top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„1000 ára saga Íslands sem margir þekkja ekki“

Updated: Jul 14, 2019


Ósvör, Bolungarvík, Vestfirðir, sjóminjasafn, menning, úr vör, vefrit
Magnea Gná Jóhannsdóttir, umsjónarmaður Sjóminjasafnsins í Ósvör. Ljósmynd Magnea Gná Jóhanssdóttir

Sjóminjasafnið í Ósvör stendur austan við Bolungarvík, niður við sjó. Safnið samanstendur af verbúð, salthúsi, fiskreit og þurrkhjalli auk þess sem sexæringurinn Ölver er þar til sýnis. Báturinn var smíðaður árið 1941 af Bolvíkingnum Jóhanni Bárðarsyni og er hann smíðaður eftir Bolvísku lagi sem byggir á góðri sjóhæfni. Bátar smíðaðir með því lagi voru hraðskreiðir og góðir siglingarbátar, léttur og stöðugir í lendingu og gefur hann góða mynd af þeim skipum sem notuð voru til fiskveiða fyrr á öldum.

Í safninu eru einnig til sýnis veiðarfæri og ýmis tæki og tól sem notuð voru við veiðar og fiskverkun áður fyrr. Starfsfólk ÚR VÖR gerði sér ferð í Ósvör á dögunum og þar tók á móti þeim safnvörðurinn Jóhann Hannibalsson íklæddur skinnklæðum líkt og íslenskir sjómenn klæddust áður fyrr.

Um sex til átta kindaskinn þurfti til að sauma ein sjóklæði, en gallinn er brók heil undir yl og nær upp undir hendur ásamt treyju með löngum ermum. Buxurnar voru festar upp með snæri og það notað líkt og belti. Sumarið 2010 var ráðinn fatahönnuðarneminn Sandra Borg Bjarnadóttir til þess að gera rannsóknir á skinnklæðum og í kjölfarið voru útbúin ný og endurbætt skinnklæði sem notast er við í dag á safninu.

Ósvör, Bolungarvík, Vestfirðir, landsbyggðin, sjóminjasafn, Jóhann Hannibalsson, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Jóhann Hannibalsson, safnvörður í Ósvör við bátinn Ölver. Ljósmynd Julie Gasiglia

Í kjölfar heimsóknarinnar í Ósvör hafði blaðamaður ÚR VÖR samband við Magneu Gná Jóhannsdóttir sem er umsjónarmaður safnsins í sumar og spurði hana um sögu safnsins og hvernig ásóknin væri.

Að sögn Magneu er safnið í eigu Bolungarvíkurkaupstað og er rekið af Náttúrustofu Vestfjarða. Safnastarfsemi hefur verið þar frá árinu 1990, en húsin sem tilheyra því voru endurgerð á árunum 1980 til 1990. Um það leyti sem safnið hóf starfsemi var kvikmyndin Ísland 1000 ár eftir Erling Sveinsson tekin upp í Ósvör.

Magnea segir að aðsóknin í safnið sé ágæt, en um 10.000 manns sóttu safnið heim í fyrrasumar. Opið er yfir sumartímann en hægt er að fá leiðsögn að vetri til ef haft er samband með fyrirvara. „Hingað koma mest megnis erlendir ferðamenn og koma margir gestir frá skemmtiferðarskipunum. Íslendingar koma alveg líka, en þeir eru seinna á ferðinni, koma í júní og fyrrihluta ágústmánaðar þegar skólafrí eru. Heimamenn koma líka mikið hingað, það eru margir sem hafa komið hingað á leikjanámskeið sem börn og fólk kemur svo aftur og aftur.

Ósvör, Bolungarvík, Vestfirðir, sjóminjasafn, landsbyggðin, menning, saga, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Steinbítar hanga í þurrkhjallinum í Ósvör. Ljósmynd Julie Gasiglia

„Þetta gengur þannig fyrir sig að gestir fá leiðsögn frá starfsmanni sem klæðist sjóklæðunum okkar. Hann sýnir þeim safnið, fer yfir landnámssögu Bolungarvíkur og svo er líst því sem fyrir augu ber, en það er margt að sjá hér og mikil saga.“ segir Magnea.

Magnea segir að fólk hafi búið í Ósvör á veturna fram að árinu 1905 og fólk hafi þá verið þar á vertíð frá október og fram í maí mánuð. Frá árinu 1905 til ársins 1925 hafi svo búið fjölskylda þar allt árið, en eftir það bjó enginn þar. Húsin voru svo endurbyggð líkt og áður sagði í kringum 1980. Samkvæmt Magneu hefur safnið ákveðin samfélagsleg áhrif og ljóst er að hún er stolt af starfsemi.

Ósvör, Bolungarvík, Vestfirðir, sjóminjasafn, Julie Gasiglia, landsbyggðin, safn, menning, úr vör, vefrit
Mikil saga er í Ósvör og hægt er að fá leiðsögn um svæðið. Ljósmynd Julie Gasiglia

„Þetta skapar atvinnu, það eru nokkrir starfsmenn sem skiptast á að vera í afgreiðslunni og svo erum við nokkur sem erum í leiðsögn m.a. Jóhann Hannibalsson, sem starfar allt árið og tekur á móti einstaklingum og hópum sem vilja koma yfir vetrartímann, hann hefur verið hér í tíu ár og er stór hluti af safninu.

„Svo gefur þetta gefur fólki ástæðu fyrir að koma vestur, það eru fleiri sem leggja leið sína til Bolungarvíkur sem annars myndu ekki koma og þetta kynnir svæðið vel. Svo heldur þetta uppi sögunni, þetta er mikilvæg saga, 1000 ára saga Íslands sem margir þekkja ekki“ segir Magnea að lokum.

Ósvör, Bolungarvík, Vestfirðir, safn, menning, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Jóhann sýnir hér veiðarfæri sem notuð voru fyrir hákarlsveiðar áður fyrr. Ljósmynd Julie Gasiglia


Comments


bottom of page