top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Matarmenning og sjálfbærni


Matarmenning, Guðrún Anna Finnbogadóttir, sjálfbærni, matarmenning og sjálfbærni, matur, matarsóun, hlýnun jarðar, matarboð, nýjir tímar, umhverfisvernd, heimabyggð, nærumhverfi, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„ Staðreyndin er að við þurfum að vera umburðarlynd fyrir fjölbreytileikanum líka þegar kemur að grænmeti og öðrum matvælum.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Maður er manns gaman og einn af þeim þáttum sem tengja okkur saman er maturinn. Það er fátt betra en að borða saman með fjölskyldunni eða bjóða heim góðum vinum og njóta þess að borða saman. Hinsvegar höfum við verið að fjarlægjast hvort annað með nútímatækninni sem þó færir okkur nær hvort öðru eins öfugsnúið og það nú er.


Einn þáttur í þessari menningu er að þegar við bjóðum fólki heim hefst leitin að stórkostlegum uppskriftum og ekkert er til sparað svo að gestirnir fái einstaka upplifun á diskinn.

Þessi tilhneiging hefur tvær afleiðingar í för með sér. Þá fyrri að fáir hafa tíma til að leita að hinni fullkomnu uppskrift og matreiða en hitt að oft er hráefnið mjög kostnaðarsamt og því hefur fólk ekki efni á að láta þessa matarupplifun með vinunum verða að veruleika og niðurstaðan er að slá öllu á frest og háleit markmið enda með broskalli á netmiðlum í stað upplifunar.

Þegar við tölum um mat, ræðum við minna um uppruna hans og hvað það er sem við höfum aðgang að í nærumhverfinu. Nú er að hefjast átak á Norðurlöndum þar sem gæðastaðlar matvæla verða endurskoðaðir því við erum að sóa mjög miklum mat. Nýjustu rannsóknir sýna að 2/3 hluta þess matar sem fer til spillis, fer til spillis áður en neytendur hafa aðgang að honum. Má þar nefna skrýtnar gulrætur, illa vaxin epli, röng stærð af grænmeti og svona mætti lengi telja.


Staðreyndin er að við þurfum að vera umburðarlynd fyrir fjölbreytileikanum líka þegar kemur að grænmeti og öðrum matvælum. Hinsvegar hafa heildsalar slæma reynslu af að setja ólögulegt grænmeti í hillurnar og það situr eftir og verður að sóun í verslunum.

Til að breyta þessum kröfum neytenda um hið fullkomna útlit matvæla eru komin ”ljótu grænmetis horn” í verslunum erlendis þar sem neytendum er boðinn afsláttur sem er ágætis skref í þá átt að kenna neytendum að útlitið ræður ekki gæðum grænmetisins. Við þurfum að endurskilgreina hvað ”gæðagrænmeti” er í hugum okkar.

Matarmenning, Guðrún Anna Finnbogadóttir, sjálfbærni, matarmenning og sjálfbærni, matur, matarsóun, hlýnun jarðar, matarboð, nýjir tímar, umhverfisvernd, heimabyggð, nærumhverfi, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Fyrir okkur neytendur er mikilvægt að við hendum minna af mat þegar heim er komið og hugsum matarinnkaupin með minni sóun í huga“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Það er mikil þróun í matvælaframleiðslu og aukin áhersla á að kaupa mat úr nærsamfélaginu liður í þessu eru ”sveitamarkaðir” sem hefur fjölgað á síðastliðnum árum. Nýlega fengum við þær frábæru fréttir að Arna mjólkurframleiðandinn í Bolungavík sem hefur átt stórleik á mjólkurmarkaðinum með laktósafríar mjólkurvörur er farin að rækta kryddjurtir til að setja í ostana og jarðarber til að setja í jógúrt og skyrvörurnar.

Þarna er framsýnin slík að það er aðdáunarvert. Til þess svo að halda áfram sínu góða starfi og svara kalli neytenda með óþol hefur fyrirtækið einnig fengið styrk til að hanna ”hafrasúrmjólk” og verður spennandi að fylgjast með vöruþróuninni hjá þeim.

Mig langar að hvetja alla til að líta sér nær þegar nær dregur jólum og gefa íslensk matvæli úr nærsamfélaginu í jólagjöf. Varla hægt að hugsa sér betri gjöf en þá sem fyllir maga og skapar ljúfar minningar og skapa gott tækifæri til að bjóða góðum vinum í kræsingarnar. Stóra markmiðið er að stuðla að sjálfbærni með því að kaupa gamalt og nýtt matarhandverk sem sveitungar okkar eru að framleiða og styrkja þannig nærsamfélagið.


Fyrir okkur neytendur er mikilvægt að við hendum minna af mat þegar heim er komið og hugsum matarinnkaupin með minni sóun í huga. Ein leið til að minnka sóun er að bjóða gestum þegar hefur verið eldað of mikið og við getum ekki torgað því eða lækka kröfurnar og bjóða í jarðarberja súrmjólkurkvöld úr Bolvískum jarðarberjum og njóta þess að hafa gaman saman með einföldum hætti.

Comments


bottom of page