top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Heimafólk duglegt að sækja safnið


Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti, Hnjótur, Inga Hlín Valdimarsdóttir, minjasafn, safn, Patreksfjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Inga Hlín Valdimarsdóttir, forstöðumaður Minjasafnsins að Hnjóti. Ljósmynd Inga Hlín Valdimarsdóttir

Sumardagskráin á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti er að hefjast en safnið er opið frá byrjun maí mánaðar til loka september. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í forstöðumanni safnsins, henni Ingu Hlín Valdimarsdóttur á dögunum og spurði hana spjörunum úr um sögu safnsins og hvað væri á döfinni.


Inga sagði að fyrsti formlegi viðburður sumardagskránnar verði ganga á sumarsólstöðum þar sem gengið verður á fjallið Tálkna. Sú ganga tengist sýningunni Tálknaféð eða “Feral Attraction“ eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson sem opnaði safninu í fyrra sumar og er sýnd aftur þetta árið. 

Ástæðan fyrir því að sýningin verður annað árið í röð er sú að bók um efni sýningarinnar, eftir þau Bryndísi og Mark er væntanleg núna í lok mánaðarins, bók sem búið er að vinna hörðum höndum að og er mikil tilhlökkun að fá í hendurnar að sögn Ingu.

Á sýningunni skoða þau sérstaklega ákveðinn hóp kinda sem tóku sér bólfestu á fjallinu í þrjá áratugi en var að lokum smalað saman og slátrað í lok ársins 2009 og byrjun ársins 2010. Spurningar um tilverurétt dýra og hvað liggur á bak við lög og reglur sem settar eru fyrir mismunandi dýrategundir er leiðandi í rannsókn þeirra Bryndísar og Mark.

Minjasafnið að Hnjóti, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Mark Wilson, minjasafn, forystufé, sauðfé, Patreksfjörður, Hnjótur, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson við sýningu sína um Tálknaféð. Ljósmynd Minjasafnið að Hnjóti.

Safnadagur verður svo haldinn að Hnjóti þann 7. júlí og segir Inga Hlín að hefð hafi myndast fyrir því að halda daginn á þeim tíma. „Við höfum haldið þennan safnadag alltaf á sama tíma. Það var alltaf íslenski safnadagurinn aðra helgina í júlí áður fyrr en svo var hann lagður niður og sameinaður alþjóðlega safnadeginum sem er í maí. En þetta var orðinn fastur liður í sumrinu, það er alltaf haldin messa sem hefur yfirleitt verið í Sauðlauksdal en verður núna í Breiðavíkurkirkju.

„Svo er alltaf messukaffi á safninu og þegar ég koma á svæðið þá vildi ég ekki fara að breyta þessari tímasetningu eitthvað. Það er alltaf vel mætt á safnadaginn og höfum við yfirleitt boðið uppá einhverja fyrirlestra, sýnt kvikmyndir eða annnað fróðlegt“ segir Inga.
Minjasafnið að Hnjóti, Patreksfjörður, Hnjótur, Safnadagurinn, safn, minjasafn, landsbyggðin, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Safnadagurinn í Minjasafninu að Hnjóti er alltaf vel sóttur.

Grunnsýningin er frá árinu 1983 að sögn Ingu og hefur lítið breyst síðan þá varðandi hana. Sýningin er mikið til um nýtingu hlunninda á svæðinu, eins og bjargnytjar og sjósókn og landbúnað, ýmsar iðngreinar sem stundaðar voru á svæðinu og daglegt líf fólks frá 18. og fram á fyrri hluta 20. aldar. Egill Ólafsson gaf sýslunni safngripina og hann með aðstoð fjölskyldu og vina settu upp sýninguna. Sýningin var opnuð í júní mánuði árið 1983 af Vigdísi Finnbogadóttur og sá Egill fljótlega að það þyrfti að stækka við húsnæðið og var það gert. 

Inga hóf störf á safninu í maí mánuði árið 2015. Hún segist hafa séð starfið auglýst og ákváðu hún og Óskar maður hennar að sækja bæði um starfið.


„Við vorum spennt fyrir því að flytja út á land og prófa eitthvað nýtt. Við vorum farin að segja að við byggjum á Norðurlöndum því við vorum í Svíþjóð í nokkur ár, svo var Óskar að vinna í Noregi og Danmerku og við nenntum ekki að útskýra það nánar hvar við byggjum. 

Minjasafnið að Hnjóti, Hnjótur, Patreksfjörður, minjasafn, safn, landsbyggðin, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Grunnsýningin er mikið til um nýtingu hlunninda á svæðinu, eins og bjargnytjar og sjósókn og landbúnað. Ljósmynd Minjasafnið að Hnjóti

„En við erum bæði ættuð af Vestfjörðum. Óskar er alinn upp á Reykhólum og ættaður frá Skálanesi og hann hefur meiri tengingu hingað en ég, en við höfum náð að mynda tengsl hér nokkuð hratt.“ segir Inga.

Samkvæmt Ingu er starfið fjölbreytt og er mikið að gera eftir að safnið var opnað, núna þegar undirbúningur á sumardagskránni er í fullum gangi. Hún segir að eftir sumarið taki svo við almennur rekstur, áætlanagerð og undirbúningur næsta árs. Á veturna er einnig skráningarvinna og safnkosturinn skoðaður, þannig að óhætt er að segja að starfið sé misjafnt milli árstíma. Að sögn Ingu er staðsetning safnsins góð varðandi ferðafólk, því þeir sem koma á svæðið fara flestir á Látrabjarg og þá er safnið í leiðinni og sýningin endurspeglar samfélagið og ferðafólkið fær þá dýpri upplifun og meiri þekkingu heldur ef þeir færu bara út á bjarg og tilbaka. 

Minjasafnið að Hnjóti, Hnjótur, minjasafn, safn, Vestfirðir, landsbyggðin, Patreksfjörður, úr vör, vefrit
Farið er í gönguferðir með hópa sem tengjast oft sýningum safnsins. Ljósmynd Minjasafnið að Hnjóti

Að sögn Ingu er meira um að ferðamenn komi en heimamenn, þó heimamenn séu mjög duglegir að sækja safnið. „Ég vann í safni annarsstaðar áður en ég kom hingað og þar var miklu minna af heimafólki að koma. Gestafjöldi hefur verið í kringum 3.500 mjög lengi en við fengum þó smá dífu í fyrra eins og allir aðrir, þegar það rigndi stanslaust og eitthvað fótboltamót var í gangi!

„En þessi tala er samt bara fólkið sem kemur inn á safnið, svo má örugglega þrefalda þá tölu varðandi fólk sem kemur til að stoppa í kaffi eða að spyrja til vegar, það stoppa mjög margir hér“ segir Inga að lokum.



bottom of page