top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Gleðin í fyrirrúmi

Updated: Mar 29, 2019


RÖSK, Akureyri, Arie Wapenaar, úr vör, vefrit
Listhópurinn RÖSK, þær Brynhildur, Dagrún, Jonna og Þóra. Ljósmynd Arie Wapenaar.

RÖSK er samsýningarhópur fjögurra kvenna sem hafa sýnt saman síðan árið 2014. Hópurinn samanstendur af þeim Brynhildi Kristinsdóttur, Dagrúnu Matthíasdóttur, Jónborgu Jonnu Sigurðardóttur og Þóru Karlsdóttur. Sýningarnar þeirra bera skemmtileg heiti á borð við Kjólandi, Svuntandi og Skrímslandi svo eitthvað sé nefnt og fólk getur tekið þátt í þeim með því að máta hatta, kjóla og svuntur. Það er óhætt að segja að gleðin ríki hjá hópnum og lék blaðamanni ÚR VÖR forvitni að vita meira um hópinn. Pantaður var því símatími til Akureyrar á dögunum og vinkonurnar teknar tali um fortíðina, nútíðina og framtíðina.


RÖSK sýnir oft á tíðum skúlptúra utanhúss og eru með listasmiðjur fyrir fólk á öllum aldri. Þær eru allar sjálfstætt starfandi listamenn og vinna í allskonar miðla. Það má segja að það sem sameini þær er það þema sem þær velja hverju sinni í sameiningu fyrir samsýningarnar sínar.

„Við viljum færa listina nær fólkinu og gerum það með okkar verkum. Fólk getur stillt sér upp þ.á.m. með skúlptúrunum og tekið selfie eða mátað hluta af sýningunum, eins og hatta og skó t.d. Við styðjum og veitum hvor annarri innblástur. Þótt við vinnum í sitt hvor horninu þá mætumst við í þemanu hverju sinni og smellum alveg saman að lokum.“ segja þær.
RÖSK, Hof, Akureyri, Arie Wapenaar, úr vör, vefrit
Þóra á 100 ára kosningaafmæli kvenna í Hofi á Akureyri. Ljósmynd Arie Wapenaar.

RÖSK voru með með listahátíð í Hrísey síðastliðið sumar þar sem tólf listamenn komu fram. Fyrirhugaðir eru listasmiðjur í Hrísey, Grímsey, Hlíðarfjalli og í Listagilinu. „Hríseyrjarhátiðin gekk mjög vel og vilja þau gjarnan fá okkur aftur þangað með listasmiðjur. Við verðum svo með listasmiðjur í Hlíðarfjalli, verðum með skúlptúra þar til sýnis fyrir gesti og gangandi. Það verður bara núna á Barnamenningarhátíðinni þann 13. apríl næstkomandi.“

Hópurinn hefur vinnurými, RÖSK RÝMI, þar sem eru vinnustofur og sýningaraðstöðu. Þær fengu nýlega þær góðu fréttir að Akureyrarbær mun veita þeim rekstrarstyrk fyrir rýmið. Þangað koma gestalistamenn af og til og einnig hafa listamenn unnið þar og haldið svokallað listamannaspjall og sýningar. Einnig hefur Uppbyggingarsjóður veitt þeim styrki til að halda vinnustofur víða

„Við erum listamenn og okkur finnst að við eigum að fá greitt fyrir vinnu okkar eins og allir aðrir og höfum verið að berjast fyrir því. Það má segja að það hafi verið mikil uppsveifla í þessum geira hér í bænum. Myndlistarfélagið hefur fengið sal til leigu og við fengum okkar rými til dæmis.“ segja þær stöllur.

RÖSK, Hof, Akureyri, Arie Wapenaar, úr vör, vefrit
Brynhildur á 100 ára kosningaafmæli kvenna í Hofi á Akureyri. Ljósmynd Arie Wapenaar.

Þær segja að listaflóran á Akureyri sé mjög spennandi. Þar sé allt á sama punktingum, mikil stemning og jafn mikill suðupottur þar heldur en í höfuðborginni, þar sem allt sé dreifðara. „Hér geturðu gengið á milli staða þar sem eru sýningar og kemst meira að segja varla yfir það stundum því það er svo mikið í gangi!

„Við værum þó mjög áberandi ef við værum í höfuðborginni. Við vorum með nokkra viðburði sem var vel tekið í hér í bænum, en drógum okkur í smá hlé og fórum í Hríseyjar með listahátiðina. Við heyrðum að okkur var sárt saknað á Akureyri því við setjum vissulega okkar spor í flóruna. En við munum halda þessa hátíð aftur í Hrísey, og kannski annarsstaðar, eigum eftir að ákveða hvort það verði tvíæringur eða eitthvað annað“

Að sögn hópsins er vinnuumhverfið á Akureyri til fyrirmyndar. Þær segja sterka starfsemi veria í Listagilinu og að góð samvinna sé þar meðal listafólks. Þar eru haldnir svokallaðir Gildagar þar sem settar eru upp myndlistarsýningar víða. Þó að gleðin ráði ríkjum hjá þeim þá vilja þær samt láta taka sig alvarlega og segjast ekki vera bara eitthvað skemmtiatriði. Síðasti gjörningur þeirra, Uppsker, er t.d. mikil ádeila á að sá sem stritar er ekki sá sem uppsker.

En það er ekki langt í glensið og hópurinn slær á létta strengi að lokum.

„Okkur langar að víkka sjóndeildarhringinn og ætlum að skoða Feneyjar tvíæringinn, gerum kannski eitthvað þar, öllum að óvörum á Markúsartorginu. Svona off venue dæmi, þeir sem sjá okkur þar verða bara heppnir því það verður ekki auglýst áður. En engar áhyggjur, við munum mynda það bak og fyrir, það verða sko teknar upp heimildir!“

RÖSK, Hof, Akureyri, Arie Wapenaar, úr vör, vefrit
Dagrún á 100 ára kosningaafmæli kvenna í Hofi á Akureyri. Ljósmynd Arie Wapenaar.


Comments


bottom of page