top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Yngri kynslóðin er óttalaus

Updated: May 6, 2019


Mugison, Daníel Starrason, tónlist, úr vör, vefrit
Tónlistarmaðurinn Mugison í góðri sveiflu. Ljósmynd Daníel Starrason

Það er nóg að gera hjá tónlistarmanninum Mugison þessa dagana líkt og oft áður. Blaðamaður ÚR VÖR tók hann tali á dögunum og fékk að heyra um áform nýrrar plötur auk skoðunar hans á íslensku tónlistarsenunni í dag.


Mugison segir undirrituðum að hann sé búinn að vera að spila mikið með hljómsveit sinni síðustu vikur auk þess sem búið sé að taka helling upp af nýju efni. Hann segist óska sér að hafa getað gefið út plötuna í gær, en erfitt sé að segja um hvenær hún komi út því sumt efni sé komið lengra en annað.

„Ég hef verið að gera þetta öðruvísi núna en áður, hef verið að semja lög og texta á kassagítar en oftast hef ég samið lög í tölvunni. Þannig að mér finnst að lögin séu meira venjuleg en oft áður, en ég á örugglega eftir að djöflast í þeim svo þau verði ekki alveg svona venjuleg!“ segir Mugison.

Það liggur við að það sé samasem merki á milli Mugison og Vestfjarða og blaðamanni leikur forvitni á að vita hver nákvæmlega tengslin hans séu við þann landshluta. Að sögn hans hefur hann búið fyrir vestan síðan árið 2005 en kom upphaflega þangað árið 2002 í kjölfar námsdvalar í Lundúnum.

Mugison, London, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
Mugison stundaði nám í London áður en hann flutti vestur. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

„Ég átti bara ritgerðina eftir þar í námi mínu en ég held að pabbi hafi efast um að ég myndi klára hana. Ég var orðinn heimilislaus og hafði eytt öllum peningnum mínum í hljóðkort og var að gista hjá bekkjarfélögum mínum til skiptis. Mig grunar að pabbi hafi haldið að ég væri í einhverju rugli og hann sagði mér að koma heim og klára þessa ritgerð að vestan hjá honum.

„Ég ætlaði að vera bara í tvo mánuði fyrir vestan en síðan kynntist ég Rúnu sem er frá Súðavík. Við bjuggum saman á Ísafirði veturinn 2002 til 2003, fluttum svo í bæinn og fluttum svo til Súðavíkur árið 2005 þar sem við höfum verið þar síðan.“ segir Mugison.


Að sögn Mugison er greinileg þróun að fólk sé að flytja í meira mæli frá borg í sveit að hans mati, en segir þó að sú bylgja komi talsvert síðar en hann hafi átt von á. „Þegar við Rúna vorum að flytja með okkur yngsta vestur á sínum tíma árið 2005 þá hélt ég að það yrði sprengja, hélt að allir myndu bara gera þetta, flytja út á land og búa þar, sérstaklega þeir sem gætu unnið á internetinu.

Mugison, Daníel Starrason, tónlist, úr vör, vefrit
Mugison er fjölhæfur listamaður og grípur í hin og þessi hljóðfæri á tónleikum sínum. Ljósmynd Daníel Starrason

„Mér fannst það svo upplagt að fara út á land, lifa einfaldara og fjölskylduvænna lífi og finnst mér þetta sérstaklega hentugt fyrir skapandi fólk. Því maður fær alveg til viðbótar einn og hálfan klukkutíma í sólarhringinn til að gera ekki neitt eða gera eitthvað annað, eða verja tíma með fjölskyldunni og fyrir mér eru það rosaleg verðmæti.“ segir Mugison.

Hann segist hafa haldið að þetta yrði algjör bóla á sínum tíma, en svo hafi þetta verið að gerast í meira mæli á síðustu árum og segist hann finna það í kringum sig. Helst sé um að ræða fólk sem geti unnið vinnu sína í gegnum netið og látið þetta ganga upp, en að hans mati eigi þetta eftir að verða algengara. „Þegar fólk sér kosti þess, engin spurning. Það eru auðvitað kostir og gallar við allt í lífinu og ekkert er fullkomið, en þetta er allavega stór kostur fyrir mig.“ bætir hann við.

Mugison, Daníel Starrason, tónlist, úr vör, vefrit
Mugison hefur spilað mikið með hljómsveit sinni að undanförnu og í bígerð er útgáfa nýrrar plötu. Ljósmynd Daníel Starrason

Mugison er afar hrifinn af ungu tónlistarfólki í dag og er spenntur fyrir þeim hlutum sem þau gera. Hann segir að það sé ótrúlega mikið líf í gangi og að það haldi ekkert aftur af ungu kynslóðinni. Að hans mati er augljóst að þau séu óttalaus og að tæknilega séu þau ljósárum á undan kynslóðinni sem kom á undan. „Núna henda menn og konur í myndbönd og geta gert allan pakkann sjálf. Þetta er svo allt annað en kallar eins og ég, sem hugsa þetta í gömlu samhengi sem er lúið og búið. Það vefst ekkert fyrir þeim og það er svo mikill dugnaður og allt annað vinnusiðferi í gangi.

Á meðan mín kynslóð sat á bar og vældi útaf hinu og þessu þá situr þessi kynslóð ekkert á bar, heldur hendir út lagi á tveggja vikna fresti og myndbandi með og spilar svo í öllum skólum og framhaldsskólum. Það er hrikalega duglegt fólk í dag og ég er mjög ánægður með það.“ segir Mugison.

Mugison er einn af upphafsmönnum tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður á Ísafirði og kemur að hátíðinni á hverju ári. Aðspurður segir hann erfitt að segja til um hver samfélagsleg áhrif hátíðarinnar sé því hún standi svo nærri honum og vill meina að betra sé að aðrir segi til um það. „En það er fallegt að sjá alla fjölskylduna saman komna að hlusta á allskonar tónlist. Við reynum að hafa þetta eins fjölbreytt og ferskt og við getum.

Mugison, Aldrei fór ég suður, Aron Ingi Guðmundsson, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Mugison er einn af upphafsmönnum tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

„En vegna fjölbreytileikans þá eru þeir sem vilja sjá eitthvað gamalt og gott líka að sjá hljómsveitir eins og Bagdad Brothers og annað nýtt og svo er það unglingurinn sem vill bara sjá eitthvað nýtt, hann neyðist til að sjá mig eða Jónas Sig eða eitthvað annað.

„Það finnst mér skemmtilegur hluti af þessari hátíð og svo þessi fallega fjölskyldustemning sem myndast.“ segir Mugison.


Samkvæmt Mugison er mest gefandi að sjá afsprengi vinnu sinnar lifna við. Hann segir þó að það taki sífellt meiri tíma að sjá eitthvað fæðast eftir því sem hann verður eldri.

Það er sama í hverju þú ert í, hvort þú ert að pakka fiski eða labba upp á fjall þá er alltaf gaman að sjá eitthvað klárast. Þegar maður klárar eitthvað sem manni finnst erfitt en skemmtilegt og sérstaklega ef maður gengur í gegnum tímabil sem maður heldur að sé ómögulegt og ógerlegt og þá er það virkilega yndislegt og ávanabindandi tilfinning þegar það svo flýgur frá manni.
Mugison, Daníel Starrason, tónlist, úr vör, vefrit
Mugison segir það afar gefandi að klára eitthvað sem reyndist nær ómögulegt eða ógerlegt. Ljósmynd Daníel Starrason

„Það er virkilega gefandi og gerir mann stoltan en því miður gerist það hægar með aldrinum. Ég er lengur að klára hluti eftir því sem ég verð eldri, þannig að maður er ennþá þakklátari þegar maður nær loksins að klára eitthvað!“ segir Mugison að lokum.



bottom of page