Vestfirskir listamenn
Guðmundur Pálsson
F. 22. ágúst 1927 í Bolungarvík. D. 5. ágúst 1987 í Alcoy á Spáni.
Öndvegisverk: Lucky í Beðið eftir Godot, 1959. Pétur í Sögu úr dýragarðinum, 1964. Tommi í Djölfaeyjunni, 1986.
„Listin hefur gefið mér nýtt líf, nýjan baráttukjark, nýjan heim, dásamlegan heim.“ Svo ritaði bolvíski leikarinn Guðmundur Pálsson besta vini sínum heima í Víkinni árið 1951. Þá hafði hann látið leikaradraum sinn rætast var fluttur suður og innritaðist í Leiklistarskóla Ævars Kvaran. Þaðan lá leið hans í Þjóðleikhússkólann og loks árið 1955 nam hann leiklist í Vínarborg í Austurríki. Kemur svo aftur heim til Íslands og hefst þá farsæll leikferill hans hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Ekki bara sem leikari heldur og heldur einnig í stjórn félagsins. Var enda snemma mikill félagsmaður því heima í Bolungarvík stofnaði hann ásamt besta vini sínum í Víkinni, Litla ferðafélagið, sem fór margar ævintýrareisunar um fjöll og firnindi á svæðinu.
Hafði hann enda mikla unun af útivist og hreyfingu sem án efa hefur komið honum að góðum notum er leikferillinn hófst. Enda reynir oft duglega á leikarann bæði líkamlega og ekki síður andlega.
Seinna var Guðmundur aðalhvatamaðurinn að stofnun skátafélagisns Gangherjar í Bolungarvík og var fyrsti formaður þess. Hann starfaði með Ungmennafélaginu í Víkinni og var um tíma formaður íþróttaráðs. Guðmundur fór til Ísafjarðar í gagnfræðiskólann og þar stundaði hann jafnframt skíðaíþróttina af kappi. Ekki nóg með það heldur var hann einnig skíðakennari. Gagnfræðiprófinu lauk hann 1944 og fór þá aftur til Bolungarvíkur. Þá starfaði hann um tíma á skrifstofu stórfirma Einars Guðfinnssonar.
Árið 1948 var stofnað sérstakt félag í Bolungarvík þegar ráðist var í það stórverkefni að byggja þar félagsheimili og var Guðmundur í fyrstu stjórn félagsins. Svo tók hann þátt í leiksýningum í Víkinni lék m.a. í Hanagalinu sem kvennfélagið Brautin færði á svið árið 1950 sama ár og hann flutti suður til að leikaramennta sig. Það er bara þannig að sumir hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum. Ekki nóg með að Guðmundur var einn aðalleikari Leikfélagins um áratugaskeið heldur var hann einnig lengst af í stjórnarbrúnni. Enda bar hann hag Leikfélagsins mjög fyrir brjósti.
Guðmundur Pálsson lék nærri 100 hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hefðu þau án efa orðið mun fleiri því hann lést langt fyrir aldur fram. Var bráðkvaddur 5. ágúst 1987 skömmu fyrir 60 ára afmælið en fyrr um sumarið hafði hann fengið vægt hjartaáfall. Guðmundur var fyrst og fremst leikhúsmaður en lék þó aðeins í sjónvarpi átti t.d. stórleik í sjónvarpsleikritinu Matreiðslunámskeiðið, 1984. Einnig lék hann í fjölda mörgum útvarpsleikritum.
En leikhúsið var hjarta Guðmundar og þá einkum það sem stóð við Tjörnina í Reykjavík en flutti síðar yfir í hið glæsta Borgarleikhús. Sjálfur var hann fremstur í flokki Borgarleikhúsdraumsins, var í bygginganefndinni frá upphafi en náði ekki að upplifa drauminn.
Þegar rýnt er í orð gagnrýnenda um leik Guðmundar Pálssonar má víða finna fögur orð um hans leiktúlkun. Einsog kannski eðlilegt er þá má segja að hrifningin verði meiri eftir því sem á líður ferilinn. Strax árið 1957 fær hann m.a. þessa umsögn eins gaggarans: „Guðmundur Pálsson er mjög geðfelldur leikari á öruggri leið til þroska.“ Og meira gagg um leikarann bolvíska: „Guðmundur er myndarlegur og mjög skýr í máli, leikurinn traustur og vandaður. Og eitt til: Guðmundur Pálsson gerði skyldu sína sem fyrirmaðurinn berstrípaði í öskutunnunni.“
Síðasta gaggið á við sýningu leikfélagins á tveimur einþáttungunum eftir ítalska farsaskáldið Dario Fo hvar annar leikurinn hét einmitt Nakinn maður og annar í kjölfötum, 1964, og Gvendur var einmitt í hlutverki hins nakta.
Guðmundur var fjölhæfur leikari og var sérlega skemmtilegur í gamanleikjum. Má þar nefna túlkun hans á hinum einfalda Ebba í öðrum einþáttungi Táp og fjör, 1967, eftir Jónas Árnason. Hann fór ekki síður á kostum í öðrum leik Jónasar, Þið munið hann Jörund, 1969, en þar lék hann Stúdíósus. Og bætum hér við þriðja Jónasarleiknum og líklega þeim vinsælasta nefnilega Deleríum búbónis, 1958, hvar Gvendur var Unndór Andmar. Hlutverkin þurftu þó ekki alltaf að vera stór enda sagði margur leikhúsmaðurinn að Guðmundur væri einmitt sérlega góður í því að gera mikið úr litlum hlutverkum. Má í því samhengi nefna túlkun hans á Kvisti í Draumi á Jónsmessunótt, 1984. Síðasta hlutverk Guðmundar var rulla Tomma í Djöflaeyjunni, 1986, sem Leikfélagið sýnd í skemmu einni er var á Meistaravöllum í Reykjavík.
Árið 1962 gekk Guðmundur að eiga lífsförunaut sinn Sigríði Hagalín, leikkonu. Samstíga voru þau sannlega. Störfuðu bæði með Leikfélagi Reykjavíkur og voru meðal helstu leikara senunnar við Tjörnina í áratugi. Dóttir þeirra Hrafnhildur Hagalín heillaðist einnig af leikhúsinu og starfar sem leikskáld.
Það eru ekki bara gaggarar sem fóru fögrum orðum um leikarann velvirka Guðmund Pálsson heldur og hans samstafs- og samtíðarfólk. Enda var hann mjög virtur innan leikhúsenunnar. Við hæfi er að enda þetta greinarkorn um bolvíska leikarann á minningarorðum er einn samferðamaður ritaði: „Ljúfmenni, orðheldinn, ósérhlýfinn. Vildi ávallt leysa hvers manns vanda.“
Texti: Elfar Logi Hannesson
Sveinn Einarsson. Íslensk leiklist III. Hið íslenska bókmenntafélag, 2016.
Þórunn Valdimarsdóttir, Eggert Þór Bernharðsson. Leikfélag Reykjavíkur. Aldarsaga. Mál og menning, 1997.
Comments