Safnsafnið á Svalbarðsströnd var stofnað árið 1995 af þeim Níels Hafstein og konu hans Magnhildi Sigurðardóttur. Safnið er opið daglega frá vori og fram á haust og nýlega voru opnaðar níu nýjar sýninga í bland við grunnsýningar sem sýndar eru tvö ár í senn. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til Níelsar á dögunum og fékk að vita ýmislegt um sögu safnsins og hvað sé framundan hjá þeim hjónum.
Níels segir að það hafi tekið dágóðan tíma að finna hentugt húsnæði fyrir safnið. Svo fór að þau skiptu á stórri íbúð sem þau áttu í Reykjavík og hófu starfsemi í húsi á Svalbarðsströnd vorið 1998. Síðar var byggt við húsið og annað hús flutt á staðinn og opnað var í nýjum húsakynnum árið 2007. Að sögn Níelsar kom hann á sínum tíma fram með hugmynd um að stofna nýtt listasafn í Reykjavík sem svo var kallað Nýlistasafnið. Lagði hann þar inn í samþykktir félagsins ákvæði um að þau þyrftu að sýna alþýðulist.
„Á árum áður var enginn áhugi á verkum ungra listamanna en mér fannst við ekki geta sniðgengið listafólk sem tengist aldrei samtökum heldur er að vinna hvert í sínu horni. Við sýndum þó nokkuð mikið af þessari list á sínum tíma, en svo vantaði pláss og þetta þurfti að víkja og þá stofnuðum við þetta safn sem nú starfar hér fyrir norðan.“ segir Níels.
Opið er í fjóra mánuði af árinu og segir Níels ansi erfitt að hafa meira opið þar sem innra starf sé gífurlega tímafrekt og umfangsmikið. Enginn launaður starfsmaður starfar í safninu að hans sögn og miðað er við að tengja starfsemina við mesta ferðamannastrauminn. Hann segir að það borgi sig ekki að vera með opið fyrir utan þann tíma. Mest er sýnt úr safneigninni sem sé gríðarlega mikil að sögn Níelsar. Að auki fá þau til sín unga listamenn sem eru tiltölulega nýskriðnir útúr listaháskólanum eins og hann orðar það, í bland við reynslubolta. Einnig er safnið með samstarf við jaðarhópa líkt og Sólheima í Grímsnesi, Fjölmennt í Reykjavík, Skógarhlíð á Akureyri og einstaklinga sem standa utan við þessar stofnanir.
„Við náum að hrista saman skemmtilegan kokteil og til að bæta hann enn betur erum líka í samstarfi við skóla. Við höfum verið í samstarfi við grunnskólann hér á Svalbarðseyri frá öðru ári safnsins. Svo bættist leikskólinn við og við höfum einnig sýnt verk eftir nemendur í Grenivíkurskóla, Myndlistarskólanum á Akureyri, Skólanum í Hrafnagili og á Raufarhöfn. Þannig að þetta er ansi fjölbreyttur hópur, frá því að vera tveggja ára gamlir listamenn og upp í að vera 100 ára.“ segir Níels.
Að sögn Níels eru samfélagsleg áhrif safnsins talsverð á svæðinu. Hann segir að börnin sem sýni hjá þeim myndi tengingu við heimilin. „Auk þess er ákveðin ánægja að sveitarfélag sem telur ekki nema 450 íbúa geti státað af alþýðulistasafni sem sé líklega það stærsta og glæsilegasta sinnar tegundar á jörðinni. Við erum með 13.000 listaverk í almennri deild og erum með 120.000 verk eftir einn ákveðinn listamann. Svo erum við með þrjár stofur utan um listamenn og gefum út bækur einu sinni til tvisvar á ári. Hér eru haldin málþing og við tökum þátt í sýningum víða erlendis. Svo höfum við fengið Eyrarrósina og verið tilnefnd til virtra erlendra verðlauna.“ segir Níels.
Samkvæmt Níels hefur starfsemi safnsins gjörbreyst síðan þau hjón fóru af stað með það. Í byrjun sýndu þau í safninu 1.200 litla skúlptúra sem fara vel í hendi að sögn Níels en þau höfðu lagt áherslu á að safna þeim því þau sáu fram á að svona litlir hlutir yrðu gefnir börnum að endingu og þá þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. „Þetta var sýnt á tveimur hæðum þegar við komum hingað norður. Svo hefur þetta vaxið fiskur um hrygg, með því að byggja við og flytja hús á staðinn þá er þetta orðið alls 900 fm. Þá hefur gefist tóm og húsnæði til að sinna ýmsum störfum eins og rannsóknum og úttektum og við erum að nálgast starf sem er algengt í söfnum um allan heim.
„Skemmtilegast er að uppgötva nýtt listafólk og koma því á framfæri. Ég reikna með að safnið eflist bara og stækki. Ég hef áhuga á að reisa glerhús yfir lækinn og svo þarf að byggja hér fyrir sunnan húsið líka. Þannig að það er nóg að gera og nóg framundan og eru sýningarnar hjá okkur skipulagðar tvö til þrjú ár fram í tímann.“ segir Níels að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Commentaires