top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ljóðið lifnar við á skjánum


Ljóðamála, Ásgeir H Ingólfsson, Arnheiður Eiríksdóttir, ljóð, ljóðlist, list, menning, ljóðskáld, N4, sjónvarpsþáttur, landsbyggðin, Darrell Jónsson, úr vör, vefrit
Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna ljóðadagskrána á skjánum. Með þeim á myndinni er austur-þýska njósnasjónvarpið RFT. Mynd: Darrell Jónsson.

Ljóðskáld munu stíga á stokk í glænýrri sjónvarpsþáttaseríu sem hefur göngu sína á sjónvarpsstöðinni N4 þann 15. júní næstkomandi. Í þáttum sem nefnast „Ljóðamála á almannafæri” er ljóðskáldum og kvikmyndagerðarmönnum stefnt saman á ljóðahátíð á skjánum, en 14 skáld munu koma fram í alls sjö þáttum.

Í fréttatilkynningu frá N4 segir að skáldin sem stígi á stokk í þáttunum komi víða að, en þó eru norðlensk skáld áberandi. Meðal annars koma Akureyrarskáldin Arnar Már Arngrímsson, Eyþór Gylfason, Sesselía Ólafs, Vilhjálmur B. Bragason og Ásgeir H. Ingólfsson fram í þáttunum. Að sunnan koma Bergþóra Snæbjörnsdóttir, María Ramos, Loki, Soffía Bjarnadóttir, Þórdís Helgadóttir og Ásta Fanney Sigurðardóttir. Þá koma nokkrir gestir að utan við sögu þau Tereza Riedlbauchová frá Tékklandi, Jonas Gren frá Svíþjóð og Vestur-Íslendingurinn Darrell Jónsson frá Alaska. Það eru þau Ilona Gottwaldova, Eiríkur Örn Norðdahl og Ásgeir H. Ingólfsson sem sjá um að þýða ljóðin og munu öll birtast á skjánum líka.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu kemur einnig fram að kvikmyndagerðarmennirnir sem færa okkur ljóðskáldin heim í stofu séu þau Kári Liljendal, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Atli Sigurjónsson, Haukur Valdimar Pálsson, Hallur Örn Árnason og Darrell Jónsson, en sá síðarnefndi sér líka um upptöku í stúdíói í MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H. Ingólfsson kynna dagskrána.


Framleiðendur þáttanna eru Menningarsmygl og Urban Space Epics og syrktaraðilar eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Akureyrarbær og Landsbankinn. Við hvetjum áhugasama endilega um að taka 15. júní frá, þetta verður án efa áhugavert og kærkomið efni.

Hér má sjá stiklu um þáttinn: https://www.youtube.com/watch?v=RcMp-yXvYik


Texti: Aron Ingi Guðmundsson


bottom of page