top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Sköpun beggja vegna við listaverkið“

Updated: May 30, 2019


Listasafn Árnesinga, Inga Jónsdóttir, úr vör, vefrit
Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga. Ljósmynd Listasafn Árnesinga

Listasafn Árnesinga er eitt af elstu listasöfnum landsins utan höfuðborgarinnar. Safnið, sem var handhafi Íslensku safnaverðlaunanna árið 2018 var upprunalega staðsett á Selfossi og var stofnað í október árið 1963. Síðar flutti það í stærra húsnæði í Hveragerði og var fyrsta sýningin þar opnuð árið 2003.


Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til Ingu Jónsdóttur, safnstjória safnsins, sem sagði að fyrri safnstjórar hafi ekki haft úr miklu að moða m.a. vegna kostnaðar við flutninginn til Hveragerðis. Hún segir að það hafi þó smám saman aukist skilningur fyrir því hvaða möguleikar slík söfn geta gefið til samfélagsins þannig að núna sé staðan þannig að hægt er að gera meira en áður.


Inga segir að forverar hennari hafi byggt ákveðinn grunn varðandi starfsemina áður en hún hafi sjálf tekið við. Hún segir að lagður sé metnaður í að setja upp vandaðar sýningar í safninu og er vilji að hafa þær nógu fjölbreyttar og ólíkar svo þær höfði til breiðari hóps gesta. Auk sýninganna hefur fræðslufulltrúi safnsins, Kristín Þóra Guðbjartdóttir haldið úti listasmiðju yfir veturinn sem fram fer síðasta sunnudag hvers mánaðar. 

Þar er boðið er upp á allskyns skapandi verkefni sem hafa tengsl við þær sýningar sem eru í gangi hverju sinni. Einnig er boðið upp á leiðsagnir og spjall um sýningarnar og að sögn Ingu finnst fólki oft gott að fá hjálp við að ná tengingu við verkin og segir hún að það eigi sérstaklega við um samtímalist. 
Listasafn Árnesinga,  listasafn, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Metnaður er lagður í að setja upp fjölbreyttar og ólíkar sýningar í listasafninu. Ljósmynd Listasafn Árnesinga

„Ég vil að fólk komi hingað á sínum eigin forsendum og hvet það til að skapa tengls við ákveðin verk. Heimsókn í listasafn gefur tækifæri til svo margs. Þú getur verið að skoða eitthvað sögulegt verk, eða sem tengist tíðarandanum og svo geturðu verið að skynja form og liti.

„Fólk segir stundum að það hafi ekkert vit á list og listaverkum en ég segi að allir hafi vit á því á sínum forsendum og svo er alltaf hægt að leita sér viðbótar vitneskju og við hvetjum fólk til þess að gera það. Við hvetjum fólk til að velja ekki bara hvað er fallegt og hvað ljótt heldur skapa frekar tengsl við einhver ákveðin verk.“ segir Inga.

Samkvæmt Ingu er skráður niður gestafjöldi safnsins og eru Íslendingar í meirihluta en yfir sumartímann koma töluvert margir erlendir gestir í safnið að hennar sögn. Hún segir að Árnesingar sæki safnið í auknum mæli og er það að spyrjast út meðal heimamanna. Að sögn Ingu er enn fólk að koma í heimsókn á safnið sem hefur búið á svæðinu í langan tíma en hefur ekki haft hugmynd um það. Segir hún að reynt sé að vekja athygli á starfseminni en í öllu áreiti nútímans þá hverfi það stundum. 

Listasafn Árnesinga, listasafn, úr vör, vefrit
LÁ gjörningur sem fram fór í safninu þann 19. maí. Ljósmynd Listasafn Árnesinga

Safnið hefur verið í samstarfi við önnur söfn í gegnum tíðina, bæði íslensk sem og erlend. Efnt var til samvinnu við Gerðuberg í Reykjavík eitt árið þar sem fimm pólskir ljósmyndarar og fimm íslenskir rithöfundar fóru á mismunandi staði á landinu og úr því varð bók og sýning bæði í Hveragerði og í Reykjavík. „Þetta var ein sýning og þú þurftir að fara á báða staðina til að sjá hana alla. Sú sýning fór svo víða um Evrópu.

Á sýningunni Mismunandi endurómun sem nú stendur, eru verk eftir Sigrúnu Ólafsdóttir, sem er héðan af svæðinu og fimm kollegum hennar sem öll eru búsett í Þýskalandi og þar er Sigrún að geta sér gott orð. Yfirleitt erum við með sýningar á verkum íslenskra listamanna þar sem listamennirnir eða viðfangsefnið hafa tengsl við svæðið, en við einblínum ekki á það, það er ekki skilyrði.“ segir Inga.

Inga telur að skólar geti nýtt sér svona stofnun mun betur en þeir gera. Hún segir að þetta komi auðvitað inn á peningamál, það kosti að leigja rútu og koma með börnin á safnið víða að úr sveitarfélaginu. Hún segir starfið verið virkilega skemmtilegt og nýtur hún samvinnunar við listafólkið sem sé svo skapandi og frjótt að hennar sögn og komi oft með annað sjónarhorn á hlutina. Að sögn Ingu eru mannleg samskipti gefandi og gefur starfsfólk safnsins sér góðan tíma til að taka á móti fólki, auk þess sem hún leggur áherslu á upplifun gestanna af sýningunum.

Listasafn Árnesinga, listasafn, úr vör, vefrit
Frá sýningunni 100 ára fullveldi í hugum barna. Ljósmynd Listasafn Árnesinga

„Það á sér stað sköpun líka við skoðun og það getur komið allt annað sjónarhorn og það finnst mér skemmtilegast.

Ég segi alltaf fyrst kemur listamaður og skapar, en þó getur endanlegt listaverk oft orðið eitthvað annað en lagt var upp með. Svo kemur áhorfandinn hinum megin frá og hann sér kannski ekki endilega það sem listamaðurinn ætlaði sér heldur eitthvað allt annað. Þannig að það á sér sköpun beggja vegna við listaverkið.“ segir Inga að lokum.
Listasafn Árnesinga, listasafn, mismunandi endurómun, úr vör, vefrit
Verk í sýningunni mismunandi endurómun sem sýnd er þessa dagana í safninu. Ljósmynd Listasafn Árnesinga


Opmerkingen


bottom of page