RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, var sett í gær, fimmtudaginn 24. september með frumsýningu á myndinni „Þriðji póllinn“ eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur. Hátíðin sem haldin er í 17. sinn þetta árið, stendur svo yfir til sunnudagsins 4. október næstkomandi en vegna kórónuveirufaraldursins er hátíðin með aðeins öðruvísi sniði en áður.
Í ár gefst kvikmyndaunnendum um land allt kostur á að njóta hágæða kvikmynda heima og segir í fréttatilkynningu hátíðarinnar að ánægjulegt sé að geta boðið þessa nýjung og fært þannig RIFF til enn fleiri en áður.
Auk þess fór hátíðin um landsbyggðina á sérútbúnum bíóbíl sem flakkaði um landið og var afar vel tekið í það framtak og hefur nú þegar verið óskað eftir að bíllinn fari á landsbyggðarflakk aftur á næsta ári. Börnum um land allt verður boðin sérstök stuttmyndadagskrá, seinnipart verða sýndar verðlaunaðar, evpróskar stuttmyndir og á kvöldin verður bíóbíllinn notaður til að sýna stórmyndina Dancer in the Dark.
Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að á dagskrá hátíðarinnar í ár séu 110 myndir frá 47 löndum og að það má sannarlega segja að eitthvað sé við allra hæfi, gamanmyndir, hryllingsmyndir, heimildamyndir og allt þar á milli.
Margar af myndunum koma beint af þekktum kvikmyndahátíðum úti í heimi s.s. frá Cannes og San Sebastian og einnig verða frumsýndar á hátíðinni fjöldi íslenskra stuttmynda og heimildamynda.
Til að horfa á myndirnar á netinu er farið inn á heimsíðu RIFF www.riff.is en þar er hægt að sjá allt um myndirnar undir hnappnum RIFF Heima í stofu og skrá sig inn til að leigja mynd. Ferlið gæti ekki verið einfaldara en þegar er hægt að leigja myndir og horfa á frá tilteknum tíma nú í dag eða næstu daga, allt eftir frumsýningardegi myndar,og hægt að horfa á meðan á hátíðinni stendur.
Það er frábært að sjá hvað hátíðin er orðin aðgengileg fyrir áhugasama á landsbyggðinni og við hvetjum fólk til að kynna sér dagskrá hátíðarinnar og kíkja á einhverjar af þeim fjölmörgu spennandi kvikmyndum sem í boði eru þetta árið.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments