænum og sjálfboðaliðum sem lögðu grunn að safninu og segir hún að það hafi verið þessi sami hópur sem stóð fyrir áframhaldandi vinnu varðandi uppbyggingu safnsins. Anita segir að á ákveðnum tímapunkti hafi safnið verið orðið of umfangsmikið fyrir sjálfboðaliðastarf og því umbreytt í sjálfseignastofnun.
Síldarminjasafn Íslands, Siglufjörður, safn, úr vör, vefrit
Safnið hefur yfir að ráða tíu húsum allt í allt og hefur safnið stækkað og þróast talsvert frá stofnun. Ljósmynd Síldarminjasafn Íslands

Safnið opnaði svo formlega árið 1994 og þá bara í einu safnhúsi, sem var gömul söltunarstöð. Haldnir eru fjölmargir viðburðir í og tengdir safninu árlega. Meðal annars fer hin árlega Þjóðlagahátíð fram bæði í Bátahúsinu og Gránu, auk þess sem aðrir tónlistarviðburðir fara fram í safninu. Kvikmyndasýningar hafa farið fram í samstarfi við aðra, t.d. fór hluti Rússnesku kvikmyndavikunnar sl. haust fram í húsakynnum safnsins, en þá var um samstarf við Rússneska sendiráðið að ræða. Fyrir ferðafólk er boðið upp á síldarsaltanir, en þá er söltuð síld eins og á árum áður á planinu við Róaldsbrakka, undir harmonikkuleik. Gestir fá þannig tækifæri til að sjá hvernig vinnan fór fram, og verkþekkingin við síldarsöltun og niðurlagningu í tunnur varðveitist samtímis.


„Við höldum bátasmíðanámskeið og bjóðum bæði iðnnemum og áhugamönnum að sækja námskeið um bæði nýsmíði og viðgerðir á tréskipum og bátum. Og þá eru öll gömlu verkfærin nýtt þarna í slippnum og eins höfum við boðið einstaklingum aðstöðu til að sjá um viðgerðir.

„Svo erum við núna í uppbyggingu á svokölluðu Salthúsi. Þannig að þetta hefur aukist að umfangi, hefur farið úr því að vera hugmynd og draumsýn áhugamanna og sjálfboðaliða í að vera eitt stærsta safn landsins í dag.“ segir Anita.
Síldarminjasafn Íslands, Siglufjörður, safn, úr vör, vefrit
Fyrir ferðafólk er boðið upp á síldarsaltanir, undir harmonikkuleik. Ljósmynd Síldarminjasafn Íslands

Anita er sjálf uppalin á Siglufirði og er líkt og áður segir safnsstjóri í dag. Hún hafði verið starfsmaður safnsins lengi, var sumarstarfsmaður allt frá fermingu og í tíu ár samfleytt og hefur svo verið í heilsársstarfi sem safnstjóri núna í þrjú ár og þar áður starfaði hún sem rekstrarstjóri í sex ár. Hún segir að sumarið sé undirlagt í gestamóttöku, en safnið fær stærsta hluta árlegra gesta yfir sumarmánuðina og flestir dagar fara í móttöku gesta og hópa og allskyns stúss í kringum það að sögn Anitu. Vetrarmánuðirnir eru rólegri í gestamóttöku að hennar sögn en þá er aftur á móti settur meiri kraftur í rannsóknir, vinnu við sýningar og skráningar á safnkostinum. „Þetta er mjög tvíþætt starf, annarsvegar í ferðaþjónustu yfir sumarið og svo getur maður sinnt hinu eiginlega safnastarfi yfir veturinn.

„Mest gefandi er hvað þetta er fjölbreytt. Það eru sjaldnast tveir dagar eins og alltaf nýjar áskoranir. Það eru ný og spennandi verkefni og maður fær tækifæri til að sinna krefjandi verkefnum og prufa eitthvað nýtt. Við erum t.d. með stóran ljósmyndakost, um 200.000 ljósmyndir sem þarf að skrá og koma til miðlunar. Svo höfum við verið dugleg í erlendu samstarfi og höfum unnið sýningar með öðrum söfnum.

„Í fyrra unnum við með safni í Svíþjóð og í ár með öðru sem staðsett er í Noregi. Þannig að maður fær líka tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og afla sér þekkingar víða.“ segir Anita.

Síldarminjasafn Íslands, Siglufjörður, safn, úr vör, vefrit
Kostir safnsins eru margir og fer mikil vinna í að skrá þá niður. Ljósmynd Síldarminjasafn Íslands

Á síðasta ári heimsóttu tæplega 28.000 gestir safnið og þar af voru 70% erlendir gestir. Anita segir að það hafi verið mikil aukning í komu gesta síðastliðin tíu ár. Hún segir að áður en Héðinsfjarðargöngin hafi opnað þá hafi árlegur gestafjöldi verið á bilinu átta til tólfþúsund manns, þannig að ásóknin hefur breyst mikið á undanförnum árum. „Við höfum slegið gestamet ár eftir ár að undanförnu. Svo er tímabilið að lengjast, við erum að fá fleiri gesti á veturna, þannig að þetta hefur breyst.

„Minn helsti draumur er að sjá safnið vaxa og dafna á þann hátt að við getum fjölgað starfsfólki því ekki skortir verkefnin. Það eru bara þrír starfsmenn eins og er, en svo bætast við sumarstarfsmenn. En við gætum sinnt faglega starfinu af enn meiri krafti og orðið enn afkastameiri við rannsóknir og útgáfu til dæmis.“ segir Anita.
Síldarminjasafn Íslands, Siglufjörður, safn, úr vör, vefrit
Um 28.000 manns sækja safnið heim árlega og eru sett gestamet ár hvert. Ljósmynd Síldarminjasafn Íslands

Safnið er sem fyrr segir sjálfseignarstofnun og stærsti stuðningsaðilinn er Mennta- og menningarmálaráðuneytið og hefur safnið ákveðnum skyldum að gegna gagnvart því. Svo er til staðar rekstrarsamningur við sveitarfélagið að sögn Anitu sem kveður á um ákveðna upphæð árlega. „En við erum að mestu leyti háð tekjum af rekstrinum, það er okkar stærsta tekjulind. Svo er gaman að segja frá því að við höfum við hlotið viðurkenningar og verðlaun fyrir starfið.

Safnið var fyrsta íslenska safnið til að hljóta Íslensku safnaverðlaunin árið 2000. Fjórum árum seinna hlaut það Evrópuverðlaun safna sem besta nýja iðnaðarsafn í Evrópu. Það hefur verið safninu til framdráttar og hjálpað okkur á erlendum grundvelli, varðandi samstarf við önnur söfn en jafnframt gagnvart markaðssetningu á safninu sem áfangastað ferðamanna.“ segir Anita, full tilhlökkunar um komandi sumar norðan heiða.

Síldarminjasafn Íslands, Siglufjörður, safn, úr vör, vefrit
Sungið og spilað fyrir ferðafólk á Siglufirði. Ljósmynd Síldarminjasafn Íslands


Comments


bottom of page