top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Það er nýjungagirni hér“


Mernningarhúsið Berg, Dalvík, norðurland, landsbyggð, menning, listir, bókasafn, kaffihús, Björk Hólm, úr vör, vefrit
Björk Hólm, forstöðumaður safna og menningarhússins Berg. Ljósmynd úr safni Menningarhússins Berg

Í menningarhúsinu Berg á Dalvík er til húsa sýningarsalur, kaffihús og bókasafn. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Björk Hólm, forstöðumann safna og menningarhússins Bergs og forvitnaðist um þá fjölbreyttu dagskrá sem boðið er upp á þar á bæ.


Björk tók við sem framkvæmdastjóri Bergs í febrúar mánuði síðastliðnum, en starfaði sem forstöðumaður safna frá árinu 2017. Hún segir undirrituðum að starfið sé mjög fjölbreytt. Haldnar eru listasýningar í hverjum mánuði og eru þær eins fjölbreyttar og þær eru margar að sögn Bjarkar, þar sem sýnd eru bæði málverk og ljósmyndir auk skúlptúra og textílverka. Björk segir að menningarstarf í bókasafninu hafi einnig verið aukið og fólki boðið að sækja viðburði þar að kostnaðarlausu.


„Við reynum að búa til samverustundir þar sem fólk getur komið saman. Svo er kaffihús hér í húsinu líka og þar er hádegishlaðborð á hverjum degi.

„Þannig að húsið fyllist yfirleitt alla daga í hádeginu og fólk kemur þá einnig á safnið og á bókasafnið. Þannig að þetta er góð þrenning, það getur eiginlega ekkert lifað án hvors annars. Þegar það er lokað á kaffihúsinu þá er tómlegt í hinum hlutum af húsinu og svo öfugt.“ segir Björk.

Að sögn Bjarkar auðveldar það hlutina að búa í litlu samfélagi, því það er auðvelt að eiga samtal við aðra um að gera eitthvað sniðugt saman. Hún tekur dæmi um að boðið var upp á svokallað bókabíó nýlega þegar það var starfsdagur í skóla bæjarins. Þann dag bauð kaffihúsið upp á popp og var skemmtilegt samstarf um þetta innanhúss sem allir höfðu gaman að, að hennar sögn.

Menningarhúsið Berg, tónleikar, sýningar, list, menning, Dalvík, norðurland, landsbyggð, úr vör, vefrit
Regulega er boðið upp á tónleika í sýningarsalnum í Menningarhúsinu Bergi. Ljósmynd úr safni Menningarhússins Berg

„Ég byrjaði að vera með fleiri viðburði á bókasafninu, fyrir þann tíma hafði þetta verið hefbundnara starf, en það var gaman að prófa eitthvað nýtt. Það er líka auðvelt að prófa eitthvað nýtt hér, annað hvort virkar það eða ekki og maður kemst fljótt að því hvort það virki eða ekki. Annað hvort heldur fólk að maður sé klikkaður eða að það fílar þetta og þetta hefur tekist mjög vel að mínu mati.“ segir Björk.


Björk er fædd og uppalin í Svarfaðardal en flutti í burtu 16 ára og var spennt að búa á nýjum stað. „Ég var með unglingslega sýn á staðinn, þráði eitthvað stærra og meira og langaði aldrei aftur að flytja til Dalvíkur og fannst ótrúlega spennandi að búa annarsstaðar, bæði erlendis og fyrir sunnan.

„Þannig að ég fann það þegar ég flutti tilbaka að ég þurfti að taka út mína unglingafordóma, það var meiri stemning heldur en ég var búin að búa mig undir, það er nýjungagirni hér og fólk til í að prófa nýja hluti.“ segir Björk.

Björk segir að það hafi verið markmið hennar þegar hún tók við starfinu að gera starfsemina lífræna og sjálfbæra. „Þegar ég byrjaði þá var ég að búa til allskonar og það var mín von að það myndi svo rúlla lífrænt áfram, að fólk myndi nýta sér aðstöðuna til að gera sín verkefni. Mín pæling var að það væri hægt að gera allskonar og að fólk væri velkomið að koma og gera það. Og verkefni sem hafa flotið á þessu eru uppáhaldsverkefnin mín núna. Líkt og verkefnið Tónatrítl sem vinkona mín sem er tónlistarkennari byrjaði með sem er tónlistarkennsla fyrir ungabörn, bæði 0-2 ára og 2 til 4 ára, það hefur undið upp á sig og verður vonandi að stærra verkefni. Svo byrjuðum við líka með fjölskyldu jóga og það mun vonandi líka vinda upp á sig og vona ég að svo verði raunin með fleiri verkefni sem við munum bjóða upp á.“ segir Björk.

Menningarhúsið Berg, bókasafn, menning, listir, bækur, Dalvík, norðurland, landsbyggð, úr vör, vefrit
Bókasafn bæjarins er einnig til húsa í Bergi og gerir það húsið enn aðgengilegra. Ljósmynd úr safni Menningarhússins Berg

Að sögn Bjarkar er ótrúlega verðmætt fyrir bæinn og bæjarbúa að eiga hús líkt og Berg sem hún segir vera glæsilega byggingu og sé sannarlega allra. Hún segir að það þyki mjög flott að sýna í húsinu, sér í lagi þegar þú ert ungur og upprennandi listamaður, því aðstaðan er til fyrirmyndar. Björk bætir við að það hjálpi líka til að bókasafnið sé í sama húsi, það er sú stofnun í sveitarfélaginu sem sé hvað minnst pólitísk, þar ríkir jafnræði og allir eiga frjálst aðgengi inn í húsið.


„Það getur verið stressandi að búa til viðburð og að bíða eftir að einhver komi, en svo er ótrúlega gaman og fullnægjandi þegar það mætir mikið af fólki og allir eru að skemmta sér vel.

„Þetta er örugglega svipað eins og þegar þú ert meira spenntur að gefa jólagjöf heldur en að fá jólagjöf. Ég brenn fyrir að gera eitthvað sem aðrir hafa gaman af og þegar það tekst, þegar fólk fattar þetta og kemur, þá man ég af hverju ég hafði ótrúlega mikið fyrir þessu!“ segir Björk að lokum og hlær.
Menningarhúsið Berg, Dalvík, menning, listir, norðurland, landsbyggð, úr vör, vefrit
Fjölbreytt starfsemi er í boði í menningarhúsinu og lögð áhersla að bjóða upp á viðburði fyrir alla. Ljósmynd úr safni Menningarhússins Berg


bottom of page