top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Samtímis / Synchronous


Bjarki Bragason, list, menning, listasýning, tré, Kalifornía, Höfn í Hornafirði, Svavarsson, listasafn ASÍ, Austurland, landsbyggðin, Kópavogur, úr vör, vefrit
Listamaðurinn Bjarki Bragason. Ljósmynd Listasafn ASÍ

Í dag, laugardaginn 15. maí kl. 17:00 opnar sýning Bjarka Bragasonar sem kallast SAMTÍMIS – SYNCHRONOUS í Svavarssafni á Höfn í Hornafirði. Sýning mun standa yfir til 30. júní næstkomandi og verður opin virka daga kl. 9:00-12:00 og 13:00–15:00, en frá 1. júní er sýningin einnig opin um helgar kl. 13:00 – 17:00.

Í fréttatilkynningu frá Listasafni ASÍ segir að Bjarki Bragason sé þriðji listamaðurinn sem veljist til þátttöku í nýlegri sýningaröð safnsins þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu. Listasafn ASÍ býr við ágætan húsakost en er starfrækt um þessar mundir án þess að vera með eigin sýningarsal. Á meðan þetta tímabundna ástand varir hefur safnið átt gjöfult og gott samstarf við stofnanir og samtök víðsvegar um landið og skipulagt með þeim sýningar á jafnt eldri sem nýrri verkum.

Í fyrrnefndri tilkynningu kemur fram að sýning Bjarka Bragasonar fjalli um skörun á jarðsögulegum og mennskum tíma. Rannsóknarferlið hefur hverfst um speglun á tveimur trjám frá ólíkum tímum og stöðum. Í verkum Bjarka á sýningunni birtast annarsvegar trjáleifar sem fundust við rætur Breiðamerkurjökuls og hafa verið grafnar í jarðvegi þar í um þrjú þúsund ár og hinsvegar leifar af fornu tré í Sagehen skóginum í Sierra Nevada fjöllum Kaliforníu.

Bjarki hefur í rannsókn sinni átt samtal við einstaklinga í ólíkum fögum á borð við jarðfræði, líffræði og fornleifafræði, tekið þátt í leiðangri á vegum Náttúrustofu Suðausturlands og dvalið í gestavinnustofu við Sagehen Creek Field Station, hluta af Kaliforníuháskóla í Berkeley í rannsóknarskóginum í Sagehen.

Bjarki Bragason er fæddur í Reykjavík 1983. Hann lærði myndlist við Red Cross Nordic United World College í Noregi, Listaháskóla Íslands, Universität der Künste í Berlín og lauk framhaldsnámi við CalArts í Los Angeles. Árið 2008 hlaut Bjarki styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur sem Listasafn Íslands veitir og síðar Lovelace Scholarship frá CalArts til framhaldsnáms auk þess sem hann fékk fyrstu verðlaun Listasjóðs Dungals. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar alþjóðlega. Verk hans eru m.a. í safneign Listasafns ASÍ, Nýlistasafnsins, Listasafns Íslands, Gerðarsafns, stofnana og einkasafna á Íslandi og erlendis.

Bjarki Bragason, list, menning, listasýning, tré, Kalifornía, Höfn í Hornafirði, Svavarsson, listasafn ASÍ, Austurland, landsbyggðin, Kópavogur, úr vör, vefrit
Leifar af fornu tré í Sagehen skóginum í Sierra Nevada fjöllum Kaliforníu. Ljósmynd Bjarki Bragason

Á meðal einkasýninga Bjarka má nefna Past Understandings í Listasögusafni Vínarborgar, Desire Ruin í Náttúrufræðisafni Vínarborgar, The Sea við Schildt Stofnunina í Tammisaari, Finnlandi og Hluti af hluta af hluta í Listasafni ASÍ árið 2012. Bjarki hefur tekið þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Gerðarsafni, Listasafni Reykjavíkur, Malmö Konsthall, Hverfisgalleríi, Human Resources í Los Angeles, Etagi Projects í St. Pétursborg og St. Paul Street Gallery í Auckland University of Technology og víðar.

Staðirnir sem urðu fyrir valinu fyrir sýningar Bjarka Bragasonar eru Höfn í Hornafirði og Kópavogur. Viðfangsefni sýninganna tengjast báðum þessum stöðum nánum böndum, annars vegar rannsóknum hans á Breiðamerkurjökli og hins vegar garði ömmu hans og afa við Kópavogsbraut í Kópavogi.

Fyrri sýningin er haldin í samstarfi við Svavarssafn á Höfn í Hornafirði og vonir standa til að sýningin í Kópavogi geti orðið seinna á árinu. Einnig er unnið að því að gefa út bók á næstu misserum sem tengist efni sýninganna.

Samhliða sýningunum eru haldin myndlistarnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er m.a. með elstu verkin í safneigninni og gerðar stuttmyndir fyrir heimasíðu safnsins. Við hvetjum áhugasama um að kynna sér endilega þessa áhugaverðu sýningu og námskeiðin einnig.


Texti: Aron Ingi Guðmundsson




bottom of page