top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Rétt mátulega taugaóstyrk


Vestfirskir listamenn, Elfar Logi Hannesson, pistill, Vestfirðir, Guðbjörg Þorbjarnardóttir, leiklist, leikari, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Leikkonan Guðbjörg Þorbjarnardóttir. Ljósmynd aðsend.

Vestfirskir listamenn


Guðbjörg Þorbjarnardóttir

F. 13. júlí 1913 í Bolungarvík. D. 19. nóvember 2003 í Reykjavík.

Öndvegisverk: Eliza Gant í Engill, horfðu heim, 1960. Kerlingin í Gullna-hliðinu, 1965. Nell í Endatafl, 1976.


„Ég kom fyrst á fjalirnar norður á Siglufirði þar sem ég bjó í mörg ár og lék í ýmsum leikritum sem þar voru sett upp. En skömmu eftir að ég flutti til Reykjavíkur, árið 1945, hringdi Haraldur Björnsson til mín og bauð mér smáhlutverk hjá Leikfélagi Reykjavikur og eftir það byrjaði hjólið að snúast.“


Þannig rifjaði hin vestfirska leikkona Guðbjörg Þorbjarnardóttir upp hvernig leikferill hennar hófst í viðtali í Vísi sem var tekið í tilefni af 40 ára leikafmæli hennar. Smáhlutverkið var rulla Elínar Hákonardóttur í Skálholti Guðmundar Kambans. Á Siglufirði hafði hún meðal annars leikið Dísu í Galdra-Lofti eftir annan risa íslenskra leikbókmennta Jóhann Sigurjónsson.

Það var einmitt á Siglufirði sem Lárus Pálsson stórleikari, er stóð um tíma fyrir eigin leiklistarskóla, sá þessa ungu leikkonu og hvatti hana til að koma suður til sín í skóla. Sem hún og gjörði í eina þrjá vetur. Að námi loknu hófst svo langur og sérlega glæsilegur leikferill Guðbjargar fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur og síðan í Þjóðleikhúsinu þar sem hún var ein aðlleikona leikhússins í áratugi.

Guðbjörg eða Gugga einsog hún var kölluð af samstarfsfólki sínu fæddist í Bolungarvík. Listina átti hún ekki langt að sækja því móðir hennar Rósa Aradóttir, var mikil hannyrðakona auk þess sem hún ritaði sögur. Þorbjörn Eggertsson faðir Guggu starfaði sem bæði sjó- og verslunarmaður. Þau fluttu síðar á Ísafjörð hvar Gugga lauk unglingaskóla. Hún flutti síðan norður á Siglufjörð þar sem hún stúderaði bókhald og vann við það um tíma. Þess á milli lék hún með leikfélaginu eða alveg þar til hún ákvað að gjörast atvinnu leikkona.


Það er alveg óhætt að segja að leikhúsið hafi verið hennar aðal vinnustaður því lítið fékkst hún við kvikmyndaleik. Lék reyndar í nokkrum sjónvarpsmyndum og sjónvarpsleikritum má þar nefna Einleikur á ritvél, 1969, gamanþættina Undir sama þaki, 1976, og síðast en ekki síst sjónvarpsútgáfuna af leikritinu Stundarfriður, 1982. Það var einmitt í síðastefnda verkinu sem margir minnast leikkonunnar enda fór hún þar á kostum í hlutverki Guðrúnar eldri. Ekki má svo gleyma þeim fjölda útvarpsleikrita er Guðbjörg lék í á ferli sínum.

Vestfirskir listamenn, Elfar Logi Hannesson, pistill, Vestfirðir, Guðbjörg Þorbjarnardóttir, leiklist, leikari, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Guðbjörg (t.v) „„Leikur Guðbargar Þorbjarnardóttur er svo trúr stíl og eðli leiksins að það er enginn henni færari.“ Aðsend ljósmynd

Guðbjörg var gífurlega fjölhæf leikkona og hafði það kannski sitt að segja að hún tók hverri rullu opnum örmum eða einsog hún sagði: „Ég hef aldrei sóst eftir ákveðinni gerð af hlutverkum. Á hinn bóginn hef ég verið svo heppin að hafa fengið mjög ólík verkefni, bæði dramatísk og gamanhlutverk og mér þykir jafngaman að leika hvort tveggja.

Taugóstyrk? Nei, ég hef afskaplega lítið fundið til þess nema rétt svona mátulega áður en sýningar hefjast. Ég hef tamið mér að vera það ekki. Ef maður undirbýr sig vel og er nógu þjálfaður í því sem maður er að gera, er minni hætta á taugaóstyrk. En þetta fer auðvitað líka eftir því hvernig fólk er. Leikarar eru afskaplega öguð stétt. Það er undir þeim sjálfum komið hvernig gengur og leikarar aga sig feiknalega mikið í sínu starfi."

Alltof langt og þurrt mál væri að fara að telja upp öll þau hlutverk er Guðbjörg túlkaði enda spannaði ferillinn nærri hálfa öld. Til að nefna umfangið má geta þess að hún lék um 100 hlutverk bara í Þjóðleikhúsinu. Það er ekki ekki sjálfgefið í þeim erfiða bransa sem leikhúsið er. Víst hafði hún marga góða kosti til að bera einn var sá að hún hafði það sem kallað er í leikhúsinu góða „tímasetningu“. Þannig fór hún létt með að túlka alvarleg sem ekki síður gamanrullur þar sem einmitt þessi mikilvægi leikhæflileiki, tímasetning, er nauðsynlegur.


Gaggarar blaðanna höfðu af henni mikið dálæti einsog lesa má í fjöldamörgum leikdómum.

Einn sagði m.a.: „...eftir þennan sigur má hiklaust telja Guðbjörgu í fremstu röð íslenskra leikkvenna.“ Einhver annar gaggaði: „Leikur Guðbargar Þorbjarnardóttur er svo trúr stíl og eðli leiksins að það er enginn henni færari.“ Enn annar: „Að mínum dómi ber Guðbjörg Þorbjarnardóttir af leikendum öllum, enda mest fagnað að lokum.“

Gaggarar voru með eigin leikverðlaun sem þeir nefndu Silfurlampann og afhentu lampann nærri árlega frá 1954 til 1973 fyrir þann er þótti leika best það leikárið. Árið 1961 fékk Guðbjörg Silfurlampann fyrir túkun sína á Elizu Gant í leikritinu Engill horfðu heim. Til gamans má geta þess að árið áður fékk engin þessi umdeildu verðlaun svo harður getur gaggaraheimurinn verið.


Guðbjörg var einsog margur listamaðurinn gjöful í að gefa af sér. Hún var ein af stofnendum Slysasjóðs Félags íslenskra leikara og Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands er hafði það hlutverk að styrkja þá er misst höfðu nákominn í sjóslysi. Árlega stóð sjóðurinn fyrir skemmtunum þar sem listamennirnir gáfu ávallt vinnu sína til handa góðum málstað.

Guðbjörg Þorbjarnardóttir var fastráðin við Þjóðleikhúsið frá 1959 til 1989 og ári síðar fékk hún verðskuldað heiðurslaun listamanna.



Heimildir víða að m.a.:

Sveinn Einarsson. Íslensk leiklist III. Hið íslenska bókmenntafélag, 2016.

Tíminn 1. mars 1979

Vikan 9. nóvember 1950

Vísir 20. febrúar 1979


Comentários


bottom of page