Blaðamaður ÚR VÖR átti gott spjall á dögunum við Kára Bjarnason, forstöðumann Safnahúss Vestmannaeyja. Kári fræddi undirritaðan um Safnahúsið en undir það heyra bókasafn, ljósmyndasafn, listaverkasafn, skjalasafn og eins er þar salur sem kallaður er Einarstofa þar sem sýningar og ýmiss konar viðburðir og dagskrár eru reglulega í boði.
Kári segir að mikið og gott samstarf hafi verið við Sagnheima undanfarin ár varðandi viðburði og uppákomur, en um er að ræða byggðasafn sem einnig er staðsett í Safnahúsinu. Þetta hefur átt sér stað allt frá árinu 2012, eða frá því ári er bókasafnið fagnaði 150 ára afmæli og byggðasafnið 80 ára afmæli. Að sögn Kára hafa þetta verið nokkuð regulegir viðburðir, eða um það bil einu sinni til tvisvar í mánuði.
Dagskrárnar byggja allar á að segja hluta af sögu Vestmannaeyja og oft eru það Vestmannaeyingar sem segja sína sögu. Fyrirlesarar eru einkum fólk sem er búsett í Reykjavík eða annars staðar á fastalandinu en sem ólst upp í Eyjum og á sínar föstu og djúpu rætur þar. Rifjaðir eru upp æskudagar í eyjunum og sagt frá minningum og hvað það merkir að hafa alist upp þar.
„Það kom mér mikið á óvart hversu margþættur og margvíslegur þessi menningararfur hér í Vestmannaeyjum er. Ég tók vel eftir því þegar ég flutti hingað fyrir 12 árum síðan og mér finnst óendanlega mikilvægt að miðla því,“ segir Kári.
Að sögn Kára er nauðsynlegt að efna til samtals um menningararfinn og að fá sem flesta til að taka þátt í að velja hvað eigi að vekja athygli á og ekki síður með hvaða hætti.
„Menning er lífsnauðsynleg til þess að fólk lifi af í samfélaginu og er lífsandinn og lífsloftið í samfélaginu. Það er mikilvægt að menning sé til staðar til að fólk geti notið þess að búa og vaxa í sínu samfélagi og skilji hvaðan það komi, átti sig á þeim áskorunum sem fyrri kynslóðir stóðu frammi fyrir og þar fram eftir götunum,“ segir Kári.
Samkvæmt Kára er því reynt að vera með viðburðina í lifandi samtali við samfélagið. Hann segir mikilvægt að hlusta eftir hvað fólk hafi áhuga eða geti haft áhuga á. „Þetta eru bara dauðir hlutir hér á söfnunum þangað til að við glæðum þá lífi með samtali við þá sem eiga hlutina, rekja sögu sína til þeirra eða vekja á annan hátt til skilnings á þeim. Svo viljum við eiga í samstarfi við skólana, þar eru vissulega einstaklingarnir sem við reynum að hlúa að svo þetta verði hluti af þeirra hugsun og þeirra veruleika. Hlutir eins og hvernig forfeður þeirra höfðu það, hvernig veröldin breyttist, saga skólanna hér, hversdagsleiki og hápunktar sögunnar, til að nefna eitthvað,“ bætir Kári við.
Kára finnst mest gefandi við starfið þegar hann er með eitthvað efni til kynningar og áttar sig á því að fólki er ekki lengur sama um viðkomandi efni. Hann fari að taka eftir því að viðfangsefnið, þessi hluti sögunnar sem verið er að kynna eða fjalla um, fari að skipta einhvern máli hér og nú, hvað sem það er. Heimild úr fortíðinni öðlast nýtt líf þegar hún er snortin af nútímanum að sögn Kára og hann segir að það sé ákaflega gefandi þegar honum hefur tekist að koma hluta af fortíðinni inn í veruleika fólks í dag.
Talið víkur að samgöngum sem er mikið hitamál í Vestmannaeyjum þessa dagana líkt og oft áður. Kári segir að samgöngur séu klárlega stærsti dragbítur á allt þar, líka á menningarlífið. Að hans sögn hefur þurft að fella niður dagskrár vegna þess að það var ekki flogið eða siglt vegna veðurs. „Það er jú þannig að ef þú hefur öðlast einhver gæði þá er erfitt að fara tilbaka. Ef við hefðum aldrei fengið Landeyjahöfn þá væri kannski ekkert mál að sigla til Þorlákshafnar. En þegar þú ert orðinn vanur að vera bara örfáar mínútur að fara yfir, orðinn nánast tengdur við landið eins og það séu komin göng, þá er erfitt að fara að sigla í þrjá tím. Það gera það fáir ferðamenn og heimamenn aðeins í neyð, þetta hefur áhrif á líf fólks, er hamlandi og fólk verður þyngra vegna þessa,“ segir Kári.
Kári segir að það að bjóða upp á menningarviðburði verði aldrei ofmetið.
„Það er ótrúlega mikilvægt að fólk geti notið menningar, listar, séð fallega myndlist, hlustað á stórbrotna tónlist og heyrt áhugaverðan fyrirlestur. Það gefur lífinu gildi og gleði og menning er það sem mennskar manninn. Við leitumst til að tala til samfélagsins með dagskrám okkar með þeim hætti að það verði ánægjulegra og eftirsóknarverðara að búa hér.“ segir Kári.
Að mati Kára verður klárlega stöðugt meiri þróun á komandi árum í þá átt að fólk flytji frá borg í sveit. Hann segir að fólk sé smám saman farið að meta meira tímann sem það hafi með fjölskyldunni og með sjálfum sér. Það geri kröfu um að komast út í náttúruna hratt og vel eða til og frá vinnu, í staðinn fyrir að eyða klukkutímum í bíl. „Það eru vissulega ákveðin gæði að búa í stórum einingum, en þetta er að snúast tilbaka. Landsbyggðin býður upp á margfalt meiri tíma fyrir sjálfan þig, samanborið við borgina. Bara það að komast til vinnu á fimm mínútum á móti klukkutíma í borginni, það er heilmikið í staðinn fyrir borgríkin þar sem þú sérð hvorki himinn né haf.
Það er þess vegna kristaltært í mínum huga að landsbyggðin mun sigra en ríkisvaldið verður að fylgja eftir með því að gefa fólki tækifæri til að vinna vinnuna sína án staðsetningar, segir Kári að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
留言